Ástralski leikarinn Chris Hemsworth býr við aukna á­hættu á því að fá Alz­heimer vegna erfða­fræði­legra þátta og hyggst taka sér stutt hlé frá leik­listinni vegna þessa, að því er fram kemur á vef Guar­dian.

39 ára leikarinn fór í ýmsar prófanir vegna Dis­n­ey+ heimilda­þátta­seríunnar Limit­less og komst þar að því að hann væri með tvær út­gáfur af ApoE4 geninu frá báðum for­eldrum. Hann er meðal 2-3 prósent heims­byggðarinnar sem er því tíu sinnum lík­legri til þess að fá Alz­heimer en þeir sem ekki eru með genin.

„Það er ekki eins og ég hafi hætt,“ segir Hemsworth. Í þáttunum reynir leikarinn á sig og gerir sitt besta til að af­hjúpa leyndar­dómana á bak­við heilsu fólks. „Það gerði það að verkum að mig langar að taka mér tíma fyrir sjálfan mig,“ segir leikarinn.

„Ef þú horfir á það hvernig hægt er að koma í veg fyrir Alz­heimer þá eru það nokkur fyrir­byggjandi skref sem hafa á­hrif á þig restina af ævi þinni. Þetta snýst allt um að hafa stjórn á svefninum, stressi, næringu og hreyfingu. Þetta eru sömu verk­færin sem þarf að nota á réttan hátt.“

Hemsworth tekur þó fram að þetta sé engan veginn greining. „Þetta er ekki or­saka­valdur en hefur mikil á­hrif. Fyrir tíu árum síðan var þetta hugsað meira eins og or­saka­valdur.“

Leikarinn segir að hann, leik­stjórinn Darren Aronof­sky og læknirinn Peter Attia hafi fyrst ætlað að greina frá niður­stöðunum og taka upp þáttinn á meðan. Þegar leik­stjórinn hafi komist að því hverjar niður­stöðurnar væru hefði hann á­kveðið að segja Hemsworth frá þessu í ein­rúmi.

Leikarinn segir að hann hafi þá átt val um að eyða öllu þessu tengt úr þáttunum. Hann segist hafa viljað hafa allt upp á borðum. „En ég hafði aðal­lega á­hyggjur af því að ég vildi ekki gera of mikið úr þessu, afla mér ein­hverrar ó­verð­skuldaðrar sam­úðar bara upp á skemmtana­gildið.“