Það virðist litlu skipta hvað hjónin Kim og Kanye taka sér fyrir hendur flest sem þau segja eða gera ratar í fjölmiðla. Nýjustu fréttir herma að rapparinn Kanye sé staðráðinn í að flytja fjölskyldu sína frá Los Angeles heim á æskustöðvar hans í Chicago.  

Rapparnum er tíðrætt um heimaborg sína og dásamar hana í hvers manns eyru. Samkvæmt heimildum fréttamiðilsins TMZ þá hafa Kim og Kanye nú þegar augastað á húsi þar í borg. 

Gangi hugmyndir hans eftir mun fjölskyldan búa í Chicago til frambúðar. Þrátt fyrir fyrirhugaða hreppaflutninga hyggjast hjónin ekki selja núverandi heimili sitt í Kaliforníu.

Parið býr núna ásamt börnum sínum þremur í úthverfi Los Angeles- borgar í húsi sem þau keyptu af Lisu Marie Presley, dóttur goðsagnarinnar Elvis Presley. Hjónin réðust í umtalsverðar endurbætur á nýja heimilinu sínu en þau greiddu um 20 milljón dollara fyrir eignina á sínum tíma. Fjárfestingin borgaði sig greinilega því fasteignin er í dag metin á 60 milljón dollara sem samsvarar tæplega sjö milljörðum íslenskra króna.

Yfirlýsingagleði Kanye hefur oft komið honum í koll en í þetta sinn virðist honum vera full alvara með metnaðarfullar fyrirætlanirsínar. Heimildir vestra herma að rapparinn stefni á feril í stjórnmálum og sé staðráðinn í að feta slóð dáðasta sonar Chicago-borgar sjálfan Barack Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna, alla leið í Hvíta húsið.