Edda Hulda Ólafardóttir lauk BA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í vor og mun setjast aftur á skólabekk í haust þegar mastersnámið tekur við. Hún var enn í barnaskóla þegar áhuginn á tísku tók að láta á sér kræla. „Ég man að mamma tók oftast til föt á mig áður en ég fór í skólann en ég var ekki há í loftinu þegar ég vildi fá að stjórna því sjálf, enda hafði ég ákveðnar skoðanir á því hverju ég vildi klæðast.

Á unglingsárunum fór ég oft ein með strætó í Kringluna og skoðaði föt í öllum búðunum. Stundum mátaði ég það sem mér leist vel á. Þegar ég kom heim aftur skrifaði ég í sérstaka bók hvaða föt mér fannst falleg og langaði til að eignast og setti mér markmið til að spara fyrir þeim,“ segir Edda og bætir við að sér finnist tíska snúast um tjáningu.

Edda byrjaði að sauma í samkomubanninu í vetur og saumaði þennan bol.

„Þú getur tjáð þig með klæðnaði án þess að segja neitt. Föt geta líka gefið manni sjálfstraust. Ég klæðist fötum sem mér sjálfri finnast flott og fylgi ekki neinum sérstökum tískustraumum. Mér finnst mikilvægt að pæla ekki í hvað öðrum finnst, eða láta það hafa áhrif á fatavalið,“ segir Edda, sem bjó í eitt ár í London. Þar var hún au-pair hjá íslenskri fjölskyldu. „Það var algjör draumur að búa í London. Mig langaði að prófa að búa annars staðar og upplifa eitthvað nýtt. Þar kynntist ég svo mikilli fjölbreytni, þar eru engar tískureglur og ég fékk enn meiri áhuga á fötum. Í London búa margir og þar er enginn að spá í hvernig aðrir klæða sig,“ bendir hún á.

Sker sig úr í lagadeildinni

Edda hóf nám í lögfræði þegar hún kom aftur heim en hún er stúdent af málabraut frá Menntaskólanum í Reykjavík. „Það var góður grunnur fyrir laganámið, maður öðlast góðan lesskilning og síðan er mikilvægt að hafa góða málakunnáttu,“ segir hún.

Edda brosir þegar hún er spurð hvort hún skeri sig úr hvað varðar klæðaburð í lagadeildinni. „Jú, ætli það sé ekki hægt að segja það. Ég er alveg þekkt fyrir það og finnst það bara skemmtilegt.“

Skæsleg stígvél sem Edda Hulda keypti í verslun Rauða krossins.

En hvernig myndi Edda lýsa eigin fatastíl? „Hann er fjölbreyttur, litríkur og djarfur og stundum svolítið „extreme“. Ég er ekki hrædd við að skera mig úr og er til í að vera öðruvísi. Ég hef verið stoppuð úti á götu og fengið hrós fyrir hvernig ég klæði mig. Fatastíllinn sveiflast líka eftir því hvernig mér líður. Stundum langar mig að vera skvísa í skærum kjól en næsta dag langar mig að vera töffari í leðurjakka og leðurbuxum,“ segir Edda.

Hún segir að dagsdaglega klæði hún sig eftir því í hvernig skapi hún er. „Oft vel ég fötin út frá einum jakka. Þá vel ég jakka sem mig langar að vera í og hvað mér finnst passa við hann. Ég er oft í förri, eða stórum gervipelsum. Ef ég er í bleikum pels poppa ég hann upp með tösku eða sólgleraugum. Til spari er ég oft í vintage kjólum, sem ég kaupi í Gyllta kettinum, og háum boots. Ef ég vil vera mjög fín fer ég í skærlitan kjól og boots.“

Vogue og Instagram

Edda fylgist vel með hvaða trend eru í gangi hverju sinni og þá helst í Vogue og á Instagram, sem er stór miðill í tísku. „Mér finnst gaman að vita hvað er í tísku hverju sinni, þótt ég fari ekki eftir því sjálf,“ segir Edda og minnir á að tískan fari sífellt í hringi.

Hvað fylgihluti og skart varðar segist Edda oft vera með hoop-eyrnalokka, sólgleraugu og töskur í stíl við fötin. „Fylgihlutir setja oft punktinn yfir i-ið. Ef ég er í öllu appelsínugulu er ég líka með appelsínugula tösku og helst sólgleraugu í svipuðum lit,“ segir hún.

Oft byrjar Edda á að velja sér flottan jakka eða pels, þessi er frá Topshop.

Finnur fjársjóð í búðum

Uppáhaldsflíkurnar eru margar og Edda segist varla geta valið eina sérstaka úr fataskápnum. „Ég held mikið upp á seventís ljónakápu sem ég keypti á fatamarkaði og bol frá Hildi Yeoman, sem ég fékk í útskriftargjöf. Nokkrir jakkar sem ég á eru í sérlegu uppáhaldi en ég á meira en hundrað jakka. Þessi jakkasöfnun hófst þannig að ég keypti mér einhvern tímann nokkra jakka með stuttu millibili og áður en langt um leið átti ég endalaust af jökkum. Vinkonur mínar hafa gert létt grín að mér út af þessum jakkaáhuga, en bara í góðu. Í fyrra hélt ég partí í tilefni þess að ég eignaðist hundraðasta jakkann. Ég tók alla jakkana mína niður og gestirnir urðu að vera í jakka af mér og fara í þeim niður í bæ,“ rifjar Edda kímin upp.

Hún kaupir mest af sínum fötum í second hand- og vintage-búðum, eins og Rauðakrossbúðunum, Extraloppunni, Hertex og Spúútnik. „Mér finnst þetta langskemmtilegustu búðirnar. Það er eins og að fara í fjársjóðsleit að fara í slíkar búðir,“ segir Edda, sem er einstaklega hrifin af skærum litum, neon og pastel. „Núna held ég upp á pastelfjólubláan og eiturgrænan en það á örugglega eftir að breytast eftir nokkra mánuði.“

Fékk sér saumavél

Nýlega fjárfesti Edda í saumavél, sem hefur komið að góðum notum. „Í fyrstu var ég dálítið smeyk við að nota hana en í samkomubanninu í vetur fór ég að prófa mig áfram og það endaði með að ég saumaði sjálf útskriftardressið mitt. Ég nýti mér það sem ég lærði í textíl í grunnskóla, en ég var í tíu ár í textíl, og svo hef ég horft á nokkur myndbönd á YouTube, sem voru hjálpleg. Ég hef bæði breytt fötum sem ég á og saumað mér nýjar flíkur. Þó ég segi sjálf frá, þá hefur saumaskapurinn gengið ótrúlega vel.“

Líkt og margir er Edda meðvituð um endurnýtingu á fötum og hún hendir aldrei flík. „Ég byrja oft á að gefa systrum mínum föt sem ég er hætt að nota, en vil samt ekki gefa frá mér. Þá get ég tekið þau til baka ef ég sé eftir því,“ segir Edda kankvíslega en annars fara fötin til góðgerðasamtaka þar sem þau öðlast nýtt líf.