Ís­leifur Þór­halls­son, hjá Senu Live, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að tón­listar­maðurinn heims­frægi Ed Sheeran hafi ekki verið með neinar sér­óskir fyrir tón­leikana sem fara fram á Laugar­dals­vellinum næstu helgi. Slíkar misfurðu­legar sér­óskir tíðkast oft þegar um er að ræða slíkar stór­stjörnur.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá er spennan að magnast fyrir tón­leikunum og var meðal annars bið­röð langt út úr dyrum í Ed Sheeran búðinni svökölluðu í Kringlunni í gær. Allt stefnir í lang­stærstu tón­leika Ís­lands­sögunnar.

„Nei það er ekkert þannig. Þetta er allt rosa­lega fag­mann­legt og vina­legt og hefur verið þannig allt frá upp­hafi,“ segir Ís­leifur spurður hvort að Sheeran hafi viljað eitthvað sérstakt.

„Hann er auð­vitað með miklar kröfur hvað varðar að­búnaðinn og er að flytja sjálfur inn þetta svið og er að flytja stærstu út­gáfuna af því. Og með miklar kröfur hvað varðar ljós og hljóð og svona en þetta hefur allt verið mjög þægi­legt.“

Ís­leifur segir að þegar hann hafi hitt Sheeran í Lissabon á tón­leikum hjá þeim síðar­nefnda hafi hann ein­fald­lega verið á vappi á göngunum fyrir aftan svið og átt í vina­legum sam­skiptum við gesti og gangandi.

„Við vorum bak­sviðs að læra þetta og sjá hvernig Ed Sheeran tón­leikarnir fóru fram. Hann var bara á vappi á göngunum og við vorum kynntir fyrir honum og hann var bara „Ís­land! Ég er mest spenntur fyrir Ís­landi!“ og var bara þarna að hanga með fólki.“

Margir minnast þess enn þegar banda­ríski rapparinn Snoop Dogg fór fram á að settur yrði upp körfu­bolta­hringur fyrir aftan sviðið í Egils­höll þegar hann spilaði þar árið 2005 og þegar Justin Bieber krafðist þess að heitum potti væri komið á bak­sviðs í Kórnum í Kópa­vogi árið 2016.

Þá vildu hljóm­sveitar­með­limir Kings of Leon koffín­laust Diet Dr. Pepper gos­drykk og súkku­laði­húðuð goji-ber þegar þeir tróðu upp hér á landi árið 2015 og með­limir Guns N'Roses steik og pasta. Þá vildi banda­ríska söng­konan Jessi­e J meðal annars fá 6 lítra­flöskur og 12 litlar með vatni við stofu­hita þegar hún spilaði hér í fyrra.