Ebba Katrín sagðist vera á bleiku skýi, þegar hún var spurð hvernig henni liði eftir þessa viðurkenningu. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og sérstaklega vegna þess að mér þótti svo vænt um Atómstöðina og alla sem komu að henni. Svo hafa þetta verið óvenjulegir tímar og leikhúsið lokað. Þess vegna var sérstaklega gaman að hitta allt þetta fólk aftur,“ segir hún. „Vissulega er hvetjandi að fá viðurkenningu fyrir starfið sitt, en svo heldur lífið bara áfram og næsta verk fer á fjalirnar í haust,“ segir Ebba, en hún hefur verið valin í hlutverk Júlíu í Rómeó og Júlíu, sem frumsýnt verður fyrri hluta næsta árs í Þjóðleikhúsinu.

,,Þetta hefur verið skrítinn vetur að mörgu leyti. Þegar samkomubannið skall á hafði ég verið í mikilli vinnu og fannst kærkomið að fá smá frí. Ég notaði það til að safna kröftum, en það tók ekki langan tíma og ég var farin að bíða eftir að komast í vinnu á ný,“ segir hún. „Það hefur enginn gott af of langri pásu. Mér fannst erfitt að hitta hvorki fólkið mitt né vini svona lengi.“

Listin rennur í blóðinu

Ebba viðurkennir að fjölskyldan hafi verið stolt af henni eftir afhendingu Grímunnar, en hún er dóttir Önnu Maríu Urbancic og Finns Árnasonar, sem best er þekktur sem forstjóri Haga. Anna María er dóttir Péturs Marteins sellóleikara og Ebbu Urbancic. Foreldrar Péturs voru Victor hljómsveitarstjóri og Melitta Urbancic leikkona. Listin hefur því alltaf spilað stóra rullu í fjölskyldunni og fjölskyldan ávallt haldið menningarviðburði í heiðri, að því er Ebba segir. „Ég ólst upp við listina þótt foreldrar mínir séu fremur á viðskiptasviði. Við sóttum alls kyns listviðburði þegar ég var að alast upp þótt leið mín hafi ekki legið í þá átt á yngri árum. Listin rennur þó líklega í æðunum.“

Fyrirmyndir í leikhúsinu

Ebba Katrín var ekki, eins og margir leikarar, með leiklistardraum í maganum frá barnsaldri. Hún starfaði við búningadeild Borgarleikhússins og síðar Þjóðleikhússins á unglingsárum, með fram námi í Verzlunarskóla Íslands. Þar kviknaði áhuginn. „Mér fannst strax mjög gaman að vinna í leikhúsi og hlakkaði alltaf til að mæta í vinnuna. Það var í rauninni ókeypis nám að fá að fylgjast með fólkinu í leikhúsinu sem maður leit upp til og bar mikla virðingu fyrir. Ég kynntist lífinu baksviðs, sem var afar dýrmætt fyrir mig. Þarna voru fyrirmyndir mínar,“ segir hún.

,,Eftir Verzló fór ég í verkfræði en fann mig ekki þar og þegar ég komst inn í leiklistardeildina varð ekki aftur snúið. Foreldrar mínir hafa alltaf stutt mig og gefið mér frelsi til að velja þá leið sem mig langaði að fara. Ég hafði einhverja köllun og ákvað að fylgja hjartanu.“

Þegar Ebba er spurð hvort það hafi verið einhver munur að starfa í Borgarleikhúsinu eða Þjóðleikhúsinu neitar hún því. „Eini munurinn voru umbúðirnar, það er húsakynnin. Kannski bara eldra andrúmsloft í Þjóðleikhúsinu, en sama fólkið. Bæði leikhúsin eru frábærir vinnustaðir.“

Fyrsta stóra hlutverkið

Eftir útskrift fór Ebba á svið í Dúkkuheimilinu, öðrum hluta. Þar lék hún dótturina Emmu og fékk góða dóma leiklistargagnrýnanda. Una Þorleifsdóttir leikstýrði verkinu, rétt eins og Atómstöðinni. Una fékk Grímuna sem Leikstjóri ársins á mánudag. „Una er mikil fyrirmynd og það er æðislegt að vinna með henni.“

Eftir Dúkkuheimilið lék Ebba í Núna 2019, en höfundar þess voru þrjú, ung leikskáld. Ebba lék líka í barnaleikritinu Matthildi og stökk svo inn í Hamlet litla í stað annarrar leikkonu sem fór í barneignarfrí. Loks var það Atómstöðin sem varð sigurvegari Grímunnar. „Það var að „hrökkva eða stökkva upplifun“ þegar mér var boðið aðalhlutverk í þessari sýningu. Ég þurfti aðeins að hugsa mig um en tók rétta ákvörðun. Maður vex ekki í starfi nema taka áhættu. Það var ekki síst Unu að þakka. Fyrsta stóra hlutverkið getur verið ógnvekjandi,“ segir hún. „Núna er ég ótrúlega spennt fyrir Rómeó og Júlíu, enda stórstjörnur sem verða með mér í því verki. Svo höldum við áfram með barnaleikritið Þitt eigið leikrit í haust, en auk þess er ég að fara í verkefni sem Gísli Örn Garðarsson er að fara að setja upp í Kassanum.“

Fótboltastelpa í FH

Ebba er alin upp í Hafnarfirði og lék lengi knattspyrnu með FH. Var komin í meistaraflokk, en svo breyttist allt á einu augnabliki. „Lífið getur tekið óvænta stefnu. Ég meiddist illa í leik í fótboltanum og í kjölfarið af meiðslunum hafði ég allt í einu tíma fyrir meira félagslíf. Það var þá sem ég ákvað að prófa að fara í leikprufur í Verzlunarskólanum, þar sem má segja að áhuginn á leiklistinni hafi kviknað og ég kvaddi fótboltann. Ég ætlaði mér aldrei að verða atvinnumaður í fótbolta en fannst hann skemmtilegur. Núna horfi ég á fótbolta með kærastanum og bræðrum mínum,“ segir hún. Kærastinn er Oddur Júlíusson leikari, sem lék fótbolta með KR, þannig að parið getur spjallað vítt og breitt um bolta og leiklist, sem Ebba segir að sameini þau.

Jafnrétti fyrir alla

Í dag er kvenréttindadagur. Það eru 105 ár frá því að konur, sem þá urðu að vera 40 ára, fengu kosningarétt. Þegar Ebba er spurð hvort hún sé jafnréttissinni er hún ekki lengi til svars. „Erum við ekki öll femínistar og jafnréttissinnar? Ég trúi ekki öðru en að allir vilji jöfn tækifæri í lífinu burtséð frá kyni, litarhætti eða öðru. Heimurinn verður betri ef vöxtur okkar verður upp í loft en ekki til hliðar. Við eigum að hvetja náunga okkar til dáða. Ég held að jafnrétti í leikhúsi hafi aukist á síðari árum með breyttum hugsunarhætti. Að vísu eru alltaf sett upp gömul verk annað slagið, þar sem karlar fara frekar með hlutverk en konur. Þetta breytist með yngri kynslóðum leikritaskálda. Auk þess finnst mér nauðsynlegt að allir eigi þess kost að fara á svið, hvernig svo sem manneskjan lítur út eða af hvaða kyni. Eftir því sem heimurinn opnast verðum við upplýstari og þekkingin eykst. Mig langar að trúa því að með hverju árinu verði heimurinn betri, á hvaða sviði sem er.“

Ástin sprakk út í leikhúsinu

Ebba og Oddur kynntust á fjölunum. „Ég var leiklistarnemi og vann í búningadeildinni þegar við kynntumst. Það var ekki ætlun mín og ég sagði frá því að ég ætlaði ekki að bindast leikara, en ég þurfti að éta það ofan í mig. Við náum frábærlega vel saman og höfum sömu áhugamál. Hann bauð mér á sleða í ískulda og byl á fyrsta deitinu. Við sáum ekki framan í hvort annað í þessu fárviðri. Sambandið hefur orðið rómantískara eftir þessa sleðaferð,“ segir hún glaðlega. „Það er gott að geta talað við einhvern sem skilur mann eftir erfiðan vinnudag.“

Ebba og Oddur eru komin í sumarfrí og stefna á útilegur á næstunni. „Við ætlum að ferðast innanlands eins og allir aðrir. Leiðin liggur í Flatey og síðan að elta veðrið og njóta náttúrunnar. Ég er svolítið pödduhrædd og er ekkert sérstaklega mikið fyrir að sofa úti nema í góðum hlífðarfatnaði. En við eigum tjald og það er hugvíkkandi og róandi að fara í sveitina, þótt ég vilji alltaf hafa sturtu nálæga.“

Það vakti athygli þegar Ebba talaði til kærastans úti í sal á Grímunni og kallaði hann feimnu lögguna. Þeir sem hafa séð Atómstöðina vita að Oddur lék þar hlutverk lögreglumanns og Ebba var kærastan. „Bráðum hendum við í barn,“ sagði hún á Grímunni og bætti við til Magnúsar Geirs leikhússtjóra að barnið kæmi ekki strax. „Þetta var ákveðin geðshræring sem kom beint frá hjartanu. Ugla og feimna löggan áttu saman barn í Atómstöðinni og þetta var eiginlega smá skot á það. Þetta var tilvitnun í leikritið sem kannski fáir hafa áttað sig á. Við erum á fullu í leikhúsinu og það gengur kannski ekki alveg að koma með barn þegar maður er búinn að lofa sér í verkefni í langan tíma. Barnið kemur þegar rétti tíminn kemur en það var gott að fólk gat hlegið í salnum,“ segir þessi líflega og fjöruga leikkona.

Listin er Ebbu í blóð borin þótt foreldrarnir starfi í viðskiptaheiminum. Ebba gekk ekki með leiklistina í maganum sem barn enda á kafi í fótbolta.