Fyrst virkar textinn eins og hróp söngkonunnar eftir ástinni. En ef textinn er skoðaður betur skín í gegn barátta hennar til að vekja mannfólkið af tómlæti sínu og áhugaleysi á verndun jarðarinnar,“ segir söngkonan Nína Dagbjört Helgadóttir en hún kemur fram í undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins og syngur lagið Ekkó á laugardaginn.

Það var Þórhallur Emil Halldórsson sem samdi lagið en hann hafði séð lag frá Nínu á myndbandasíðunni YouTube.

„Ég þekkti Þórhall ekki fyrir, en hann fann mig á YouTube. Ég samdi lagið Prove It ásamt Javi Valino við og gerðum tónlistarmyndband sem vakti mikla athygli. Þórhallur hafði samband, við hittumst og allt small saman,“ segir Nína.

Prófin í forgangi

Móðir hennar Rúna Stefánsdóttir er söngkona. Hún segir Nínu hafa tekið því með stökustu ró þegar lagið var valið til að taka þátt í undankeppninni.

„Nína er svo jarðbundin að hún lét okkur ekki vita að lagið hefði verið valið fyrr en nokkrum dögum eftir að hún fékk að vita það sjálf. Hún var að læra fyrir stúdentspróf. Þegar við inntum hana eftir því hví hún hafði ekki sagt okkur frá þessu um leið svaraði hún að hún hefði einfaldlega ekki tíma til að pæla í þessu akkúrat þá, hún yrði að læra og myndi hugsa um þetta um leið og prófum lyki,“ segir Rúna.

Rúna hefur tvisvar tekið þátt í undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hún fór árið 1999 út til Ísraels og söng bakraddir við lag Selmu Björnsdóttur, All out of luck. Það endaði í öðru sæti. Rúna segist handviss um að Nína myndi standa sig með prýði á stóra sviðinu í Rotterdam.

„Svo sannarlega, Nína er mjög einbeitt í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur, hún hefur mikinn metnað fyrir sér, laginu og keppninni í heild,“ segir Rúna.

Söngelsk í æsku

Það stóð ekki til að Rúna myndi syngja með Nínu, enda var það henni fyrst og fremst í huga að vera dótturinni til halds og trausts í gegnum ferlið.

„Ég var með henni í stúdíóinu, hjálpaði til með val á bakröddum og valdi með henni búninga. Við hjónin höfum unnið vel saman með Einari Bárðarsyni, sem samdi íslenska textann. Það var aldrei ætlun mín að troða mér inn í bakröddun,“ segir Rúna og hlær. „En síðan kom það í ljós að Ágústa Ósk söngkona gæti ekki verið með okkur í undankeppninni. Þá var það í raun einfaldast að hendast í hlutverkið í hennar stað,“ segir hún.

Nína hefur verið söngelsk frá því að hún man eftir sér.

„Mamma og pabbi hafa bæði mikið verið í músíkbransanum og eðlilega smitaðist ég af þeirra áhuga,“ segir Nína.

Skrifað í skýin

Fjölskyldan öll heldur mikið upp á Eurovision og horfir alltaf á.

„Við skráum alltaf niður hvaða lög við teljum líklegust til að komast áfram og sigra, hér heima og úti. Það er auðvitað alltaf meira gaman ef Ísland kemst í úrslit, en ef ekki, þá horfum við þrátt fyrir það,“ segir Rúna.

„En vegna tengsla mömmu við keppnina er hægt að segja að áhugi minn á Eurovison hafi verið óumflýjanlegur. Ég hef alltaf verið mjög stolt af þátttöku mömmu í keppninni og það var minn draumur að fá einhvern tímann að taka þátt líka. Það kom sannarlega skemmtilega á óvart að detta í þann lukkupott að fá að taka þátt núna,“ segir Nína.

Hún segir mömmu sína alltaf hafa verið fyrirmynd hennar þegar kemur að söngnum.

„Hún hefur alla tíð gefið mér góð ráð, bæði þegar kemur að söng og framkomu. Hún er mér algjörlega ómissandi og ég er svo hamingjusöm að hafa hana mér við hlið í bakröddum þegar ég stíg á svið næsta laugardag,“ bætir hún við.

Gætu ekki verið stoltari

Rúna segir það afar skemmtilegt að horfa á dótturina feta sömu braut og hún sjálf gerði.

„Ég og fjölskyldan öll gætum ekki verið stoltari. Við höfðum alltaf sagt að það væri skrifað í skýin að Nína myndi einhvern tímann taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins og nú er hægt að segja að draumurinn um Nínu hafi ræst,“ segir Rúna hlær.

Líkt og Nína fékk tónlistarbakteríuna frá móður sinni, fékk Rúna söngáhugann í gegnum móður sína, Esther Garðarsdóttur.

„Hún söng meðal annars með Árna Elfari og Hauki Morthens í gamla daga. Svo smitaðist Nína af mínum áhuga og ef ég hef rétt fyrir mér er ég nokkuð viss um að hún muni flytja þennan tónlistaráhuga áfram til barna sinna þegar að því kemur,“ segir Rúna.