„Sissa ætlar að koma fram og syngja með mér. Nei eða já er nefnilega 30 ára. Sissa hefur ekki sungið með mér síðan Eurovision og það verður svo geggjað að fá hana með mér á sviðið.“

Þetta segir söngkonan sívinsæla Sigga Beinteins sem fagnar 40 ára söngafmæli sínu og 60 ára afmæli í Hörpu þann 7. maí næstkomandi. Sömuleiðis á Eurovision slagarinn Nei eða já 30 ára afmæli.

Sigga hefur gefið út átta sólóplötur og sex hljómplötur með Stjórninni og hefur sömuleiðis tekið þátt í að ala upp þjóðina með vinsælu barnaefni í sjónvarpinu.

Hún hefur farið oftast sem forsöngvari fyrir hönd Íslands í Eurovision, fyrst árið 1990 með laginu Eitt lag enn með Stjórninni, svo árið 1992 þar sem hún flutti lagið Nei eða já með Sigrúnu Evu Ármannsdóttur í Heart2Heart og að lokum árið 1994 með ballöðuna Nætur.

Sigga og Sissa árið 1992.
Mynd úr safni

Atriði Siggu og Sissu í Malmö sló rækilega í gegn. Helena Jónsdóttir samdi fyrir þær samhæfðan dans og þær dönsuðu saman á sviðinu í samstæðum pilsdrögtum, Sigga í gulri dragt og Sissa í rauðri. Búningarnir, sem voru hannaðir af Maríu Ólafsdóttur, hafa verið í geymslu hjá RÚV og Sigga kíkti þangað fyrir nokkru að sækja þá fyrir 40 ára söngafmæli sitt.

„Eurovision var það skemmtilegasta á mínum ferli. Ég á 40 ára feril í ár og þessar ferðir standa upp úr.“

Dragtirnar frægu.
Mynd: Eurovision Song Contest

Aðspurð hvort hún muni taka nokkra Júró slagara svarar Sigga játandi. Hver veit nema hún og Sissa stígi nokkur spor fyrir tónleikagesti í Eldborg.

„Það kemur í ljós hvort við tökum sporin aftur. Ég veit það ekki, það verður að koma í ljós,“ svarar Sigga og hlær.