Guðrún hefur gaman að því að töfra fram sælkerakræsingar sem tengjast uppskeru sumars og nú er einmitt tími til að finna litrík berjalyng full af ferskum og litríkum berjum.

„Áhugi á mat og bakstri hefur verið mikill í gegnum árin og það gefur mér mikið að renna í gegnum uppskriftabækur til að fá innblástur. Mér þykir fátt skemmtilegra en að prófa mig áfram í eldhúsinu, sérstaklega þegar vel lukkast,“ segir Guðrún Ýr.

Þegar líður á sumarið og hægt er að fara í berjamó og njóta íslenskrar uppskeru, er eitthvað sérstakt sem heillar þig?

„Mér finnst alltaf jafn heillandi að tína ber en þegar ég er mætt í berjamó og búin að tína dágóða stund rifjast upp að mér finnst þetta ekkert ofboðslega skemmtilegt, ekki til lengdar. Þá er gott að hafa margar hendur með sér svo hver og einn þurfi ekki að tína eins mikið. Það er samt alltaf jafn unaðslegt að detta inn á gott berjaland með miklum bláberjum. Svo eigum við fjölskyldan leynistað þar sem við týnum hrútaber og fáum úr þeim fallegu rauða sultu.“

Smíðuðu gróðurkassa í garðinn

Guðrún er aðeins farin að rækta sjálf og þau hjónin eru að byggja upp garðinn fyrir frekari ræktun.

„Við keyptum okkur eign í fyrra og höfum hægt og rólega tekið garðinn í gegn en hann var áður í mikilli órækt. Í ár smíðuðum við tvo gróðurkassa þar sem ég rækta salat og kryddjurtir og síðan smíðaði maðurinn minn ræktunarkassa í tröppugangi þar sem við bætum við ræktun á næsta ári, til dæmis jarðarber.“

Eldað eftir árstíðum

Matseld og bakstur taka gjarnan mið hverri árstíð fyrir sig hjá Guðrúnu.

„Ég finn það helst í bakstrinum. Mig langar alltaf í léttari kökur og eitthvað ferskt á vorin og sumrin, en þegar líða fer að hausti vaknar löngun í berjapæ, kryddaðar og þyngri kökur.“

Guðrún ljóstrar upp einni af sinni uppáhalds uppskrift sem tengist haustinu.

„Það er klárlega góð kjötsúpa sem á mínu heimili er mikil dass uppskrift. Það er tilvalið að nota berjauppskeruna og baka eitthvað dásamlegt, eins og bláberja-galette sem er í miklu uppáhaldi hjá fjöskyldunni. Galette er einföld aðferð í bökubakstri, deigið er einfaldlega flatt út, fylling sett í miðjuna og kantarnir brotnir inn yfir fyllinguna. Hana geta allir gert en vissulega búa ekki allir fyrir þolinmæði fyrir bökugerð. Þetta er uppskrift sem ég tengi sterkt við haustið, nýtínd ber pöruð saman með dásamlega stökku bökudeigi og til að kóróna herlegheitin að bera það fram með vanilluís.“

Bláberja-galetti Guðrúnar Ýr

Bökudeig

160 g hveiti

25 g sykur

1 tsk. salt

170 g smjör, kalt

50 ml vatn, ískalt

1 egg (til penslunnar)

1-2 msk. sykur (perlusykur)

Aðferð

Hægt er að nota matvinnsluvél eða gera deigið í höndunum. Setjið hveiti, sykur og salt á borðið, gott er að hafa diskamottu undir til að vernda borðið. Skerið smjör í bita og blandið saman við hveitið í þremur skömmtum. Hægt er að nota hnífa til að saxa smjörið saman við hveitið eða sköfu, smá þolinmæðisvinna en svo þess virði. Mixið saman þar til að smjörið er orðið mjög smátt. Bætið þá vatninu saman við, smá í einu, þar til að deigið er formað, ekki of þurrt né of blautt. Mótið kúlu og þrýstið henni aðeins niður, setjið í plast og inn í ísskáp. Leyfið deiginu að hvíla í minnst 2 klukkustundir Hægt er að geyma deigið í ísskáp eða frysti ef það er gert fyrirfram.

Sé deigið gert í matvinnsluvél er hveiti, sykur og salt sett saman, smjör skorið niður og sett saman við í þremur skömmtum þar til orðið kornótt, alls ekki alveg samblandað þvi við viljum halda í litlu smjörblettina í deiginu, það er það sem gerir deigið stökkt eða „flaky“. Takið deigið úr matvinnsluvélinni, setjið á borð, hellið vatninu saman við og mótið þar til ekki of þurrt né of blautt. Framhald sjá að ofan.

Fylling

350 g bláber

100 g sykur

40 g hveiti

Börkur af einni sítrónu

1 msk. sítrónusafi

Samsetning

Blandið öllum hráefnum saman og hrærið létt. Stillið ofn á 210°C. Takið deigið úr kæli, setjið dass af hveiti á borðið og setjið deigið á borðið. Byrjið að fletja deigið út með kökukefli, alltaf í áttina frá ykkur og snúið deiginu um fjórðung jafnt og þétt svo deigið sé laust frá borðinu og jafn þykkt á alla kanta. Bætið hveiti undir ef þarf.

Þegar deigið er útflatt leggið það yfir kökukeflið og færið á bökunarpappír. Penslið deigið með eggi, dreifið fyllingunni yfir deigið og skiljið um það bil 3 cm eftir frá kanti, til að brjóta inn. Penslið kantana með eggi og sáldrið sykri yfir. Setjið inn í ofn og stillið á 20 mínútur. Eftir 20 mínútur er hitinn lækkaður í 175°C og bakað í 20 mínútur í viðbót. Berið fram með rjóma eða vanilluís.

Hægt er að fylgjast með Guðrúnu Ýr á dodlurogsmjor.is og á Instagram @dodlurogsmjor.