Hljómsveitin kom fram á sjónarsviðið seinni hluta áttunda áratugarins, gaf út sína fyrstu breiðskífu árið 1979, og varð fljótlega þekkt sem ein af helstu síðpönks- og nýbylgjusveitum þess tíma. Myrkrið og angurværðin sem sveif yfir vötnum á annarri breiðskífu hljómsveitarinnar, Seventeen Seconds, varð svo til þess að sveitin varð fljótlega, og er enn, talin hálfgerður tákngervingur gotneska rokksins og þess menningarkima sem skapaðist í kringum það.

Sígildur Smith.

Skuggalegar vinsældir

Skömmu fyrir útgáfu Pornography, fjórðu breiðskífu hljómsveitarinnar sem var enn drungalegri en fyrri plötur, árið 1982, fór útlit Smiths og annarra meðlima að taka á sig þá sérstæðu mynd sem þykir einkennandi og er löngu orðin samofin ímynd hljómsveitarinnar.

Í kjölfar Pornography fóru vinsældir sveitarinnar vaxandi, vonleysið vék fyrir viðmótsþýðara andrúmslofti, tónlistin varð poppaðri og fór sveitin að gefa út hvern slagarann á fætur öðrum. Segja má að sveitin hafi notið umtalsverðra vinsælda um allar götur síðan, þrátt fyrir að tónlistarlegur hápunktur sveitarinnar hvað almennar vinsældir snertir hafi óneitanlega verið snemma á níunda áratugnum fram til byrjunar tíunda áratugarins.

Þó er vert að taka fram að drunginn var að vissu leyti endurvakinn á plötunni Disintegration sem kom út árið 1989. Sveitin hefur þó enn ekki sagt skilið við gotneskt útlitið en komið hefur fram í viðtölum við Smith að hann máli sig ekki almennt um þessar mundir nema um viðburði sé að ræða.

Bassaleikarinn Simon Gallup sést hér túpera hár Robert Smith árið 1987.

Túperuð tilþrif

Það sem var og er einna mest áberandi við útlit Smiths er kolsvart hárið sem stendur út í allar áttir og minnir helst á úfinn köngulóarvef. Þá er hann vanalega hvítmálaður í framan, svartmálaður um augun og með blóðrauðan varalit klíndan á og í kringum varirnar, því kámugri, því betri. Hvað fatnað varðar, er hann þekktur fyrir að klæðast gjarnan víðum, síðum bolum og skyrtum ásamt dökkum gallabuxum og strigaskóm. Þá ber hann einnig gjarnan perlufestar.

Smith hefur þó sagt í viðtölum að þrátt fyrir að vera eins konar táknmynd og einn helsti áhrifavaldur gota (e. goths) hafi hann sjálfur aldrei litið, hvorki á sjálfan sig né hljómsveitina, sem slíka. Útlitið og klæðaburðurinn sé fyrst og fremst afurð leikrænnar tjáningar, en sveitin hefur alla tíð lagt ríka áherslu á sjónræna þáttinn, eins og sjá má og njóta í fjölda stórskemmtilegra myndbanda sem hún gaf út á sínum gullárum.

Hvað sem því líður, þá er óhætt að fullyrða að það er hægara sagt en gert að skilgreina þessa fjölbreyttu hljómsveit sem á sér engan sinn líka, hvort sem um ræðir hljóm sveitarinnar eða útlit. Leyfum myndunum að tala sínu máli.

Stutthærður og sjaldséður Smith.
Jakkafataklæddur Smith.
Smith hefur sagt að hann máli sig ekki almennt um þessar mundir nema um viðburði sé að ræða.
Ungur og nánast óþekkjanlegur.
Smith ásamt tónlistarmanninum Tricky á góðri stundu.