Svart og hvítt er yfirskrift sýningar sem verður opnuð í dag, laugardaginn 13. október, í Listasafni Reykjavíkur. Þar getur að líta um þrjátíu ný og nýleg svarthvít málverk eftir Erró. Þar blandar hann saman sögulegum persónum og fígúrum teiknimyndasagna.

„Ég hef alltaf öðru hvoru gert svarthvítar myndir, nokkrar á ári,“ segir Erró. „Svo sá ég merkilega sýningu á safni í Vínarborg um Bruegel og syni hans tvo. Þegar hann dó héldu þeir áfram að nota vinnustofu hans og gerðu svarthvítar eftirmyndir af litmyndum hans til að útvega sér peninga. Ég sá þarna heilan vegg af svarthvítum myndum og það kveikti í mér.“

Spurður hvernig hann fari að því að finna fyrirmyndir til að nota í myndir sínar segir hann: „Þegar ég ferðast fer ég í bókabúðir og finn þar mikið af efni og svo er mikið um að fólk sendi efni til mín. Fólk, sem ég þekki alls ekkert, hugsar: Þetta væri gott fyrir hann. Á vinnustofunni er ég með sextíu skúffur og í þeim er alls kyns efni, ein skúffan er með myndum af fjöllum, önnur með myndum af einræðisherrum og svo framvegis.“

Alveg eins og Napóleon

Erró er orðinn 86 ára og segir um aldurinn: „Mig langar mjög mikið til að verða 88 ára, það er svo falleg tala enda uppáhaldstala Kínverja.“ Hann er enn gríðarlega vinnusamur. „Ég vakna klukkan hálf átta og fer á hverjum degi á vinnustofuna og er þar til klukkan sex eða sjö. Laugardagur og sunnudagur eru sérstaklega drjúgir, ef ég er ekki truflaður af símanum. Stundum hringir síminn tuttugu sinnum á dag og þá er útilokað að vinna. Þess vegna slekk ég oft á honum.

Ef ég vinn ekki þá drepleiðist mér. Ég fæ mér blund fjórum til fimm sinnum á dag og vakna upp eins og ég hafi sofið heila nótt. Þegar fór að bera á þessu var sagt við mig: Þú ert alveg eins og Winston Churchill en núna þegar ég blunda oftar en áður er sagt: Þú ert alveg eins og Napóleon.“

Tuttugu skrímsli

Við opnun sýningarinnar veitir Erró styrk úr sjóði sem hann stofnaði til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur. „Hún var mér sem önnur móðir og ég bjó um tíma hjá henni. Hún safnaði myndum og var mjög skemmtileg kona. Hún átti um tuttugu mismunandi skrímsli og þegar börn komu í heimsókn setti hún þau upp á borð og trekkti þau upp. Börnin fylgdust agndofa með þegar skrímslin fóru af stað og stundum greip hræðsla um sig.“

Sjóðurinn veitir styrki til listakvenna. „Það er vegna þess að það er miklu erfiðara fyrir konur en karla að komast áfram í myndlistinni. Ég þekki unga franska listakonu sem ég sendi á mörg gallerí með myndir sínar. Þar fékk hún yfirleitt boð frá yfirmönnum um að fara með þeim á ströndina yfir helgina.“

Erró býr í París. „Ég er með mjög stóra vinnustofu í fimmtánda hverfi, sem ég borgaði til helminga með málverkum. Ég bý í sjötta hverfi, á rólegum stað, á fimmtu hæð og það er mjög fallegt tré fyrir utan gluggann minn sem nær upp á sjöttu hæð. Það var sjálfur Baudelaire sem plantaði því á sínum tíma og það er vel varið.“

Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem Erró kemur hingað til lands. „Ég vildi svo gjarnan tala oftar íslensku og hefði gaman af að æfa mig á henni en það gerist sjaldan. Ég tala hana bara eins og ég get,“ segir hann. Það tekst alveg ágætlega hjá honum.