Guðrún Sigríður eða Goya eins og hún er kölluð brautskráðist með ágætiseinkunnina 9,58 sem er hæsta einkunn sem gefin hefur verið fyrir BS próf í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Hún lauk síðustu önn sinni með glæsibrag og fékk inngöngu í meistarnám í Oxford-háskóla á Englandi, KTH í Svíþjóð og ETH í Sviss, sem varð fyrir valinu. Allt gerði hún þetta með annarri hendi en hún brotnaði illa á handlegg í lok síðasta árs og var í gipsi í þrjá mánuði.

Hún segist ekki hafa búist við því að hljóta hæstu einkunn sem gefin hefur verið við deildina en stefndi alltaf á að standa sig vel og gera sitt besta.

„Ég tók námið strax föstum tökum á fyrstu önninni til að ná góðum grunni. Fyrsta önnin gekk mjög vel sem var hvatning til að halda áfram á þeirri braut."

Hún segir mikilvægt að læra eitthvað sem maður hefur áhuga á og að muna eftir því að hafa gaman líka þegar það er mikið að gera í skólanum.

„Ég lagði mikið á mig og sinnti náminu vel. Ég er búin að vera í mjög góðum hópi í lyfjafræðinni en við hittumst alltaf þrjú fyrir hvert einasta próf og verkefnaskil og töluðum um efnið. Það hélt manni á tánum. Ég passaði samt líka upp á að hafa gaman inni á milli og eignaðist góða vini."

Langaði til þess að læra eitthvað sem hjálpaði fólki

Hún segir að sig hafi alltaf langað í nám sem tengdist mannslíkamanum og til að læra eitthvað sem gæti hjálpað fólki.

„Mig hefur alltaf langað til að læra eitthvað sem gæti hjálpað fólki. Ég áttaði mig fljótt á því að læknisfræði eða hjúkrunarfræði væri ekki fyrir mig. Þá lá nokkuð beint við að fara í lyfjafræði. Lyfjafræðin kemur með annað sjónarmið á þetta þar sem hægt er að hjálpa mörgum í einu til dæmis með því að finna upp nýtt lyf. Rannsóknarhliðin á lyfjafræðinni er mjög spennandi."

Kláraði námið með annarri hendi

Goya brotnaði illa á handlegg á skíðum í lok síðasta árs og var í gipsi í þrjá mánuði.

„Ég brotnaði á skíðum í desember og var sett í gips en var enn þá með mikinn sársauka í handleggnum eftir mánuð. Þegar ég fór aftur til læknis þá kom í ljós að ég hafi dottið úr lið, þá var mér kippt í lið og ég sett aftur í gips í tvo mánuði."

Hún losnaði fyrst úr gipsinu í maí og viðurkennir að önnin hafi verið ansi strembin.

„BS verkefnið var sem sagt framkvæmt með annarri hendi en ég var mjög heppin með lærifélaga. Við unnum þrjú saman að lokaverkefninu og ég fékk mikinn stuðning frá þeim, þau kvörtuðu ekkert yfir því hvað ég var hæg að skrifa."

Hún hefur starfað hjá líftæknifyrirtækinu Alvotech, dótturfélagi Alvogen síðustu tvö sumur.

„Það hefur virkilega sýnt mér hvað ég hef mikinn áhuga á lyfjaiðnaðinum að starfa hjá Alvotech. Það er ekki komið neitt lyf á markað enn frá Alvotech þannig þetta er allt mjög spennandi. Við erum að vinna í að búa til ný lyf og það er mikil nýsköpun í gangi."

Goya ásamt Karítas Önju Magnadóttur sem hlaut næst hæstu einkunn.
Fréttablaðið/aðsend

Sviss varð fyrir valinu

Goya hefur nám í haust við ETH háskólann í Sviss í lyfjavísindum.

„ Meistaranámið í lyfjavísindum er blandað, bæði rannsóknarmiðað en einnig áhersla lögð á lyfjaiðnaðinn. Ég á enn eftir að finna út úr því hvort ég stefni á akademíuna eða lyfjaiðnaðinn. Mér finnst bæði mjög spennandi en það skýrist vonandi betur hvort verður fyrir valinu þegar ég byrja í náminu."

Hún sótti um meistaranám við Oxford á Englandi, KTH í Stokkhólmi og ETH í Sviss og fékk inngöngu í þá alla. ETH varð að lokum fyrir valinu vegna þess að henni þótti námið þar mest spennandi og segir að Sviss sé suðupunktur fyrir fyrirtæki í lyfjaiðnaðinum í dag.

„Það er lang mest að gerast þar í þessum iðnaði auk þess er skólinn mjög virtur. Ég viðurkenni að þetta var erfið ákvörðun en ég er mjög spennt fyrir komandi tímum og ánægð með ákvörðunina."

Þegar fréttamaður náði tali af henni naut hún lífsins ásamt tengdafjölskyldu sinni á Norðurlandi.

„Við erum í Glamping, eða glamorous camping, mitt á milli Húsavíkur og Akureyri. Þetta er alveg geggjað og það er gott að getað slakað aðeins á."

Í sumar starfar hún í Alvotech en ætlar einnig að fara hringinn í kringum landið með vinkonum sínum.

Í lok sumars taka svo við flutningar til Sviss þar sem Goya og kærastinn hennar munu bæði stunda nám í Zürich.