„Ef við lítum á okkur hér, á norðurhjara veraldar, þá er það auðvitað myrkrið, kuldinn og ef til vill ákveðinn tómleiki eftir hátíðirnar. Við erum mörg búin að fara illa með okkur undanfarnar vikur og mánuði, borða óhollt og ef til vill neyta of mikils áfengis, og líkamleg vanlíðan veldur andlegri vanlíðan. Ýmsir eru líka kvíðnir út af fjármálastöðunni, hafa ef til vill eytt of miklu um jól og áramót. Svo hefur ýmsu erfiðu verið stungið undir stólinn yfir jólin. Þannig eru hjónaskilnaðir gjarnan margir í janúar, þegar ekki er lengur hægt að halda niðri þrýstingnum.“

Þetta segir séra Þórhallur Heimisson, spurður hvað einna helst hrjái mannfólkið í byrjun árs.

Sjálfur strengir hann ætíð heit um áramót.

„Já, mér finnst það ágætur siður. Það er gott að hrista af sér hátíðarslenið með þeim hætti. Áramótaheit geta hjálpað vel til þess, í hófi, og um þessi áramót lofaði ég sjálfum mér því að helga fjölskyldunni meiri tíma á nýju ári, þar sem mikið var að gera í vinnunni á nýliðnu ári.“

Hver er sinnar gæfu smiður

Þórhallur hefur um árabil haldið landsþekkt og vinsæl hjónanámskeið en býður nú í fyrsta sinn upp á netnámskeið sem hann kallar 10 leiðir til betra lífs árið 2022.

„Það er ætlað öllum sem hafa áhuga á að bæta líðan sína, jafnt einstaklingum sem pörum. Við förum í gegnum tíu leiðir sem hver og einn getur gengið á árinu til að byggja sig upp andlega og líkamlega. Þar sem nær ómögulegt er að hittast á hefðbundinn hátt vegna Covid-pestarinnar er netnámskeið lausn sem hentar vonandi öllum,“ segir Þórhallur.

Beðinn um að nefna eina skothelda leið af þeim tíu sem hann kennir til betra lífs, svarar Þórhallur:

„Af því við vorum að tala um áramótaheit á þessi ef til vill vel við núna: „Ég get skoðað minn lífsstíl með gagnrýnu hugarfari og breytt því sem er að brjóta mig niður. Eða með öðrum orðum; stattu með sjálfum þér og komdu fram við sjálfan þig eins og þú værir einhver sem þú berð ábyrgð á“.“

Þórhallur líkir námskeiðinu við ferðalag þar sem hver og einn þarf að fara í sjálfskoðun, staldra við, skoða líf sitt upp á nýtt og taka síðan stefnuna til framtíðar.

„Ég er eins og leiðsögumaður á göngunni en segi ekki fólki hvað það eigi að gera. Hver er sinnar gæfu smiður, en stundum þurfum við að staldra við, taka áttirnar og stöðuna og hugsa upp á nýtt. Eða finna nýja leið. Námskeiðið hjálpar okkur til þess, en auðvitað þarf síðan hver og einn að fylgja slóðinni fram á veginn.“

Lífið er langhlaup

Þórhallur er spurður hvað það sé sem skipti máli í lífi hvers manns.

„Það er ef til vill það að vera jákvæður gagnvart sjálfum sér og öðrum. Það er alltaf til leið út í ljósið og nýr dagur bíður með nýjum tækifærum. Um leið þurfum við að vera heiðarleg gagnvart okkur sjálfum og öðrum, tilbúin að horfast í augu við verkefnin í staðinn fyrir að stinga höfðinu í sandinn. Því það er staðreynd að ekki er til neitt „quick fix“ á vanda lífsins. Lífið er langhlaup og oft lendum við í erfiðleikum eða vitum ekki hvert við eigum að fara eða hvað við eigum gera. Þá er um að gera að gefast ekki upp og vera tilbúinn að leita sér aðstoðar ef maður villist af leið.“

En getum við öll öðlast betra líf?

„Spurningin er auðvitað: Hvað er betra líf? Því verður hver og einn að svara fyrir sig. Við höfum öll þörf fyrir að gefa okkur tíma til að rækta okkur sjálf og til þess að finna svarið við spurningunni hvað sé betra líf fyrir okkur og hvernig við getum lifað því. Að lifa hamingjusömu lífi er verkefni sem tekur alla ævina,“ svarar Þórhallur.

Hann er inntur eftir því hvað flestir vilji laga í sínu lífi og hver áherslan ætti að vera.

„Öll erum við einstök, og áherslurnar misjafnar, en þegar öllu er á botninn hvolft finnst mér helst af öllu að fólk vilji bæta samskipti sín við aðra, fjölskyldu sína, ástvini og náungann almennt. En til þess þurfum við líka að vera óhrædd við að horfast í augu við okkur sjálf og takast á við það sem okkur er erfitt. Við þurfum að vera óhrædd við að horfast í augu við það sem við gerum til að brjóta okkur niður. Þar má auðvitað nefna hluti eins og mataræði, hreyfingu og heilsu, svefn, áfengisneyslu og stress, sem fer illa með okkur öll. Það er nefnilega erfitt að elska aðra ef maður getur ekki elskað sjálfan sig,“ segir Þórhallur.

Eins sé ólíkt hvað hverja og eina manneskju skorti til að vera hamingjusöm.

„Það er svo misjafnt sem við mennirnir sækjumst eftir og vandamálin sem við glímum við. Að vera sáttur við sjálfan sig og aðra er ef til vill lykillinn að því að finna hamingjuna. Danski heimspekingurinn Sören Kirkegaard sagði einu sinni: „Dyr hamingjunnar opnast út.“ Leiðin að eigin hamingju liggur í gegnum dyr hjartans sem maður opnar gagnvart öðrum.“

Allir leita hamingju í lífi sínu

Þórhallur sinnir nú prestskap í Svíaríki.

„Tilveran í Svíþjóð gengur vel, þrátt fyrir Covid sem veldur eilífum vandræðum. Ég starfa í „litlum“ 20 þúsund manna söfnuði þar sem er 35 manna starfslið, svo aðstæður eru nokkuð aðrar en heima á Íslandi þar sem fáir vinna í söfnuðunum. Í raun er enginn munur á að starfa með fólki hér eða þar; við erum öll að glíma við sama vandann og leita hamingjunnar í lífinu,“ segir Þórhallur sem hefur lært sitthvað nýtt um mannlega tilveru af Svíum.

„Já, Svíar hafa kennt mér mikið, sérstaklega hvernig umhverfið getur haft áhrif á fólk. Á Íslandi móta fjöllin okkur og nálægðin við hafið. Í Svíþjóð eru það endalausir skógarnir sem hafa sterkust áhrif á mannfólkið. Ég held að þetta geri okkur ólík í lund að ýmsu leyti, mannfólkið hér og þar. En það er nú samt þannig að „hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“, eins og Tómas kvað.“

Þórhallur segir erfitt að alhæfa um heila þjóð þegar hann er spurður hvort Svíar séu líkir Íslendingum þegar kemur að því að lifa lífinu og rækta sína andlegu og líkamlegu heilsu.

„Í Svíþjóð upplifi ég á margan hátt að fólk sé meira tilbúið að finna þessa sátt í lífinu sem ég var að ræða um. Svíar eru duglegir að hreyfa sig alla ævi, og ef til vill duglegri en við Íslendingar. Hér hjólar fólk fram á elliár, gengur á skíðum, hleypur á skautum og fer í skógarferðir. Útivist er í hávegum höfð og ekki sama stress og maður finnur svo oft fyrir heima. Hins vegar eru Íslendingar margir opnari fyrir því að rækta andlega heilsu og fyrir náunganum. Svíar geta verið lokaðir og hér eru margir einmana. Ef til vill er það nálægðin við skógana sem mótar þessa lund. En það er frábært að vinna með Svíum að jafnt andlegri sem líkamlegri heilsurækt, rétt eins og Íslendingum.“ ■

Hægt er að skrá sig á námskeiðið 10 leiðir til betra lífs hjá Þórhalli á thorhallur33@gmail.com.