„Nei,“ segir Baldvin Jónsson, markaðsmaður og fyrrverandi lambassador einfaldlega þegar hann svarar því hvort vinsældir íslensku kvikmyndarinnar Lamb í Bandaríkjunum geti opnað ný sóknarfæri fyrir íslenskt lambakjöt í Bandaríkjunum.

„Það eru engin tengsl á milli. Lamb er náttúrlega bara lamb, skilurðu? Þetta er auðvitað bara heiti myndarinnar og það eru til alls kyns lömb,“ segir markaðsmaðurinn gamalreyndi sem var stundum kallaður lambassador þegar hann vann um árabil að markaðssetningu íslenskra landbúnaðarvara í Bandaríkjunum.

Dýrið hafnaði í sjöunda sæti yfir mestu miðasöluna í bandarískum kvikmyndahúsum eftir frumsýningarhelgina og er þar með tekjuhæsta íslenska myndin sem sýnd hefur verið vestanhafs.

„Þeir eru með amerískt lamb, ný sjálenskt, ástralskt og allaveganna lömb þannig að þetta hefur engin áhrif. Nema bara svona almennt séð og ekki einu sinni áhrif á það því að svona heiti bíómynda eða bóka hafa yfirleitt ekki nein áhrif á neysluna. Svona almennt séð held ég að það sé aldrei inni í myndinni.“

„Það er ekkert markaðstækifæri í þessu. Þetta er góð pæling,“ segir Baldvin og hlær. „En ég held að það sé alveg svakalega langsótt.“