Edda Björg Eyjólfsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson leika hjónin Hauk og Lilju í samnefndu leikverki eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem verður frumsýnt á heldur framandi slóðum, í Ásmundarsal, í kvöld.

„Mér finnst Elísabet svo skemmtileg og textarnir hennar svo sniðugir. Þetta er snoturt og sniðugt leikrit um par sem er að taka sig til fyrir veislu og það hentaði bara svona svakalega vel,“ segir Edda Björg, sem setti saman hóp í kringum verkefnið eftir að hafa fengið styrk til uppsetningarinnar.

„María Reyndal er leikstjóri og hún heldur svo fallega utan um allt og alla og keyrir þetta áfram,“ segir Edda, sem leitaði síðan ekki langt yfir skammt að höfundi tónlistarinnar. „Ég bý ótrúlega vel og er svo vel gift þannig að það er hann Stebbi minn,“ segir Edda og hlær, þegar hún talar um eiginmanninn Stefán Má Magnússon gítarleikara.

Sprelllifandi tónlist

„Við Þorvaldur trommari erum bara tveir þarna á sviðinu og við höfum kannski verið að fylgjast með æfingaferlinu síðustu tvær vikur,“ segir Stefán, um tónlistina í verkinu sem flæðir í takti við umhverfið og stemninguna í verkinu.

„Síðan snýst þetta bara um að finna réttu staðina þar sem þarf aðeins að búa til einhverja stemningu og við höfum í rauninni bara gert það í flæði á staðnum. Þetta er dálítið tilraunakennd tónlist að því leyti að þetta er ekki alveg fastmótað og það er ekki endilega víst að þetta verði nákvæmlega eins á næstu sýningu. Þetta verður bara svolítið spilað eftir stemningunni hverju sinni. Þetta er í rauninni bara allt saman unnið í fallegu samstarfi,“ segir Stefán um tónlistina sem óhætt er að segja að verði sprelllifandi.

Englar á sveimi

„Afi minn féll frá akkúrat þarna þegar ég er að sækja um styrkinn og ég man að ég sendi umsóknina inn á mjög sólríkum haustdegi og hugsaði með mér að kannski færu englarnir með þetta á einhvern góðan stað,“ heldur Edda áfram og bætir við að það virðist svolítið hafa gengið eftir.

Hlutar úr bókmenntaverðlaunaverki Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda, eru fléttaðir saman við leikverkið um Hauk og LIlju.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er stjarna búin að skína yfir þessu verkefni sem hefur komist yfir ýmsa þröskulda eins og heimsfaraldur og að við höfum hvorki vitað hvenær né hvar það ætti að frumsýna.

Okkur langaði mikið að vera í einhverju óhefðbundnu rými og jafnvel inni á safni og nú er þetta komið inn á safn, Ásmundarsal, og óskirnar hafa allar tínst inn.

Inn úr aprílsólarkuldanum

Síðan skín stjarna yfir Elísabetu líka, því að hún gefur út Aprílsólarkulda sem skýst alveg upp á stjörnuhimininn,“ segir Edda Björg um skáldsögu Elísabetar, sem kom út í fyrra og skilaði henni Íslensku bókmenntaverðlaununum.

„Við lásum hana og það var allt svo dásamlega fallegt í þeirri bók. Textinn er svo einlægur og sannur. Eins og efniviðurinn sem er einmitt líka ástarsaga pars, Kjartans og Védísar, og við fengum leyfi hjá Elísabetu til þess að nota svolítið úr bókinni sem við fleygum inn í okkar verk um Hauk og Lilju. Þannig kom líka aðeins meiri jarðtenging úr ástarsambandi bókarinnar sem passaði við Hauk og Lilju og þeirra sálarstríð og samskipti.“

Ásmundarsalur hefur í seinni tíð nýst undir alls kyns uppákomur og þótt þar hafi lítið verið um leiksýningar segir Edda salinn henta Lilju og Hauki sérlega vel. „Þessi salur er alveg ótrúlega fallegur og mikil gæfa yfir þessu rými og manni líður bara vel. Það er búið að vera gott að æfa þarna og bara virkilega gaman að koma þarna inn,“ segir Edda og bætir við að salnum hafi svolítið verið leyft að taka stjórnina, þannig að hann verði í raun nokkuð stór hluti af heildarmyndinni sem hverfist ekki síst um samruna listforma.

Merkingarbær salur

Texti Elísabetar er leikinn í stemningu, sem lifandi undirleikur Stefáns og Þorvaldar Þórs Þorvaldssonar trommuleikara magnar upp, auk þess sem innrömmuð, stækkuð textabrot úr leikverkinu prýða veggi salarins á eins konar listaverkasölusýningu.

„Þetta er samruni margra listmiðla,“ útskýrir Edda og segir hópinn hafa viljað prufa að þurrka dálítið út línurnar milli listgreinanna og þannig setji salurinn persónur og leikendur í annað og framandi samhengi.

Edda Björg og Sveinn Ólafur njóta sín í hvítum Ásmundarsalnum.

„Ef þú tekur þau út úr leikhúsinu og setur þau inn í annað rými þá verður það ófyrirsjáanlegra. Það er líka spennandi og kallast kannski á við þessar aðstæður sem við erum í þegar allt er eitthvað svo ófyrirsjáanlegt og maður þarf að aðlagast nýrri heimsmynd.“

Edda segir salinn þannig falla vel bæði að umgjörð og innihaldi verksins. „Það komast 24 í sæti þannig að það er allt með kyrrum kjörum, vel tryggt og samkvæmt bókinni.“

Í því samhengi verður Ásmundarsalur einmitt enn merkingarbærari þar sem skemmst er að minnast þess þegar hann varð leiksvið sóttvarnabrotsdramans mikla á Þorláksmessu.

„Svo er það líka það,“ segir Edda og skellir upp úr. „Það er líka bara yndislegt og gott. Hann er bara æðislegur þessi salur fyrir svona litla sýningu. Við mættum alveg hafa fleiri miðað við þetta rými en uppsetningin er í raun og veru stíluð inn á hvernig við setjum þetta inn í salinn. Þetta er svona nánd innan takmarkana,“ segir Edda hlæjandi.