James hefur búið hér á landi í allnokkur ár. Hann er þekktur fyrir samstarf sitt við Björk og hefur tekið þátt í að skapa myndheiminn í kringum tónlist hennar. Hann hefur gert fjölmargar grímur sem hún ber á sviði og í þeim flestum er útsaumur.

„Ég byrjaði að vinna með Björk árið 2009 og kom þá fyrst til Íslands. Samvinnan við Björk varð til þess að ég ákvað að setjast hér að,“ segir James.

Á sýningunni á Kjarvalsstöðum eru tvær grímur, svört og hvít, sem hann gerði fyrir Björk árin 2015 og 2016. „Hún var að fara í tónleikaferðalag eftir að hafa gert plötuna Vulnicura en lögin eru þunglyndisleg og fjalla um ástarsorg. Þá fengum við Björk hugmynd um að gera grímu sem Björk bæri og minnti á slör og framkallaði mynd af manneskju sem væri að syrgja. Ég gerði þessa svörtu grímu og hvítu grímuna gerði ég seinna. Þetta er í fyrsta sinn sem svarta gríman fer á sýningu.“

Grímurnar tvær eru hinar glæsilegustu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Alltaf að hreyfa nálina

Spurður hversu margar grímur hann hafi gert fyrir Björk segir hann: „Fyrir nokkrum mánuðum taldi ég grímurnar sem ég hef gert fyrir hana. Ég hélt að ég hefði gert um það bil 30 en þær reyndust vera 75. Það væri gaman að halda sýningu á öllum grímunum, þær hafa allar sinn karakter.

Þegar ég var að byrja á grímugerð notaði ég þráð og tvinna, síðan vír en síðustu árin hef ég verið að læra silfursmíði og nota núna silfur. Í mínum huga er ég í útsaumi við grímugerðina. Mér finnst ég alltaf vera að hreyfa nálina.

Árið 2015 fóru tölvugerðar grímur að sjást á Instagram og Snapchat. Ég hef sérstakan smekk og 99 prósent af þessum filterum þóttu mér ljótir en sumir voru algjörlega magnaðir. Þegar ég var að gera mínar grímur fann ég að ég var stundum að keppa við tölvustýrða heiminn. Þegar ég fór svo sjálfur að gera tölvugerðar grímur var ég í samkeppni við grímurnar sem ég skapaði úr efni.“

Spennandi sýning

Spurður hvað honum þyki svo heillandi við að gera grímur segir James: „Gríman getur verndað þig og falið þig en á sama tíma opinberar hún svo margt sem er dýpra en það. Mér finnst það áhugavert.“

Hann segir sýninguna á Kjarvalsstöðum vera spennandi. „Það er mikilvægt að textíllist fái sitt rými. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sýni verk mín á Íslandi og ég er mjög stoltur af því að vera í þessum góða hópi listamanna.“