Elísa­bet Bret­lands­drottning er mætt aftur til starfa eftir stutt veikindi en í dag tók hún á móti hópi gesta í gegnum net­fund í Windsor kastala. Þess er sér­stak­lega getið í um­fjöllun breskra götu­blaða að hún hafi verið skæl­brosandi.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur drottningin hvílt sig undan­farna daga að læknis­ráði. Þá eyddi hún einni nóttu fyrir helgi á spítala og var um að ræða fyrsta skiptið í rúm átta ár sem hin 95 ára gamla drottning gerði slíkt.

„Í dag tók drottningin á móti tveimur sendi­herrum í Windsor kastala,“ skrifar breska konungs­fjöl­skyldan á Twitter. Elísa­bet þarf enda að taka á móti hverjum einum og einasta sendi­herra í London. Drottningin hefur nóg að gera og er upp­tekin fram á mitt næsta ár.

Þrátt fyrir að vera við betri heilsu var tilkynnt í dag að Elísabet myndi ekki ferðast til Glasgow til að taka þátt í loftslagsráðstefnu þar hefst í næstu viku. Drottningin er sögð leið yfir því að komast ekki sjálf á ráðstefnuna en á ráðstefnunni verður flutt ávarp frá henni sem er tekið upp áður.