Nú er árinu 2018 lokið og hið nýja 2019 tekið við, vonandi með bjartari dögum fram undan. Áramótin marka líka miðpunkt leikársins sem gott er að nýta til að fara yfir liðna leikhúsmánuði, skoða hvað var frambærilegt á sviðum landsins, hverjir báru af og hvað mætti fara betur. Eins og alltaf byrjaði leikárið úti á landi með hinni einstöku einleikjahátíð Act Alone á Suðureyri, áhorfendur eru hvattir til að gera sér ferð og upplifa ekki bara ókeypis leikhús heldur heilt sviðslistasamfélag. Leikár höfuðborgarsvæðisins byrjaði af krafti með tveimur gjörólíkum sýningum í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu; annars vegar einleiknum Allt sem er frábært í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar og hins vegar stórsýningunni Ronju ræningjadóttur í leikstjórn Selmu Björnsdóttur, en orkan dalaði fljótlega því síðan þá hefur hálfgerð lægð legið yfir leikhúsunum. Hún er ekki endilega djúp en nöpur með köflum.

Sýningar sem lofuðu góðu á blaði, s.s. Dúkkuheimili, 2. hluti, eftir Lucas Hnath og Samþykki eftir Ninu Raine fóru ekki á flug þrátt fyrir þátttöku frambærilegra leikstjóra á borð við Unu Þorleifsdóttur og Kristínu Jóhannesdóttur. Lykilþátturinn sem klikkaði var ekki frammistaða leikaranna heldur gölluð handrit þar sem höfundar útskýrðu innihaldið frekar en að rannsaka málefnið sem fyrir lá, hvimleiður galli á bæði amerískum og enskum samtímaleikritum. Sömuleiðis voru margar sýningar nokkuð góðar en ekki endilega eftirminnilegar. 

Ljósið í skammdeginu 

Ljósið í skammdeginu eru nýju íslensku leikritin sem hafa upp til hópa lofað góðu og kynnt til sögunnar ný leikskáld, s.s. Jón Magnús Arnarsson, Sóleyju Ómarsdóttur og Matthías Tryggva Haraldsson. Leikritin komu úr ýmsum áttum, fjölluðu um margs konar málefni, þar var leikið með formið og gefin von um betri tíma. Aftur á móti er enn ástæða til að minna áhorfendur á að kaupa miða og mæta á ný íslensk verk, sérstaklega eftir höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þessi þróun er góð og jákvæð en minna virðist fara fyrir reyndari leikskáldum um þessar mundir, s.s. Kristínu Eiríksdóttur og Jóni Atla Jónassyni. 

Frægðin hefur lítið að segja ef hún varir einungis fimmtán mínútur eða ígildi einnar frumsýningar, leikskáldin þarf að rækta, ekki bara sviðsetja verk þeirra stöku sinnum. Frumsýningar á barnaleikritum voru alltof fáar fyrripart leikárs. Aðeins Ronja ræningjadóttir, byggð á bók Astrid Lindgren, var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu við miklar vinsældir enda frábær sýning. En fátt annað nýtt var í boði fyrir okkar yngstu leikhúsáhorfendur. 

Borgarleikhúsið endursýndi Jólaflækju um hátíðarnar og virðist ætla að eyða öllu sínu púðri í stórsýninguna Matthildi byggða á bók Roalds Dahl, í nýrri söngleikjaútgáfu, á vormánuðum. Þjóðleikhúsið frumsýnir síðan Þitt eigið leikrit – goðsögu eftir Ævar Þór Benediktsson, betur þekktan sem Ævar vísindamaður, í lok janúar. Tjarnarbíó byrjar 2019 með Rauðhettu í boði leikhópsins Lottu sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf á síðustu árum með því að ferðast með sýningar sínar um landið allt.

Nauðsynlegt bætiefni 

Tjarnarbíó heldur áfram að standa fyrir sínu sem miðpunktur sjálfstæðu sviðslistasenunnar á landinu. Helst ber að nefna nýju leikritin Svartlyng, Griðastað og Rejúníón sem öll færðu áhorfendum nýja sýn á samtímann, krydduðu leikhúsbragðlaukana og sönnuðu að sjálfstæða leikhúsið er nauðsynlegt bætiefni inn í flóruna. Að auki má alls ekki gleyma að Tjarnarbíó er vettvangur fyrir alþjóðlegt leikhús af ýmsu tagi, danssýningar og sviðslistahátíðir á borð við Lókal og Reykjavík Dance Festival sem stækka stöðugt. 

Þetta hús þarf Reykjavíkurborg að styðja miklu betur fjárhagslega enda hefur það margsannað sig að í leikhúsinu við Tjörnina er frjó jörð fyrir sviðslistaframtíðina. Menningarfélag Akureyrar gekk í gegnum erfiða tíma á síðasta ári en eftir að Marta Nordal tók við norðan heiða virðist leikfélagið vera að rétta úr kútnum. Lögð er mikil áhersla á grasrót bæjarfélagsins og stærsta sýning þeirra var hin goðsagnakennda Cabaret með þeim Ólöfu Jöru Skagfjörð og Hákoni Jóhannessyni í aðalhlutverkunum. Barnasýningin Gallsteinar afa Gissa eftir Karl Ágúst Úlfsson verður síðan frumsýnd í febrúar. Ekki má gleyma að Kvenfólk eftir Hund í óskilum hóf ferðalag sitt í samkomuhúsinu og er sýnt fyrir fullu húsi í höfuðborginni.

Frækinn sigur Þorleifs 

Ýmislegt annað er á seyði innan leikhúsheimsins. Á síðustu árum hafa markaðsdeildir stóru leikhúsanna komið sér upp þeim afleita sið að nota erlenda gagnrýni til að auglýsa komandi sýningar. Leiksýningar á sviði eru ekki eins og kvikmyndir, miðillinn er lifandi og breytist eftir því hvar og hvernig leikverkið er sýnt. Ný sviðslistalög voru sömuleiðis umdeild enda var fagfólk innan sviðslistaheimsins varla með í ráðum þegar þau voru samin. Ekki er ennþá komin niðurstaða í það mál en vonandi verður skýr afstaða tekin með sviðslistafólki og fjármagn aukið til muna þar sem ríkisafskipti af íslenskum sviðslistum hafa staðnað á síðustu misserum. Kynningarmiðstöð fyrir íslenskar sviðslistir er fyrir löngu orðin tímabær. Íslenskt sviðslistafólk hefur líka verið að hasla sér völl erlendis. 

Þar ber helst að nefna frækinn sigur Þorleifs Arnar Arnarssonar á Goetheverðlaununum en hann var valinn besti leikstjóri Þýskalands fyrir vinnu sína við Die Edda eftir Mikael Torfason. Norræna danshátíðin Ice Hot, vettvangur fyrir norræna dansmenningu, var haldin í Tjarnarbíó og leidd af Ásu Richardsdóttur sem nýlega var ráðin aðalframkvæmdastjóri IETM, alþjóðlegra tengslasamtaka fyrir samtímasviðslistir. Einnig var Ragnheiður Skúladóttir ráðin sem listrænn stjórnandi Artic Arts Festival í Noregi. Leiklestur Borgarleikhússins á samtali og sumbli þingmannanna á Klaustri var umdeildur en leikhús á að vera ögrandi og beintengt í samtímann. Greinilegt var á fjöldanum sem mætti á viðburðinn að áhuginn var fyrir hendi og varð jafnvel til þess að einstaklingar sem stunda ekki leikhús reglulega létu sjá sig. Minna hefur farið fyrir NT Live sýningum í Bíó Paradís síðustu mánuði en oft áður. Vonandi hverfa þessir viðburðir ekki af sjónarsviðinu enda mikilvæg viðbót við flóruna. Bestu sýningar síðustu mánaða (jólasýningarnar verða ræddar seinna í pistlinum) voru Allt sem er frábært í Borgarleikhúsinu, Ronja ræningjadóttir í Þjóðleikhúsinu og Leitin að tilgangi lífsins í boði 16 elskenda staðsett á gömlu Læknavaktinni við Smáratorg. Þessar sýningar eru kannski ólíkar en eiga það sameiginlegt að vera einlægar og virkilega vel skrifaðar.

Öllu tjaldað til 

Fyrri helmingur leikársins endaði eins og hann byrjaði, með tveimur afar ólíkum sýningum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Jólasýningarnar voru að þessu sinni Einræðisherrann eftir snillinginn Charlie Chaplin í nýrri danskri uppfærslu Nikolajs Cederholm og Ríkharður III eftir William Shakespeare í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Öllu var tjaldað til hvað varðar leikhópa og uppsetningu. 

Einræðisherrann  er hressileg blanda af ærslafullum gamanleik og hádramatískum boðskap þar sem Sigurður Sigurjónsson sýnir hvers hann er megnugur sem leikari. Er ekki kominn tími til að hann fái að spreyta sig á bitastæðri dramatískri rullu? Engar efasemdir eru um að Ríkharður III  er langbesta sýning síðustu mánaða þar sem ótrúlegur texti Shakespeares var framreiddur af skynsemi og skýrleika. Hjörtur Jóhann Jónsson hefur verið áberandi í smærri hlutverkum síðustu ár og fékk loksins að uppskera eftir alla þá vinnu sem hann hefur lagt til í gegnum tíðina. 

Túlkun hans á Ríkharði er hreint út sagt stórkostleg. En er þessum stóru sýningum gefið of mikið pláss þannig að þær yfirþyrmi aðrar í húsunum? Ekki svo að segja að sýningar á borð við Einræðisherrann og Ríkharð III eigi ekki sinn stað í íslensku leikhúsi, þvert á móti, enda eru báðar mjög eftirminnilegar. Spurningin er hvort þær komi niður á smærri sýningum í stóru húsunum. 

Drottning sjálfstæða sviðsins 

Hvað einstaka leikara varðar í öðrum sýningum þá er Sólveig Guðmundsdóttir ókrýnd drottning sjálfstæða sviðsins en hún bar af í sýningum á borð við Svartlyng og Rejúníón. Í þessu samhengi er einnig vert að nefna Val Frey Einarsson sem virðist ekki geta skrikað fótur á leiksviðinu og kvenaldan í Ríkharði III er óviðjafnanleg. Þar ber sérstaklega að nefna endurkomu Kristbjargar Kjeld og er kærkomið að sjá leikara af eldri kynslóðinni sýna að þeir hafa engu gleymt. Gleðilegt nýtt ár og megi næstu mánuðir bera með sér endurnýjaða orku á íslensk leiksvið.