Salvator Mundi er eina málverkið eftir Leonardo da Vinci sem er í einkaeigu.
Mynd/Wikipedia

1 Frelsari heimsins eftir Leonar­do da Vinci

Mál­verkið Salvator Mundi, Frelsari heimsins, er ekki að­eins það dýrasta í lista­sögunni heldur var salan á því árið 2017 einnig ein sú um­deildasta. Verkið er talið vera frá því um árið 1500 og sýnir Jesú Krist klæddan í endur­reisnar­föt með kross­merki á fingrum hægri handar og kristal­s­kúlu í vinstri hendi.

Flestir list­fræðingar telja Salvator Mundi vera að mestu leyti málað af að­stoðar­mönnum Leonar­do da Vinci og að­eins fín­pússað af sjálfum meistaranum en efa­semdir hafa lengi ríkt um upp­runa þess. Verkið var týnt í eina og hálfa öld en endur­eignað da Vinci á upp­boði árið 2005 og gert ítar­lega upp í kjöl­farið, svo sumum list­fræðingum þykir um of.

Eftir að hafa skipt nokkrum sinnum um hendur endaði Salvator Mundi hjá Christi­e’s-upp­boðs­húsinu í New York þar sem það seldist eftir lang­dregið upp­boðs­stríð fyrir 450 milljónir Banda­ríkja­dala, eða jafn­virði um 59,6 milljarða ís­lenskra króna.*

Nafni kaupandans var haldið leyndu fyrst um sinn en síðar kom í ljós að krón­prins Sádí-Arabíu, Mohammed bin Sal­man, hreppti hnossið. Lítið hefur farið fyrir mál­verkinu síðan þá og ekki er vitað ná­kvæm­lega hvar það er niður­komið. Ýmsar get­gátur eru þó á lofti, allt frá frí­verslunar­svæði í Genf til lúxus­snekkju krón­prinsins.

*Miðað er við upp­haf­legt sölu­verð en ekki upp­fært verð miðað við verð­bólgu.

Víxlun eftir Willem de Kooning er eitt þekktasta málverk ab­strakt-expressjón­ismans.
Mynd/Wikipedia

2 Víxlun eftir Willem de Kooning

Hollensk-banda­ríski lista­maðurinn Willem de Kooning (1904–1997) var einn af braut­ryðj­endum ab­strakt-expressjón­ismans um miðja 20. öld.

Olíu­mál­verkið Interchange, eða Víxlun, frá 1955 er lykil­verk á ferli de Kooning og talið marka kafla­skil í ferli lista­mannsins þegar hann fór frá því að mála kven­myndir yfir í ó­hlut­bundin lands­lags­verk. Í mið­punkti verksins má sjá bleikan efnis­massa með skellum af rauðum, gulum, bláum og sæ­grænum lit, sem táknar konu að halla sér aftur.

Árið 2015 keypti banda­ríski við­skipta­jöfurinn Kenneth C. Grif­fin Interchange frá David Gef­fen-stofnuninni fyrir 300 milljónir Banda­ríkja­dala, and­virði um 39,7 milljarða ís­lenskra króna.

Í sömu sölu tryggði Grif­fin sér mál­verkið Num­ber 17A eftir Jack­son Pollock á litlar 200 milljónir Banda­ríkja­dala, sem gerir hann að eig­anda annars og fimmta dýrasta lista­verks sögunnar.

Paul Cézanne gerði fimm útgáfur af Spilamönnunum á árunum 1890-1894.
Mynd/Wikipedia

3 Spila­mennirnir eftir Paul Cézanne

Franski lista­maðurinn Paul Cézanne er einn á­hrifa­mesti lista­maður síðimpressjón­ismans og hafði mikil á­hrif á upp­gang módern­ismans og á lista­menn á borð við Pablo Pi­casso.

Cézanne málaði fimm mál­verk af mönnum sitjandi við borð að spila á spil á árunum 1890-1894. Verkin eru allt ó­líkar út­gáfur af sama þema í mis­munandi stærð með mis­munandi fjölda spilara.

Flest þessara verka eru á lista­söfnum víðs vegar um heim en eitt þeirra, sem Cézanne málaði á milli 1892 og 1893, var selt árið 2011 fyrir áður ó­séða upp­hæð.

Verkið hafði verið í eigu gríska skipafrömuðarins Geor­ge Embiricos en kaupandinn var konungs­fjöl­skyldan í Katar sem greiddi 250 milljónir Banda­ríkja­dala fyrir gripinn, and­virði um 33 milljarða ís­lenskra króna.

Paul Gauguin málaði Hvenær munt þú gifta þig? í fyrstu heimsókn sinni til Tahítí 1892.
Mynd/Wikipedia

4 Hve­nær munt þú gifta þig? eftir Paul Gauguin

Árið 1891 fór franski lista­maðurinn Paul Gauguin í fyrstu heim­sókn sína til eyjunnar Tahítí í Frönsku Pólýnesíu. Mark­mið hans var að finna „Edens-líka para­dís“ hvar hann gæti skapað „hreina og frum­stæða“ list. Gauguin heillaðist af menningu og konum Frönsku Pólýnesíu og átti eftir að verja stærstum hluta ævi sinnar á eyja­klasanum þar til hann lést 1903.

Mál­verkið Nafea Faa I­poi­po?, Hve­nær munt þú gifta þig? á ís­lensku, var málað 1892 í hinum lit­ríka síð­impressjóníska stíl sem átti eftir að gera Gauguin heims­frægan síðar meir.

Á myndinni má sjá tvær ungar konur sitjandi á jörðinni í lit­ríku lands­lagi í bláum, grænum og gull­lituðum. Verkið var selt ó­þekktum kaupanda árið 2015, sem talið er að sé með­limur konungs­fjöl­skyldu Katar, fyrir um 210 milljónir Banda­ríkja­dala, jafn­virði tæpra 27,8 milljarða ís­lenskra króna.

Fánaberinn er sjálfsmynd eftir Rembrandt frá 1636 sem sýnir listamanninn klæddan í föt fánabera.
Mynd/Wikipedia

5 Fána­berinn eftir Rembrandt*

De vaand­el­drager eða Fána­berinn er sjálfs­mynd eftir Rembrandt frá 1636. Nokkur af­rit eru til af verkinu og er það talið mikil­vægt verk frá fyrri hluta ferils hollenska meistarans. Verkið var áður í eigu franska lista­verka­safnarans Élie de Rot­hschild og hafði verið í eigu Rot­hschild-fjöl­skyldunnar frá 1844.

Fána­berinn var keyptur af Rijksmu­seum, ríkis­lista­safni Hollands, með stuðningi frá hollenska ríkinu fyrir 175 milljónir evra í byrjun þessa árs, and­virði um 24,4 milljarða ís­lenskra króna. Mál­verkið mun ferðast um öll helstu lista­söfn Hollands næstu árin en fær svo fram­tíðar­heimili í heiðurs­galleríi Rijksmu­seum.

*Fimmta dýrasta lista­verkið er vissu­lega hið áður­nefnda Num­ber 17A eftir Jack­son Pollock en vegna þess að það hefur þegar verið nefnt í sam­hengi við Interchange eftir Willem de Koonig var á­kveðið að fjalla um annað verk hér.