Lúxus vörumerki og tískurisar eru farnir að hafa dúnvesti sem hluta af fatalínu sinni. Þetta eru merki eins og Canada Goose, Balenciaga, Burberry og Prada. Sala á dýrum dúnvestum hefur aukist gríðarlega undanfarið á en Moncler-vestin eru vinsælust í röðum lúxusmerkja sem framleiða dúnvesti. Sala á þeim jókst um 27% á síðasta ári. Ódýrari dúnvesti frá merkjum eins og North Face njóta líka aukinna vinsælda hjá fólki sem hefur minna milli handanna.

Tónlistarmaðurinn Sean John Comes einnig þekktur sem P. Diddy, Puff Daddy eða Love, notar oft dúnvesti. NORDICPHOTOS/GETTY

Dúnvesti urðu til í kjölfar dúnúlpunnar sem var fundin upp af ástralska efnafræðingnum George Finch árið 1922. Upphaflega voru dúnúlpur og dúnvesti aðallega notuð af útivistarfólki, en hvernig stendur á því að dúnvestin eru orðin að því stöðutákni sem raun ber vitni? Því velti stílistinn Victoria Hitchcock fyrir sér í grein sem birtist nýlega á vefnum businessoffashion.com. Hitchcock hefur unnið mikið með sérfræðingum í Silcicon Valley en vestin eru það allra heitasta tískunni hjá karlmönnum í háum stöðum þar.

Vestin hafa orðið mjög vinsæl í tæknigeiranum á síðustu fimm árum. Hitchcock telur eina ástæðuna mögulega vera þá að menn sem ólust upp við að horfa á Marty McFly í rauða dúnvestinu sínu í Back to the Future kvikmyndunum frá 9. áratugnum eru á þeim aldri að margir eru komnir í góða stöðu og hafa efni á vestunum, sem eru hálfgerð nostalgía til æskuára þeirra.

það muna eflaust margir eftir rauða dúnvestinu hans Martys McFly.

Tískuráðgjafi hjá Bloomingdales sagði að ein hugsanleg ástæða fyrir vinsældum vestanna væri sú að áður fyrr leit fólk frekar upp til milljónamæringanna á Wall Street. Þeir gengu um í dýrum jakkafötum sem urðu þá eins konar einkennisbúningur milljónamæringa. Í dag horfir fólk aftur á móti frekar upp til þeirra sem hafa þénað fúlgur í tæknigeiranum. Þessir menn, eðli vinnu sinnar samkvæmt, klæðast gjarnan hversdagslegri fötum. Þeir velja þá mögulega dýr dúnvesti til að sýna að þeir eigi pening.

Hitchcock segir að hún hafi í vinnu sinni sem stílisti hjá Silicon Valley reynt að stinga upp á öðrum flíkum en dúnvestum eða í það minnsta að stinga upp á ódýrari vestum eins og þeim frá North Face við viðskiptavini sína, en hún segir það ekki hafa borið mikinn árangur. Það virðist vera málið með dúnvestin hjá forriturum eins og ítölsku jakkafötin hjá verðbréfamiðlurunum. Því dýrari því betri.