Íþróttakonan og samfélagsmiðlastjarnan Edda Falak hefur fundið ástina á ný, en sá heppni er glímukappinn Kristján Helgi sem starfar sem þjálfari hjá Mjölni. Þetta kemur fram á vef Vísis.
Ástfangin síðasta sumar
Glöggir fylgjendur Eddu Falak tóku eflaust eftir því að hún birti mynd af Kristjáni um helgina á story-svæði sínu á Instagram. Parið eyddi rómantískri helgi saman og ljóst að þau eru alsæl með að hafa fundið hvort annað.
Í samtali við Vísi greindi Edda þó frá því að þau Kristján hafi þekkst í lengri tíma og hafi fellt hugi saman síðasta sumar. Það gerðist skömmu áður en hún og fyrrverandi kærasti hennar Brynjar Löve Mogensen, betur þekktur sem Binni Löve, byrjuðu saman.
Syrgði ekki sambandsslitin
Leiðir skildu hjá Eddu og Binna í mars og var snemma ljóst að Edda syrgði sambandið ekki mikið. Eftir að hafa fengið yfir hundrað skilaboð frá aðdáendum sem voru áhyggjufullir yfir sambandsslitunum birti hún eftirfarandi skilaboð.
„Þið þurfið ekki að senda mér fleiri samúðarkveðjur. Takk fyrir áhugann og takk fyrir að spurja. Engar áhyggjur af mér að hafa elsku vinir.“ Edda greindi einnig frá því að hún hafi sjálf bundið enda á sambandið sem stóð alls yfir í rúma þrjá mánuði.
Samband þeirra Eddu og Binna vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum, ekki síst eftir að Binni greindi frá því að hann hafi fengið sér húðflúr með nafni Eddu eftir aðeins nokkurra vikna samband.