„Ég segi stundum að ég sé fæddur inn í Skipaútgerð ríkisins og þar endaði ég í efstu stöðu. Mamma var þerna hjá útgerðinni öll stríðsárin og pabbi varð seinna háseti hjá sömu útgerð. Þar gekk hann vaktir í brúnni á kaupskipum og sem barn fékk ég að kíkja í brúna. Ég var því ekki nema níu ára þegar ég ákvað að verða skipstjóri á stórum flutningaskipum. Ég hafði gaman af stjörnum, landafræði og því að kanna umhverfið, og um leið og ég hafði aldur til var ég mættur í Stýrimannaskólann og sestur á skólabekk til að læra til skipstjóra,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.

Hilmar var fyrir tilviljun dubbaður upp sem háseti þegar hann fylgdi föður sínum til sjós og vantaði tvo menn um borð. Það var árið 1972 og Hilmar átti fimmtán ára afmæli um borð.

„Ég var reyndar ekki til stórræða í þeirri ferð því ég varð svo sjóveikur. Pabbi hvíslaði þá að mér að ég yrði aldrei sjómaður. Það herti mig allverulega og ég sór þess að svara fyrir mig í þeim efnum. Ég var svo allt þetta sumar á sjó og framan af sjóveikur en lét mig hafa það. Kosturinn við sjóveiki er að hún blossar upp skyndilega en hverfur um leið og skipið hættir að hreyfast og þótt maður æli lifur og lungum gleymist það fljótt. Svo er heldur ekki alltaf bræla á sjó þótt hafsvæðið við Ísland sé erfitt viðureignar veðurfarslega yfir vetrarmánuðina. Sjórinn hefur alveg gríðarlegt aðdráttarafl og stundum sagt að sjómenn séu þekktir fyrir að vera niðri á bryggju að fylgjast með skipum í fríum. Það væri eins og starfsmenn í álveri færu í Straumsvík til að horfa á verksmiðjuna í fríum. Slíkt þætti skrýtið en svona er nú eðli sjómannsins og sjórinn, hann lokkar og laðar,“ segir Hilmar og brosir.

Hilmar við skólaskipið Sæbjörgu sem er gamla Akraborgin. Hann segir Herjólf III vera tilvalið til að leysa gamla skólaskipið af hólmi. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Skemmtilegt en öðruvísi líf

Hilmar fagnar nú 30 ára starfsafmæli sem skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Áður átti hann farsælan feril sem skipstjóri á strandferðaskipum en einnig sigldi hann á flutningaskipum, farþegaskipum, olíuskipi og borskipi.

„Það er skemmtilegt líf að vera til sjós, en það er öðruvísi líf og ég hvet alla sem vilja prófa sjómennsku að gera það endilega. Menn geta þó ekki búist við að fá strax pláss á aflamestu skipunum, þeir þurfa að byrja á minni skipum og fikra sig upp með aukinni reynslu. Þó er það þannig að einhvers staðar verða menn að fá að byrja og við leggjum áherslu á að vel sé tekið á móti nýliðum og þeim kennd störfin um borð, því þegar skipstjóri fær ungan og óharðnaðan ungling til sín í dag þarf að hafa hugfast að ungmenni nú hafa allt aðra lífssýn en við þegar við vorum á þeirra aldri. Þau eru af kynslóð sem hefur vanist því að vera keyrð á milli staða og dúllað sé í kringum hana. Því er mikilvægt þegar verið er að fóstra unga menn til sjós að ekki sé komið illa fram við þá vegna þess að þeir kunna ekki til verka eða gert grín að þeim. Það er það versta sem getur gerst og að láta sér detta í hug að beita einelti með því að láta unga, óreynda og óslípaða menn gera það sem þeir kunna ekki er ótækt. Þar verðum við eldri sjómenn að horfast í augu við að við erum að fá annan efnivið til sjós í dag en við fengum fyrir tuttugu árum, því samfélagið hefur breyst. Við eigum frekar að taka þeim fagnandi, styðja þá og styrkja.“

Í þessu samhengi minnist Hilmar þess þegar hann vantaði matsvein á skip.

„Þá hringdi síminn og sagt var: „Ég elda sko engan sjoppumat, pitsur eða hamborgara!“ sagði matsveinn sem hafði verið á togara þar sem ungu strákarnir snæddu hvorki fisk né annan heimilismat. Tíðarandinn hefur hins vegar breyst, ungt fólk er vant meiri skyndibita en áður var og við þurfum að mæta því að einhverju leyti.“

Störf til sjós í dag henti líka öllum kynjum.

„Það geta allir farið í vélstjórn eða skipstjórn, óháð kyni. Sjómennska var púl og erfiðisvinna fyrr á árum en það eru ekki sömu störfin til sjós og þá. Í dag er allt unnið með hjálpartækjum og sjómenn orðnir tækjamenn á mörgum skipum.“

Flest slys á skuttogurum

Hilmar á sér draum fyrir hönd sjómanna.

„Ég á mér draum um engin slys á sjó. Margir segja það óraunhæft en ég er sannfærður um hið gagnstæða. Það kostar samstillt átak einnar starfsstéttar sem telur um 8.000 manns og það er ekki stór hópur til að ná svo verðugu takmarki fyrir sjálfan sig. Við höfum þegar náð að vinna bug á banaslysum og nú er það næsta verkefni, slysalaus sjómennska, en menn þurfa að fara varlega,“ segir Hilmar.

Hann segir hafið ekki hættulegra en bílaumferð í landi.

„Hér áður var litið á sjómennsku sem ákveðinn fórnarkostnað. Það vissu allir sjómenn og stundum sagt að þegar fjórir bátar voru farnir í hafið með manni og mús á vetrarvertíð væru aðrir sennilega sloppnir. Í dag eru skip stærri og öflugri, og veðurspár miklum mun nákvæmari. Það kemur í veg fyrir að sjómenn fari út í óvissuna. Menn eru ekki eins áfjáðir í dag að vera á hafi úti í snarvitlausu veðri og koma sér fyrr í var. Það köllum við góða sjómennsku, að fara vel með skip og áhöfn.“

Hilmar hefur verið í rannsóknarnefnd sjóslysa og samgönguslysa frá árinu 1995.

„Þar höfum við séð að flest slys verða hjá hásetum sem er jú langstærsti hópur sjómanna og að skuttogarar hafa reynst hættulegastir skipa. Slysahættur fyrirfinnast svo alls staðar en mér finnst verst þegar ég sé að skipstjóri hafi slasast því hann á að vera yfirmaður öryggismála um borð og öðrum fyrirmynd, sjá til þess að allir vinni af miklu öryggi, noti persónulegan öryggisbúnað, tileinki sér öryggisatriði og byggi upp öruggt samfélag,“ segir Hilmar.

Hann bendir á að í hverju skipi sé gerð krafa um framkvæmd áhættumats sem sé endurskoðað á ári hverju.

„Með áhættumati, sem er lagaleg skylda, leita menn uppi hættur um borð og gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Við heyrum suma skipstjórnendur segja að áhættumatið sé bara rugl en menn þurfa að horfa á þá staðreynd að vinnustaður verður aldrei öruggari en við gerum hann sjálf. Slys um borð eru engan veginn ásættanleg og menn þurfa að leggja vinnu í að koma í veg fyrir þau.“

Á 30 starfsárum hjá Slysavarnaskólanum hefur Hilmar séð miklar breytingar til batnaðar.

„Sífellt fleiri átta sig á að öryggismál um borð skipta öllu máli því líf einstaklings sem verður fyrir slysi á sjó verður aldrei í líkingu við það ef hann væri heill og í launuðu starfi. Það vill enginn verða örkumla og bætur duga skammt til frambúðar. Því er sameiginlegt átak allra um borð að vinna að forvörnum og ef menn vinna að þeim samviskusamlega fækkar slysum enn meir.“

Hilmar segir hafið ekki hættulegra en umferðin í Reykjavík, sé farið varlega. Flest slys verða um borð í skuttogurum. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Enginn verður fullnuma í slysavörnum

Á þrjátíu árum í Slysavarnaskóla sjómanna hefur Hilmar aldrei útskrifað einn einasta sjómann.

„Það er vegna þess að það verður enginn fullnuma í slysavörnum og við getum alltaf gert betur. Hættulegast er að sofna á verðinum, þegar við förum að gera lítið úr umhverfinu sem við vinnum í og menn tala okkur niður,“ segir Hilmar.

Með Slysavarnaskólanum varð Ísland langt á undan öðrum þjóðum í forvörnum á sjó.

„Það sýnir þor og vilja íslenskra stjórnvalda sem settu lög um öryggisvörslu, grunnfræðslu og endurmenntun allra íslenskra sjómanna. Allt tók það stakkaskiptum þegar þingmannanefnd undir stjórn Matthíasar Bjarnasonar, þingmanns og þáverandi ráðherra, var sett á laggirnar árið 1983 en Slysavarnaskólinn var stofnaður að tillögu þeirrar nefndar. Við höfum notið góðs af stuðningi stjórnvalda alla tíð og erum nú á öðru skólaskipinu sem þau hafa fært okkur; reyndar voru greiddar þúsund krónur fyrir fyrri Sæbjörgina, en núverandi Sæbjörgu fengum við frítt. Kannski þeim hafi þótt verðmiðinn of dýr á fyrra skipinu,“ gantast Hilmar með.

Hann segir marga sjómenn kalla eftir kröfu um að þeir komi oftar til náms í Slysavarnaskólanum en á fimm ára fresti.

„Þá finnst þeim ekki nóg að gert í þeirra skipum hvað varðar öryggi og forvarnir. Menn þurfa eðlilega að æfa sig í millitíðinni og í gegnum árin hef ég bent á að fái útgerðarmaður nýtt skip í hendur, sem kostar fjóra til sex milljarða, verður að gera kröfur um að öryggismálin séu í lagi. Skipstjóri má ekki hafa áhyggjur af því að áhöfnin kunni ekki að bregðast við ef eldur kviknar í skipinu eða slasi sig um borð í nýju skipi því þegar komið er af gömlum skipum þarf að breyta um vinnubrögð og fara sérstaklega varlega á meðan lært er á nýja skipið. Því hlýtur að vera krafa þegar menn fá nýtt skip beint úr skipasmíðastöð að þeir leggi mikla vinnu við öryggismál, læri á skipið og haldi þeim þannig að þau séu eftirsóknarverður vinnustaður þar sem engin vá gerist um borð, þegar kemur að slysum og áhöfn. Öryggið þarf að vera í lagi og þannig sjáum við breytingar verða til góðs.“

Andleg vellíðan í fyrirrúmi

Í Slysavarnaskóla sjómanna er einnig hlúð að andlegri hlið sjómanna.

„Andleg og félagsleg vellíðan sjómanna er forsenda fyrir góðum árangri því nýliði sem er hræddur í vinnunni er dæmdur til að lenda í slysi. Sjómenn eru jú ímynd karlmennskunnar; við erum harðir og stöndum þetta af okkur, en undir niðri eru menn líka mjúkir,“ segir Hilmar og heldur áfram:

„Einelti á ekki að þekkjast til sjós en því miður eimir enn af því. Oft og tíðum gera menn sér ekki grein fyrir að þeir standi fyrir einelti og kalla það stríðni, en stríðni er einelti ef hún beinist að sama aðila, aftur og aftur. Einelti á ekki að líðast á meðal fullorðinna manna því það er mannskemmandi og slysavaldandi og ef við getum ekki verið eins og ein fjölskylda um borð þarf einhvers staðar að taka til.“

Hilmar bendir á einmanaleikann og segir sjómenn þurfa að eiga sér áhugamál sem þeir taka með sér um borð.

„Með tilkomu Covid-19 fóru í hönd tímar sem bitnuðu illa á mörgum sjómönnum. Íslenskir sjómenn erlendis hafa ákveðin fríkerfi en þau hafa riðlast og túrarnir lengst. Sumir hafa verið upp undir fimm mánuði að heiman og ekki einu sinni getað ferðast frá borði. Það er meira en að segja það að vera tíu til ellefu mánuði í burtu og komast ekki heim, en mörg ríki hleyptu skipum ekki í höfn og við því var ekkert að gera.“

Á heimsvísu hefur verið vakin athygli á auknum sjálfsvígstilfellum sjómanna á tímum Covid-19.

„Við þurfum að passa upp á hvert annað. Það er ekki eins manns verk heldur hópverkefni að láta öllum um borð líða vel. Í gamla daga var sagt að kokkurinn væri sálfræðingurinn um borð, því hann var miðpunkturinn þar sem allir komu saman og léttu á sér, og við eigum að hafa getu til að tala saman um okkar hjartans mál.“

Hilmar segir miður að of lítið gert úr vinnu sjómanna og fjarverunni sem þeir búa við frá fjölskyldum sínum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Tími kominn á nýtt skólaskip

Frá árinu 1986 hefur Slysavarnaskóli sjómanna haft aðsetur í gömlu Akraborginni, en fyrsta skólaskipið var í varðskipinu Þór.

„Nafn skólaskipsins, Sæbjörg, er til heiðurs eldklerknum Oddvari Gíslasyni í Grindavík. Hann var frumkvöðull sem var mjög umhugað um öryggi sjómanna og gaf út blaðið Sæbjörgu. Nafnið Sæbjörg á vel við; björg úr sæ,“ upplýsir Hilmar um borð í Sæbjörgu.

„Gamla Akraborgin var smíðuð 1974. Hún er í góðu ásigkomulagi en við getum ekki siglt henni. Við höfum því lýst yfir áhuga okkar á að Herjólfur III leysi núverandi skólaskip af hólmi og með slíku skipi væri hægt að gera margt. Nú er til dæmis krafa um að sjómenn komist í starfsnám og í Herjólfi væri hægt að kenna vélstjórum og verðandi skipstjórnendum að sigla og vinna í vélarúmi. Skipið gæti því orðið samstarfsvettvangur tveggja skóla en í núverandi Sæbjörgu höfum við ekki lengur aflögufært rými.“

Nú í vikunni tók Slysavarnarskóli sjómanna við veglegri gjöf í nafni Styrktarsjóðs nemenda Stýrimannaskólans í Reykjavík, sem var settur á laggirnar fyrir 100 árum til að styrkja nemendur til náms.

„Fyrir gjöfina var fjárfest í hermum sem kenna mönnum að sigla björgunarförum í tölvum, rétt eins og þeir séu með stjórnbúnað á staðnum. Í slíkum leikjaheimum felast miklir möguleikar og hægt að þjálfa sjómenn áður en þeir snerta raunveruleg tæki við raunverulegar aðstæður,“ segir Hilmar sem er vakinn og sofinn yfir öryggisfræðum sjómanna.

„Í september stefnum við á að taka í notkun nýtt æfingasvæði til slökkviæfinga á bak við slökkvistöðina í Skútahrauni í Hafnarfirði. Það mun breyta gríðarmiklu í kennslu í slökkvistörfum fyrir sjómenn og í stað jarðeldsneytis munum við nota gas sem er umhverfisvænna og ekki jafn heilsuspillandi. Æfingasvæðið byggjum við í góðu samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og báðir aðilar binda miklar vonir við nýja svæðið.“

Varkárar hetjur hafsins

Í gömlum sjómannaslagara segir: „Sjómannslíf, sjómannslíf, draumur hins djarfa manns“, en Hilmar segir enga djörfung þurfa til í sjómennsku nú.

„Þótt hetjur hafsins hafi verið yrkisefni gamalla sjómannavísna þurfa sjómenn í dag fyrst og fremst að vera varkárir. Við fögnum vitaskuld öllum sem komist hafa úr sjávarháska með hetjudáð, en viljum einfaldlega ekki að menn lendi í þeirri stöðu,“ segir Hilmar.

„Hetjudáð felst í fórnum sjómanna sem leggja á sig að vera fjarri fjölskyldu sinni til að skapa þjóðarverðmæti, en því miður er of lítið gert úr vinnu sjómanna og fjarverunni sem þeir búa við. Við missum af uppeldi barna okkar, veislum og lífsins tilefnum, og menn hafa meira að segja misst af eigin brúðkaupi vegna sjósóknar.“

Uppáhaldssjómannalag Hilmars er Stolt siglir fleyið mitt eftir Gylfa Ægisson.

„Mér finnst það fallegt lag. Það minnir mig á skipið Gullfoss sem ég sigldi á sem háseti 1973, en Gullfoss var gjarnan kallað stolt íslenska flotans,“ segir Hilmar.

Honum þykir vænt um öll skip sem hann hefur siglt.

„Maður binst öllum sínum skipum sterkum tilfinningaböndum. Fyrir sjómenn er skipið sem þeir eru á þá stundina hjartfólgnast enda geymir það líf þeirra og limi. Hjá mér er það klárlega Sæbjörgin núna. Hún er líka mjög gott skip og notalegt.“

Honum þykir vænt um öll skip sem hann hefur siglt.

„Maður binst öllum sínum skipum sterkum tilfinningaböndum. Fyrir sjómenn er skipið sem þeir eru á þá stundina hjartfólgnast enda geymir það líf þeirra og limi. Sjálfur er ég svo ýktur í þessu að ég safna sögu íslenskra kaupskipa, held utan um uppruna þeirra og fylgist þar með mínum skipum, sem og örðum, sem enn eru ofansjávar. Hjá mér er það klárlega Sæbjörgin núna. Hún er líka mjög gott skip og notalegt.“