Ákvörðunin um að taka þátt í Edinborgarmaraþonhlaupinu í lok maí var tekin á mjög skömmum tíma eins og margar ákvarðanir í lífi Birnu Írisar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Fractal ráðgjafar. „Stundum er ég alveg eldsnögg að taka ákvarðanir og það var þannig með þessa ákvörðun. Ég var á fundi með samstarfskonu minni og talið barst að því að hún hafði búið, lært, unnið og lifað í Edinborg og eitt sinn hlaupið maraþonið þar. Ég aflaði mér upplýsinga um hlaupið, leist vel á og var búin að skrá mig fimm mínútum eftir að ég settist við tölvuna mína. Sjálf hef ég komið áður til Edinborgar og kann vel við borgina þannig að mér fannst þetta tilvalið tækifæri.“

Það ríkir jafnan góð stemning í Edinborgarmaraþonhlaupinu. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Spennt á ráslínunni

Fyrir hlaupið var Birna búin að vera í mjög góðri og markvissri þjálfun í nokkra mánuði hjá Sigurði Erni Ragnarssyni, einum besta þríþrautarmanni landsins. „Ég er búin að æfa þríþraut síðan 2015 en fyrir undirbúning hlaupsins setti ég hjólið aðeins á hilluna og einbeitti mér bara að hlaupum og auðvitað sundi. Æfingarnar voru búnar að ganga mjög vel, ég hafði þurft að hægja vel á mér fyrstu vikurnar í prógramminu þar sem Sigurður leggur áherslu á æfingar á lágum púls. Það magnaða sem gerist þegar æfingarnar eru settar upp með þessum hætti er að hraðinn eykst á lága púlsinum. Það er virkilega gaman að upplifa það. Og með allar þessar góðu æfingar í bankanum var ég tilbúin og virkilega spennt á ráslínu.“

Birna segist líka hafa verið á nokkuð ströngu mataræði vikurn­ar fyrir hlaup. „Ég er viðkvæm í maganum eins og margir hlauparar kannast við og var þess vegna búin að undirbúa það líka. Næringarplanið í hlaupinu var 4-6 gel en það var of lítið eins og átti eftir að koma í ljós. Planið var að hlaupa á púls ca. 162–166 sem skilaði mér á ca. 5:00 pace +/- 15 sek.“

Aðstæður nánast fullkomnar

Allt gekk upp í plani Birnu. Hún segir að sér hafi liðið mjög vel og það stefndi í að hún myndi ná markmiði sínu, sem var að bæta besta tímann sinn og fara jafnvel undir 3 tíma og 40 mínútur. „En svo kom 30 kílómetra veggurinn og ég bonkaði, það er, glýkógenbirgðir líkamans kláruðust. Það hægðist verulega á mér þarna og ég hljóp síðustu 12 kílómetrana miklu hægar en góðu hófi gegndi. Ég kláraði hlaupið á 3 tímum, 51 mínútu og 51 sekúndu. Mér leið ekki vel þegar ég kom í mark, stóð varla í lappirnar og fékk einhvers konar krampa í allan líkamann, en það er auðvitað alltaf algjör alsæla að klára keppnina.“

Aðstæðurnar í hlaupinu voru nánast fullkomnar að hennar sögn. „Hitastigið var 16–23 gráður og brautin er mjög þægileg með litla sem enga hækkun og hellings lækkun í byrjun. Það var smá andvari og sólin faldi sig að mestu leyti. Drykkjarstöðvarnar buðu framan af bara upp á vatn en seinna meir bættust við orkudrykkir.“

Birna Íris fékk krampa í allan líkamann í lok hlaups en fannst um leið algjör alsæla að klára keppnina.

Setti kraft í hlaupin 2011

Birna hóf að hlaupa árið 2006 og sótti meðal annars hlaupanámskeið hjá Mörtu Ernstsdóttur. Á þessum tíma var hún með ung börn og eignaðist svo annað barn 2008. Fyrir vikið voru fyrstu hlaupaárin frekar stopul að eigin sögn. „Ég setti þó meiri kraft í hlaupin í kringum 2011 og var staðráðin í því að ná að hlaupa heilt maraþon fyrir fertugt. Það tókst í Reykjavíkurmaraþoninu 18. ágúst árið 2012 en þá hljóp ég á 4:42:32. Næsta maraþon sem ég hljóp var í apríl 2016 og þá hljóp ég á 3:46:44 sem er næstum klukkutíma bæting. Þetta var í vormaraþoni Félags maraþonhlaupara, en á þessum tímapunkti var ég búin að æfa markvisst í eitt ár.“

Fyrir utan fyrrnefnd maraþonhlaup hefur Birna hlaupið heilt maraþon í Kaupmannahöfn 2019 og því hlaupið fjögur slík hlaup. „Reyndar hef ég líka hlaupið tvö heil maraþon í IronMan-keppnum, en þau teljast eiginlega ekki með sem maraþonhlaup því það er svo allt annað verkefni. Ég hef svo hlaupið slatta af hálfum maraþonum og nokkrum sinnum 10 og 5 kílómetra.“

Birna skoðaði sig aðeins um í Edinborg fyrir hlaupið. Hér er hún fyrir framan Scott Monument við Princes Street.

Gott fyrir líkama og sál

Birna segir hlaup vera eitt af því besta sem lífið hefur upp á að bjóða. „Ég er svo viss um að ef við myndum öll hlaupa þá væri heimurinn hreinlega betri. Líðanin í líkamanum er svo góð eftir gott hlaup, líkaminn verðlaunar okkur með alls konar góðum efnablöndum, 100% löglegum og heilnæmum. Ég hef líka verið svo heppin að upplifa stundum það sem kallað er „runners high“. Sú tilfinning er alveg mögnuð, ég verð létt eins og fjöður og svíf um malbikið, þarf að halda aftur af hraðanum og er með hálfgerða gæsahúð og þvílíkar hamingjuhugsanir að ég get ekki þurrkað brosið af vörunum.“

Og hugurinn elskar líka hlaupin að hennar sögn. „Oft leysi ég flókin mál, bæði tengd vinnu og einkalífi, á rólegu skokki og núvitundin í sprettunum er algjör. Fyrir utan allt þetta hef ég kynnst heilum hellingi af frábæru fólki í gegnum hlaupin og þríþrautina. Ég hef aðallega hlaupið á malbiki en nú er ég aðeins að byrja að færa mig í fjöllin og út í náttúruna og það setur auðvitað aðra vídd í þetta hlaupabrölt. Það er varla til nokkuð betra en sambland af hlaupi og náttúru.“

Fyrsti kaffibollinn eftir hlaupið bragðaðist einstaklega vel.

Ýmislegt gert sér til skemmtunar

Þótt maraþonhlaupið hafi verið tilgangur ferðarinnar náði Birna að gera ýmislegt annað. „Edinborg er yndisleg borg og ég mæli með bæði borginni og þessu hlaupi fyrir alla. Það var hlaupahátíð þessa helgi og hægt að velja styttri vegalengdir. Við skoðuðum Edinborg, röltum um, kíktum á kastalann og borðuðum góðan mat. Við flugum svo heim frá Glasgow og stoppuðum þar í einn sólarhring sem var að mestu eytt í tískuvöruverslunum og svefn. Þetta var því góð ferð og gott hlaup sem ég get sannarlega mælt með.“