Einn ítalskur réttur hefur notið óhemjumikilla vinsælda og er einn þekktasti rétturinn sem kemur frá Norður-Ítalíu. Hér á landi hefur hann slegið í gegn á köldum vetrardögum. Það er hinn frægi osso buco sem um ræðir. Ítalir notar gjarnan kálfaskanka í þennan rétt en hér á landi verða nautaskankar oftast nær fyrir valinu. Þeir smellpassa í þennan rétt. Þegar osso buco er eldað er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í eldamennskuna og leyfa ástríðunni og natni að ráða för. Það sér enginn eftir því að gefa sér tíma í að elda þennan dásamlega rétt sem er hreinn unaður að njóta.

Osso buco á ítalska vísu fyrir 6

6-8 sneiðar af osso buco

2-3 skalottlaukar, saxaðir

3 stönglar sellerí, saxaðir í teninga

3 gulrætur, saxaðar í teninga eða skornar í flísar

3 litlir hvítlaukar, þessir í körfunum, saxaðir

3 greinar timian, 3 greinar rósmarín, 3 lárviðarlauf, allt bundið saman í knippi

½ búnt steinselja, smátt skorin

1 dós heilir tómatar

½ dós saxaðir tómatar

6 dl kjúklingasoð

2 dl hvítvín, meðal þurrt

Ólífuolía eftir smekk fyrir steikingu

Salt og pipar eftir smekk

Allra best er að elda osso buco í stórum potti eða fati sem má setja í ofn, helst úr pottjárni. Hitið 1–2 matskeiðar af ólífuolíu í pottinum og steikið kjötsneiðarnar í 3 mínútur á hvorri hlið. Saltið og piprið eftir smekk. Takið kjötið frá og geymið meðan grænmetið er steikt og sósan gerð. Steikið skalottlauk, sellerí, gulrætur og hvítlauk í um það bil 5 mínútur í pottinum. Bætið síðan við tómötunum og sjóðið í um það bil 3 mínútur. Hrærið reglulega. Bætið við hvítvíni, 3 dl af kjúklingasoðinu, kryddjurtunum, steinseljunni og loks kjötsneiðunum. Látið malla í tvær klukkustundir við vægan hita. Þá má líka fara aðra leið og setja pottinn eða fatið inn í bakarofn. Þá setjið þið lokið á pottinn og setjið inn í 200°C heitan ofn.

Eldið og hafið inni í ofninum um það bil 2 klukkustundir. Vert er að snúa kjötbitunum við í pottinum einu sinni til tvisvar á þessum tíma og bæta við kjúklingasoði eftir þörfum. Soðið á að þekja kjötið að um þremur fjórðu allan tímann og umlykja grænmetið. Eftir tvo klukkutíma ætti kjötið að vera orðið meyrt og fínt. Áður en rétturinn er borinn fram er kryddknippið tekið frá og það er í góðu lagi að bera réttinn fram í pottinum eða fatinu sem það er eldað í. Með þessum rétti er ekki nauðsynlegt að vera með meðlæti en það er hægt að vera með dýrindis heimalagaða kartöflumús, risotto að hætti Ítala eða nýtt smælki. Svo er bara að njóta við kertaljós í góðum félagsskap.