Leikkonunni Eddu Björgu Eyjólfsdóttur fannst Roman Polanski-myndin Venus in Fur ekkert sérstaklega góð þegar hún horfði á hana fyrir nokkrum árum en sá strax ákveðna möguleika í sögunni.

„Mér fannst þetta eitthvað skrítið en hugsaði með mér að þetta gæti verið frábært leikrit,“ segir Edda Björg sem eftir „gúggúl-fyllirí“ komst að því að Polanski gerði myndina einmitt eftir samnefndu leikriti David Yves og tryggði sér réttinn á því í kjölfarið.

Leikritið var frumsýnt í New York 2010, Polanski kvikmyndaði það þremur árum síðar og þannig rataði það loks til Eddu. „Ég er bara himinlifandi yfir þessu og þakklát fyrir traustið og að fá þetta tækifæri,“ segir Edda sem hlaut nýlega styrk frá Sviðslistasjóði til þess að koma loks Venusi í loðfeldi á fjalirnar á Íslandi.

„Þetta er gömul hugmynd og sumar hugmyndir eru þannig að þær koma oft upp aftur og aftur. Endalaust,“ segir Edda og gæti allt eins átt við rétt tíu ára gamalt leikritið sem á sér mun lengri sögu og rætur í sadó/masókísku skáldsögunni Venus in Furs frá 1869 eftir austurríska rithöfundinn Leopold Ritter von Sacher-Masoch.

Masókískir órar

Bókin er þekktasta verk höfundarins og byggir á blæti hans og órum sem hann reyndi að uppfylla með hjákonum sínum og eiginkonum. Sjálfsagt segir allt sem segja þarf að hugtakið „masókisti“ á rætur að rekja til bókarinnar og nafns höfundarins.

„Þótt þetta eigi að vera skáldsaga þá skrifar hann þetta út frá eigin reynslu,“ segir Edda um bókina sem hverfist um mann sem dreymir um að eiga samtal um ástina við Venus sem er klædd í pels. Hann finnur ígildi gyðjunnar í Wöndu von Dunajew og verður þræll hennar að eigin ósk og hvetur hana til þess að ganga stöðugt lengra í að niðurlægja hann.

Kvik­mynda­út­gáfa Polanskis af verki Yves var til­nefnd til Gull­pálmans í Cannes og hann hlaut César-verð­launin sem besti leik­stjórinn 2014.
Fréttablaðið/Samsett

Lúmsk í lífstykki

Þessi sagar bergmálar síðan í leikriti David Yves sem á sér stað í New York vorra daga. „Verkið fjallar um leikstjóra sem er búinn að skrifa leikrit upp úr þessari bók og er í auðu leikhúsi að tala um það í símann að allar leikkonurnar sem hafa komið í áheyrnarprufur séu svo ómögulega glataðar og lélegar.“

Þá birtist óvænt leikkonan Vanda og kemur leikstjóranum í opna skjöldu í korseletti, hvatvís og groddaleg. „Svo fer bara eitthvað af stað,“ segir Edda um orðaskipti þeirra og atburðarásina sem segja má að kristalli valdabaráttu kynjanna.

„Valdið sveiflast á milli þeirra. Hann dæmir hana fyrst mjög hart og finnst hún alveg hryllileg en í ljós kemur að hún kann allan texta handritsins og áður en hann veit af sogast hann inn í þetta, fer að lesa á móti henni og gleymir stund og stað.“

Mikið gengur á í rafmögnuðum samlestrinum og á meðan þau eru gagntekin af persónum sínum nær leikkonan drottnunarvaldi yfir leikstjóranum, ekki ósvipað og gerist í skáldsögunni.

Sexí átök

„Maður má náttúrlega ekki segja of mikið en þetta verk tikkar í öll boxin,“ segir Edda. „Textinn er svo flottur en þetta er ekki bara skemmtilegt og sniðugt heldur er þetta svo snjallt einhvern veginn. Þetta er svo brilljant en samt svo töff og fyndið og dálítið sexí.

Þetta snertir við blæti og nálgunin á kynbundin hlutverk er femínísk þegar komið er inn á þessi klassísku átök karla og kvenna og hvernig þessi dans á milli getur gengið fram og til baka,“ segir Edda og bendir á að eins og öll góð verk kallist þetta á við samtímann hverju sinni.

Edda í loðfeldi

„Það er svo gaman þegar maður finnur eitthvað og hugsar bara: Djöfull langar mig að leika þetta!“ þannig að ekki þarf að fjölyrða um að Edda ætlar vitaskuld sjálf að leika Venusina í pelsinum. „Mér finnst bara svo gaman að leika og þá vill maður bara leika sem mest,“ segir Edda og hlær.

„Það var allt sem heillaði mig við þetta og það er alltaf gott þegar maður fær strax hugmyndir í kollinn. Einhverja sýn og sér hvaða möguleika þetta hefur og hvernig uppsetningin gæti verið,“ segir leikkonan sem ætlar að stíga fram í feldi Venusar á næsta ári.