Ís­lenska kvik­myndin Dýrið var í morgun valin besta kvik­myndin á kvik­mynda­há­tíðinni í Sit­ges á Spáni auk þess sem Noomi Rapace, sem leikur eitt aðal­hlut­verkanna, var valin besta leik­konan á há­tíðinni fyrir leik sinn í myndinni.

Myndin á mikilli vel­gengni að fagna og sló miða­sölu­met í Banda­ríkjunum síðustu helgi. Dýrið er frum­raun leik­­stjórans Valdimars Jóhanns­­sonar, gerð eftir grunn­hug­­mynd hans og hand­­riti eftir Sjón. Myndin gerði stormandi lukku á kvik­­mynda­há­­tíðinni í Cannes í sumar, gagn­rýn­endur víða um heim hafa ausið hana lofi og hún hefur verið nefnd sem lík­­leg til stór­ræða á næstu Óskars­verð­­launa­há­­tíð.

Myndin skartar Noomi Rapace og Hilmi Snæ Guðna­­syni í aðal­­hlut­­verkum auk þess sem Björn Hlynur Haralds­­son kemur við sögu í mikil­­vægu auka­­hlut­­verki. Noomi sagði Frétta­blaðinu í septem­ber að hún hefði fundið sálu­­fé­laga í ís­­lenska leik­­stjóranum.

Hilmir Snær sagði nýlega í helgarviðtali í Fréttablaðinu að fyrst hafi hann ekki skilið hvað myndin væri um en að hann hafi strax orðið hrifinn og ákveðið að segja já.

„Þessi mynd er eins og ævintýri en bændahjónin taka eitthvað úr náttúrunni og aðlaga sér en aðlaga sig ekki náttúrunni. Þau taka hana til sín eins og manneskjan almennt gerir. Við leyfum okkur að taka og taka frá náttúrunni til að láta okkur líða betur en á endanum refsar náttúran, alveg eins og er að gerast í veröldinni með hlýnun jarðar, hærra hitastigi, skógareldum og svo framvegis.“