Í netmiðlinum Daily Mail er sagt að tískuflíkur eins og Nicole Kidman klæðist í þessum þáttum hafi ekki sést í sjónvarpi frá því að Carrie Bradshaw arkaði um götur New York borgar í Sex and the City. Talað er um að þessi glæsilegi klæðnaður gæti haft áhrif á söluna hjá helstu tískuhúsum heims á næstunni. Sérstaklega vekja kápurnar sem Nicole klæðist mikla athygli. Þá er því spáð að liðað, rauðleitt hár hennar geti orðið að tískubylgju á þessu ári. Mótleikari Nicole er Hugh Grant sem sömuleiðis vekur athygli. Auk þess fer Donald Sutherland með stórt hlutverk. Þættirnir sem eru sex talsins þykja afar vel leiknir og spennandi með morðfléttu sem heldur áhorfandanum við efnið. Hægt er að horfa á þessa þætti á Stöð 2 Maraþon.

Vefútgáfa Los Angeles Times hvetur fólk til að horfa á þættina og skrifar: „Horfið á þetta ótrúlega ríka fólk og sóðalegt líf þess.“ Þættirnir eru byggðir á bókinni You Should Have Known eftir Jean Hanff Koelitz sem kom út árið 2014. Framleiðandinn er hinn virti David E. Kelley en hann hefur getið sér gott orð fyrir margar frábærar sjónvarpsseríur eins og Boston Legal, Ally McBeal, L.A. Law og margar fleiri. Leikstjóri er Susanne Bier sem er dönsk og hefur vakið mikla athygli sem leikstjóri. Búningahönnuðurinn er sömuleiðis danskur, Signe Sejlund, en þær tvær hafa unnið mikið saman.

Glæsileg velúrkápa frá Max Mara. Takið eftir hárinu sem er sagt verða tískuhárið 2021. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Árið 2020 var skrítið ár en heimavera gaf mörgum nægan tíma til að horfa á sjónvarpsseríur og þar kom The Undoing sterk inn. Hárgreiðslustofur voru lokaðar og margir komnir með svokallaða COVID-hárgreiðslu. Þættir eins og The Undoing gætu hjálpað fólki að leita sér að breytingu varðandi hárgreiðslu. Norskur hársnyrtir nefnir greiðslu Nicole Kidman í þáttunum á vefmiðli VG og býst við að fólk verði duglegt að fá sér nýja liti í hárið þegar líður á þetta ár, jafnvel öðruvísi klippingu en það hafði áður. „Nýtt útlit með betri tímum. Koparrautt á eftir að vera vinsæll háralitur,“ segir hann.

Þeim sem ekki hafa séð The Undoing er bent á að fylgjast vel með fatnaðinum sem Nicole klæðist en þættirnir voru teknir upp rétt áður en heimsfaraldurinn skall á. Signe Sejlund búningahönnuður segir að fötin hafi verið valin til að Nicole yrði bæði dularfull og töfrandi í hlutverki sínu sem Grace Fraser. Hún er klædd í ofurlúxus frá toppi til táar. Vínrauð kápa með belti frá Phillip Lim, pils frá The Row og kjólar frá Bottega Veneta, silkikjóll með málmþráðum frá Givenchy og kápa með efni frá Max Mara. Fataskápurinn átti að vera klassískur og tímalaus. Skartgripirnir voru sérvaldir af skartgripahönnuðinum Rebeccu Elbek.

Þær eru hver annarri glæsilegri kápurnar sem Nicole Kidman klæðist í þáttunum. Kápan var hönnuð af Signe Sejlund búningahönnuði.

Signe segir að oft hafi fatnaður verið blandaður, aðkeyptur frá hönnuðum og síðan breyttur og lagfærður af henni. Þannig var með Max Mara kápuna rauðu. Nicole er mjög hávaxin og grönn. Það þurfti stundum að laga fatnað að hennar líkama. Signe saumaði sömuleiðis hentugan klæðnað fyrir aðra leikara þáttanna. Sannarlega hugsað út í hvert smáatriði.

Glæsileg kápa frá Phillip Lim.