Lóan er komin og vor er í lofti og þá er tilefni til að fagna með ljúffengum smáréttum og freyðandi drykkjum. Í tilefni þess að vorið er komið og það styttist í sumarið er upplagt að bjóða upp á blinis með sælkeratvisti sem gleður bæði augu og munn.

Hér er á ferðinni uppskrift að blinis með heitreyktri bleikju og eplasalati toppuðu með rifnu, fersku, íslensku wasabi sem fullkomnar daginn. Hægt er að setja það sem hugurinn girnist á blinis, það má til að mynda framreiða blinis með piparrótarsósu, reyktum laxi og toppa með harðsoðnu kornhænueggi eða leika sér með tvisti af geitaosti og kryddjurtum. Leyfa bragðlaukunum og hugmyndafluginu að ráða för og bjóða upp á freyðandi drykki með.

Blinis með heitreyktri bleikju, eplasalati og toppað með fersku wasabi

1-2 heitreykt bleikjuflök (hægt að kaupa í flestum matvöruverslunum)

Wasabi rót - íslensk (fæst hjá Nordic Wasabi á Skólavörðustíg)

Blinis

Eplasalat

Blinis

400 g bókhveiti

2 tsk. þurrger

½ tsk. salt

6 dl volg mjólk

4 egg

1 dl matarolía

Blandið þurrefnunum saman í skál, hellið svo volgu mjólkinni út í smátt og smátt og hrærið vel í. Bætið nú olíu og eggjum út í og látið skálina standa á hlýjum stað í klst. Bakið örlitlar lummur úr deiginu á meðal hita en notið góða pönnu, þá festast lummurnar síður á. Þegar búið er að kæla þær er upplagt að setja á þær kræsingar sem hugurinn girnist.

Hægt er að raða smáréttum fallega á borð.

Eplasalat

2 epli, skræld og skorin í bita

1 fennel, skorið í teninga

½ sítróna, safi og börkur

Örlítið salt

100 ml rjómi, léttþeyttur

20-30 g rifið wasabi (ferskt)

10 g dill (eiga auka til skreytingar ef vill)

10 g hunang

Setjið epli og fenniku í skál, bætið smávegis sítrónusafa og salti saman við og látið standa. Saltið lítillega léttþeyttan rjóma og blandið honum saman við eplin og fennelið. Passið að það komi ekki of mikill safi af eplunum. Rétt áður en þetta er sett ofan á bleikjusneiðarnar á blinis-kökunum, bætið þá fínt söxuðu dilli og hunangi saman við. Vert er að geta þess að þetta salat passar með öllum reyktum og söltum mat og hægt er að leika sér með það sem meðlæti.

Samsetning

Skerið bleikjuflökin í litlar sneiðar sem passa á blinis, mega fara aðeins út fyrir þegar þær eru lagðar þvert yfir á blinis-kökurnar. Raðið blinis-kökunum upp á bökunarpappír eða stóra ofnplötu, setjið eina sneið af heitreyktri bleikju á hverja blinis-köku, setjið síðan smá eplasalat ofan á bleikjusneiðina, rífið loks niður ferska wasabi-rót yfir hverja blinis og skreytið með wasabi-blómum og/eða dilli.