Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntadrottning og einn þekktasti sérfræðingur landsins í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar, er síðasti gestur Crownvarpsins, sérstakrar viðhafnarútgáfu Bíóvarps Fréttablaðsins um Netflix-þættina The Crown.
Þáttinn má sem fyrr nálgast á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins en þetta er um fjórði og síðasti þátturinn um The Crown þótt að þessu sinni sé sjónum beint að annarri Netfix-seríu, nefnilega raunveruleikaþáttunum Harry&Meghan.
Auk þess er nýútkomin bók Harrys, Spare, Kolbrúnu og umsjónarmönnum Bíóvarpsins, blaðamönnunum Oddi Ævari Gunnarssyni og Þórarni Þórarinssyni, mjög ofarlega í huga. Eðlilega en þar af nógu að taka.
Hertogahjónin af Sussex þau Harry og Meghan eiga því sviðið í þættinum rétt eins og í umræðunni undanfarnar vikur og mánuði í krafti umtalaðra og umdeildra sjónvarpsþáttanna og bókarinnar Varaskeifan um Harry sem var áður prins.
Þótt snarpur þátturinn sé í styttra lagi er hann alls ekki rýr í roðinu enda ekki komið að tómum kofunum hjá Kolbrúnu þegar hún fellir sína palladóma yfir Harry, Meghan og viðbrögðum konungsfjölskyldunnar við öllum þeirra fjölmiðlabægslagangi.