Elísabet Bretlandsdrottning og Karl Bretaprins neituðu beiðni hertogahjónanna af Sussex, Harry og Meghan, um að fá sitt eigið starfsfólk sem væri óháð Buckingham höll og restinni af konungsfjölskyldunni, að því er heimildir breska blaðsins Sunday Times herma.

„Þau vildu að starfsfólk sitt væri algjörlega sjálfstætt og óháð Buckingham höll en fengu nei,“ segir heimildarmaður breska blaðsins innan konungsfjölskyldunnar. „Það er ákveðinn strúktur sem að kemur í veg fyrir slíkt sjálfstæði. Tilfinningin er sú að það sé gott að hafa Sussex hjónin í umdæmi konungsfjölskyldunnar svo þau geti ekki bara hlaupið af stað og gert það sem þeim hentar,“ segir heimildarmaðurinn jafnframt.

Sjá einnig: Umfjöllunin um Meghan eins og um Díönu: „Sagan endurtekur sig“

Í umfjöllun Sunday Times kemur fram að hjónin hafi viljað skapa alþjóðlegt „Sussex vörumerki“ byggt á mannúðarstörfum þeirra og þannig hafi Meghan viljað tryggja að hún gæti haldið áfram að berjast fyrir ýmsum málefnum.

Fram kemur að konungsfjölskyldan hefur ekki staðfest fréttaflutning breska blaðsins eða tjáð sig um hann. Það var hins vegar staðfest í síðustu viku að konungsfjölskyldan hefði hafið undirbúning við að koma saman starfsliði handa hertogahjónunum, með stuðningi drottningarinnar og prinsins af Wales og að því yrði lokið í vor.

Einungis er mánuður síðan að fréttir bárust af því að Harry og bróðir hans William hefðu ákveðið að skipta starfsliði sínu í tvennt, í tvær sveitir óháðar hvor annarri en bresku götublöðin fullyrtu að sú ákvörðun hefði verið tekin til að lægja meintar öldur á milli eiginkvenna þeirra. Meghan er nú talin hafa sést í síðasta sinn á opinberum vettvangi áður en hún eignast væntanlegan erfingja.