„Þetta byrjaði sem áhugamál sem gekk of langt. Ég var áhugasamur um smökkun jólabjóra, sem er náttúrlega vertíð fyrir bjóráhugamenn, og ein jólin var ég kominn með einar sextíu bjórtegundir. Ég byrjaði því að snappa frá smakkinu fyrir vini og vandamenn og allt í einu var ég orðinn „go to“-gæinn og er enn; þegar fólk er á leið í Vínbúðina og spyr hvaða bjór það eigi að kaupa,“ segir Mosfellingurinn Sigurður Atli Sigurðsson, sem varð fyrir þrýstingi fólks um að halda áfram bjórsmakkinu og er enn að, tveimur árum síðar.

Sigurður Atli er með 6.500 fylgjendur á Facebook-síðunni Bjórsmakkari.is og líka urmul fylgjenda á Instagram.

„Mitt leiðarljós er bjór á mannamáli. Ég fer ekki djúpt í bjórfræðin enda tel ég að fleiri hafi áhuga á þessu einfalda; hvaða bjór um ræðir og hvernig hann smakkast. Mér til halds og trausts hef ég vin minn, Alvin Orra Gíslason, sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á bjór og hefur reynst mér vel sem makker. Við reynum að hittast reglulega og taka bjórsmakk, en fáum líka til okkar gesti til að koma þeim á framfæri og höfum hitt fyrir lítil brugghús og farandbruggara eins og Böl Brewing, sem eru tveir strákar sem brugga með hinum ýmsu brugghúsum en með sínum græjum og eru meistarar á sínu sviði.“

Kærleiksríkur bruggbransi

Sigurður er orðinn vel sjóaður í íslenska bruggheiminum og þekkir þar mann og annan.

„Þetta er kærleiksríkur bransi og skemmtilegur. Ólíkt öðrum mörkuðum eru allir vinir í bruggbransanum og ég þekki engan sem er í harðri samkeppni við næsta mann; það er frekar að hann sé til í að aðstoða,“ upplýsir Sigurður.

Markmið hans með bjórsmakkinu er fyrst og fremst að útvíkka sjóndeildarhring fólks og fá það til að smakka bjór sem það myndi annars ekki kaupa.

„Sjálfur komst ég á bragðið með því að fara í Vínbúðina og kaupa bjóra af handahófi en þannig kynntist ég bjórum sem ég kaupi enn oft og iðulega í dag því þeir eru einfaldlega frábærir.“

Sigurður var sextán ára þegar hann smakkaði fyrsta bjórinn.

„Það var Víking gylltur og lengi framan af, þegar ég var enn óharðnaður bjórsmakkari, kom enginn annar bjór til greina. Svo þroskast menn í þessu eins og öðru, en góður bjór verður samt alltaf góður bjór, sama hver tegundin er.“

Beðinn um að nefna sinn uppáhaldsbjór svarar Sigurður:

„Ég verð að nefna tvo bjóra í mestu dálæti. Ég reyni alltaf að eiga til Úlfey frá Borg brugghúsi; hinn er Pardus frá Malbyggi. Að okkar Alvins mati, og að öllum öðrum ólöstuðum, því það eru svo margir frábærir bruggarar á Íslandi, er Malbygg svolítið Michael Jordan þess tímabils og nánast sama hvað þeir gera, það er allt algjörlega frábært.“

Margir og mjög mismunandi ískaldir bjórar eru á kantinum í ísskáp Sigurðar Atla.

Sex bjórar á fimmtán þúsund

Ísskápurinn heima hjá Sigurði er jafnan sneisafullur af dýrindis bjór.

„Ég flokka bjór eftir brugghúsum og er með upp undir fjörutíu tegundir í ísskápnum nú. Á hverjum tíma eru 70 prósent af því sem ég á í kælinum bjór sem ég þekki og fæ mér þegar mig langar í bjór,“ segir Sigurður.

Hann fær sér að meðaltali einn til tvo bjóra á kvöldi.

„Ég læt svo þar við sitja. Ég drekk ekki til að finna á mér, heldur til að njóta. Þetta er mjög dýrt áhugamál og ég fór um daginn sérferð á Skúla Kraftbar til að sækja þangað sex bjóra sem þeir fluttu inn sjálfir. Það kostaði mig fimmtán þúsund kall, en ég hafði lesið um þessa bjóra sem eru hátt skrifaðir úti í hinum stóra heimi og ég bara leyfi mér þetta og opna þá spari, því maður sturtar ekki í sig 3.000 króna bjór svona af því bara,“ segir Sigurður og hlær.

Hann giskar á að hafa smakkað yfir 700 mismunandi bjórtegundir.

„Ég hef þó ekki haldið bókhald yfir hversu margar tegundir ég hef smakkað né einkunnabók en það væri áhugavert. Til er forritið Untapped fyrir iPhone og Android sem skannar strikamerki bjórs sem drukkinn er og upp kemur einkunn. Ég hef ekki verið nógu duglegur að nota það sjálfur en hef þó skannað yfir 480 tegundir, sé ég.“

Bjór ekki það sama og mjöður

Til eru margir bruggstílar en uppáhald Sigurðar og Alvins er „indian pale ale“ sem inniheldur gnægð humla, er bragðmikill og yfirleitt með áfengismagn upp á 5 til 10 prósent.

„Því þarf að passa sig á þeim. Úlfey er til dæmis 7,5 prósent áfengur og maður stendur ekki yfir grillinu með tvo svoleiðis. Þá er tilvalið að fá sér góða Stellu, sem var upphaflega jólabjór en varð svo vinsæll að framleiðandinn varð að selja hann árið um kring og er dæmi um hágæða lagerbjór sem er margverðlaunaður.“

Til fróðleiks bendir Sigurður á að bjór sé ekki það sama og mjöður, sem er algengur misskilningur.

„Það er eins og að bera saman bjór og rauðvín. Mjöður er ekki bruggaður úr korni heldur er uppistaðan hunang. Til að smakka mjöð bendi ég á Öldur brugghús sem er á heimsmælikvarða í mjaðargerð, með miðinum Bláma og Rjóð, og algjört sælgæti með ostum, í stað rauðvíns.“

Við bjórsmakk er notast við lítil bjórsmakksglös og oft teknir aðeins einn til tvo sopar til smakks.
Sigurður Atli drekkur að meðaltali einn til tvo bjóra á kvöldi, en síðan ekki söguna meir, enda bara til að njóta alls þess besta í bjórnum.

Íslenski bjórinn bestur í heimi

Í bjórsmakkið nota Sigurður og Alvin sérstök smakkaraglös.

„Það eru lítil bjórglös og oftar en ekki fer smakkið beint í vaskinn. Eftir fimm bjóra eru menn líka orðnir kolólöglegir í smakkinu, því eftir það er allt orðið gott. Bjórsmakk verður því að vera á faglegum nótum, rétt eins og hefðbundin vínsmökkun; við tökum einn til tvo sopa, segjum hvað okkur finnst og förum svo yfir í næsta bjór.“

Sigurður er stundum beðinn um að mæta í heimahús í bjórsmakk og til að fara yfir hvaða matur er góður með ólíkum bjórtegundum.

„Við bjóðum líka fólki í heimsókn á Facebook Live. Margir senda fyrirspurn um hvaða bjór þeir eigi að kaupa og vanalega er mikið að gera í kringum árstíðabundna bjóra, á jólum, þorra og páskum. Þetta gengur þó út á að smakka og gefa bjóra í leikjum á samfélagsmiðlum, miðað við 20 ára aldurstakmark, og oftast fleiri en 100 þúsund manns sem sjá leikina á samfélagsmiðlum, sem er töluvert. Við höfum því gefið Íslendingum tugi þúsunda lítra af bjór, unnið með langflestum brugghúsum landsins og alltaf að stækka,“ segir Sigurður, sem starfar hjá Vodafone en sinnir bjórsmakkinu í frístundum.

Sigurður Atli er að vinna í opnun vefsíðunnar bjorsmakkari.is þar sem hægt verður að versla skemmtilegan varning, eins og glasamottur, sérmerkt glös og fleira.
Píla og bjór passa oft vel saman. Hér hefur Sigurður Atli látið útbúa sérmerktan píluskáp.

„Þessa dagana er ég með heimasíðuna bjorsmakkari.is í smíðum þar sem hægt verður að kaupa sérmerkt glös og glasamottur, derhúfur og fleira,“ segir Sigurður, sem hefur líka verið í samstarfi við Bjórland.is.

„Nú er mikið hitamál að banna mönnum að höndla með bjór og áfengi nema það heiti Vínbúðin. Það er að mínu mati galið og ég styð heils hugar að minni brugghús á landsbyggðinni fái að selja bjór sinn beint til fólks sem kemur á staðinn. Það er bara eðlilegt og leyfilegt alls staðar í heiminum, nema hér, en sem betur fer virðist það eiga að breytast.“

Hann segir mikla grósku hjá íslenskum brugghúsum sem séu að gera stórkostlega hluti.

„Íslenski bjórinn er bestur, með sitt hreina vatn og hráefni úr nærumhverfinu. Það liggur líka mikil ást og vinna að baki þessari bjórgerð og oft fæst hún í takmörkuðu upplagi og aldrei aftur. Við stöndum því ansi framarlega þegar kemur að því að brugga bjór á heimsvísu og því segi ég hiklaust: Áfram Ísland!“

Fylgist með Sigurði bjórsmakkara á Facebook @bjorsmakkari.is og á Instagram @bjorsmakkari