Bandaríska fjármálaritið Forbes birti í gær lista yfir tekjuhæstu karlkyns leikara heims en tekið var mið af tekjum leikaranna frá fyrsta júní á síðasta ári til júní í ár. Af listanum að dæma virðast leikarar í auknum mæli hljóta tekjur í gegnum streymisveitur.

Dwayne Johnson

The Rock er að öllum líkindum kátur með árslaunin.
Fréttablaðið/Getty

Leikarinn Dwayne Johnson, einnig þekktur sem The Rock, er tekjuhæsti leikarinn í bransanum í ár samkvæmt tímaritinu. Þetta er annað árið í röð sem leikarinn endar á toppi listans.

Vöðvabúntið halaði inn 87,5 milljóna Bandaríkjadala á árinu, meðal annars fyrir Netflix mynd sína Red Notice. Leikarinn virðist þar að auki mala gull í gegnum Under Armour fatalínu sína, sem inniheldur auk fatnaðar, skó og heyrnatól.

Ryan Reynolds

Ryan Reynolds hafnaði í öðru sæti yfir tekjuhæstu leikara heims.
Fréttablaðið/Getty

Í öðru sæti er hjartaknúsarinn Ryan Reynolds sem hlaut 71,5 milljóna Bandaríkjadala í ár. Bróðurpartur teknanna hlaut Reynolds fyrir leik sinn í Netflix myndunum Six Underground og Red Notice. Einnig er hann stofnandi gin fyrirtækis sem nýtur sí aukinna vinsælda.

Mark Wahlberg

Mark Wahlberg landaði þriðja sætinu.
Fréttablaðið/Getty

Mark Wahlberg græddi milljónir á framleiðslu þáttaraðanna McMillions og Wahl Street en hann var einnig með hlutverk í Netflix myndinni Spenser Confidential. Á árinu þénaði leikarinn um 58 milljónir Bandaríkjadala.

Ben Affleck

Ben Affleck er líkt og aðrir á Netflix lestinni.
Fréttablaðið/Getty

Fast á eftir Wahlberg fylgir Ben Affleck með 55 milljónir Bandaríkjadala í árslaun. Hann var einnig, líkt og nærri allir á listanum, með hlutverk Netflix mynd á árinu og ber sú heitið The Last Thing He Wanted.

Vin Diesel

Vin Diesel heldur áfram að græða á Fast and the Furious.
Fréttablaðið/Getty

Vin Diesel fékk ávísun fyrir nýjustu Fast and the Furious kvikmynd sína en hann framleiddi einnig þættina Fast and Furious Spy Racers fyrir Netflix. Gert er ráð fyrir að hann hafi fengið um 54 milljónir Bandaríkjadala fyrir ómakið.

Næstu fimm sæti skipa Bollywood stjarnan Akshay Kumar, sem sveigir framhjá Netflix en var með hlutverk hjá streymisveitunni Amazon Prime, Lin-Manuel Miranda, sem seldi Disney söngleik sinn Hamilton, Will Smith, Adam Sandler og hasarstjarnan Jackie Chan. Allir voru þeir með á milli 40 til 48 milljónir Bandaríkjadala í árslaun.