Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran og Cherry Seaborn eignuðust dóttur í síðustu viku en Sheeran greinir frá málinu í Instagram færslu í dag. „Með hjálp frá frábæru fæðingateymi fæddi Cherry fallegu og heilbrigðu dóttur okkar,“ skrifar Sheeran við mynd af barnateppi og sokkum.

Dóttir þeirra fékk nafnið Lyra Antartica Seaborn Sheeran og heilsast bæði henni og Cherry vel að sögn Sheeran. Hann sagði hjónin vera yfir sig ástfangin af dótturinni og óskaði eftir að fá að njóta tímans með fjölskyldunni í einrúmi.

Lítið hefur farið fyrir hjónunum síðustu mánuði en heimildarmaður tengdur þeim staðfesti í síðasta mánuði að þau ættu von á barni eftir að hafa verið saman í fimm ár og gift í tvö ár.