Robert Allen Zimmerman, sem þekktastur er sem Bob Dylan, fæddist 24. maí 1941, sem gerir hann áttræðan í dag. Hann er vitaskuld þekktastur sem söngvari og söngvaskáld og jafnan talin til besti textahöfunda síðari tíma.

Dylan hefur þó einnig látið að sér kveða í til dæmis myndlist og sem rithöfundur og hefur nánast allan sinn feril, síðustu sex áratugina eða svo, verið áberandi og haft mótandi áhrif á dægurmenninguna.

Dáðustu lög hans og verk hittu í mark og fjölda fólks í hjartastað upp úr 1960 þegar hann sendi frá sér svo einhver séu nefnd Blowin' in the Wind sem kom út 1963 og The Times They Are a-Changin frá 1964. Lög sem urðu nokkurs konar þjóðsöngvar mannréttindabaráttuhópa og friðarsinna.

Illugi Jökulsson, rithöfundur með meiru, heillaðist ungur af tónlist Dylans og hefur undanfarið hitað upp fyrir áttræðis afmælið á Facebook með sérvöldum lögum og fróðleiksmolum.


„Sumarið 1974 var ég 14 ára og vann í pakkageymslu BSÍ. Vinur minn í Hagaskóla, Skúli Gautason, var áhugamaður um skellinöðrur og hafði augastað á nýrri tegund sem átti að fara að flytja inn, Moto Guzzi 50,“ segir Illugi við Fréttablaðið þegar hann rifjar upp sín fyrstu kynni af Bob Dylan.

„Einhvern veginn sannfærði hann mig um að festa mér slíkan grip líka, þótt ég hefði í rauninni aldrei á skellinöðru stigið og hefði ekki mikinn áhuga á því. En ég pantaði sem sagt slíkan grip hjá nýju umboðsfyrirtæki sem lofaði að hjólið kæmi snemma vetrar og ég geymdi því sumarhýruna vandlega.

Bob Dylan, eins og margir vilja helst muna hann, á blaðamannafundi í London 1966.
Fréttablaðið/Getty

En þegar komið var fram í febrúar 1975 var ekkert Moto Guzzi komið og sýnt að fyrirtækið var á brauðfótum byggt. Ég ákvað þá að taka sumarkaupið og kaupa sér í staðinn græjur og varð brátt stoltur eigandi Sansui-plötuspila, magnara og hátalara. Þetta voru fínar græjur en hvað átti ég að spila?,“ heldur Illugi áfram og komst að því að svarið var ekki alveg fokið út í veður og vind.

„Ég hafði nánast ekkert fylgst með poppi fram að því svo ég þurfti að leggjast í blöðin til að leita að einhverju spennandi. Fljótlega ákvað ég að kaupa Warchild með Jethro Tull, ég man ekki alveg út af hverju, líklega fannst mér umslögin flott.


Og svo leist mér vel á skrif um nýja plötu Bob Dylans, Blood On the Tracks, sem mig minnir fastlega að hafi verið í Tímanum. Ég þekkti að vísu ekkert til Dylans þá, nema hafði heyrt Blowin’ in the Wind, sem mér fannst hallærislegt, og það var vissulega undarlegt að ætla að fara fjórtán ára gamall og framsækinn að kaupa plötu með jafnaldra mömmu minnar,“ segir Illugi.


„En ég lét nú samt verða af því, greinin í Tímanum hlýtur að hafa verið svona sannfærandi, og ég fór í bæinn með afganginn af sumarkaupinu og keypti Warchild og Blood On the Tracks. Og líf mitt varð aldrei samt eftir að hafa hlýtt á Shelter From the Storm, Tangled Up in Blue, If You See Her og ég tala nú ekki um ballöðuna um þær Lily og Rosemary …“


Bob Dylan hefur selt yfir 100 milljón plötur sem kemur honum á stall með því tónlistarfólki sem selt hefur flestar plötur í heiminum. Þá hefur alls konar verðlaunum og viðurkenningum verið hlaðið á Dylan í gegnum tíðina og má þar á meðal til dæmis nefna Frelsisorðu forseta Bandaríkjanna, sem Barack Obama veitti honum 2012.

Þá hefur hann fengið heiðursútgáfu Pulitzer-verðlaunanna fyrir áhrif sín á bandaríska menningu og dægurtónlist að ógleymdum Nóbelsverðlaununum í bókmenntum sem hlotnuðust honum, fyrstum lagahöfunda, fyrir textagerð.