Leikarinn Peter Scolari lést í gær eftir bar­áttu við krabba­mein. Hann var 66 ára gamall og hafði tekið að sér mörg eftir­minni­leg hlut­verk um ævina. Margir kannast ef­laust við hann úr þáttunum Girls þar sem hann lék pabba Lenu Dun­ham.

Dun­ham minntist leikarans fal­lega á Insta­gram-síðu sinni og lýsir honum sem bæði feimnum og mann­blendnum, dramatískum og fyndnum, hóg­værum og íkon.

„Þú hefur lifað nógu lengi til að vita að sjón­varps­þáttur er bara sjón­varps­þáttur en líka til að kunna virki­lega að meta það að fá að vinna við það að þykjast – og þú leyfðir okkur aldrei að gleyma að þetta starf væri for­réttindi,“ skrifar Dun­ham.

Hún segir Scolari hafa verið jafn á­nægður að vinna í söng­leik í litlu leik­húsi með engri net­tengingu og engum for­falla­leikara eins og hann var þegar hann fékk til­nefningu til Emmy-verð­launa.

„Þú varst alltaf að monta þig af börnunum þínum og þú sagðir bestu sögurnar,“ segir Dun­ham. Þegar Scolari tók þátt í Sirkúsi stjarnanna sagði hann „þar lærði ég að labba á línu, það er ekki svo erfitt“ og þegar hann fékk að vita að karakterinn hans á Girls myndi koma út úr skápnum sagði hann „takk, þú getur treyst mér fyrir þessu.“

„Ég og Becky Ann elskuðum hverja sekúndu af því að leika fjöl­skyldu þína og ég gæti ekki hafa verið alin upp af betri sjón­varps­pabba. Takk Scolari fyrir hvert spjall á milli at­riða, hvert knús á og af sviði og hvert „Oh, Jeez.“ Við munum sakna þín mjög mikið,“ skrifar Dun­ham að lokum.

Scolari skilur eftir sig konu, Tra­cy Shayne, og fjögur börn, Nicholas, Joseph, Keaton og Cali.