Poppstjarnan Dua Lipa sætir nú ásökunum um lagastuld vegna smellsins Levitating. Er þetta í annað sinn á stuttum tíma sem hún er sökuð um hugverkaþjófnað en reggíband frá Flórída sakaði hana um hið sama fyrir viku síðan.

Lagið Levitating heldur um þessar mundir meti yfir þaulsætnasta lag á Bandaríska Top 10 Billboard-listanum, í flokki laga eftir kvenkyns tónlistarmann. Lagahöfundarnir L Russell Brown og Sandy Linzer segja upphafsstef lagsins vera stolið úr laginu Wiggle and Giggle All Night, frá árinu 1979, og einnig úr laginu Don Diablo frá 1980.

Kærunni til stuðnings lögðu þau fram viðtöl við söngkonuna þar sem hún gekkst við því að hafa með einbeittum vilja verið undir miklum áhrifum frá eldri tónlist á plötunni Future Nostalgia sem kom út 2020, sem lagið Levitating tilheyrir.

Hér má heyra lögin tvö og dæmi nú hver fyrir sig.