Leikstjórinn Kristófer Dignus ákvað eftir hvatningu frá Jóni Gunnari Geirdal að freista þess að láta hugmynd að Draumnum, alíslenskri söngleikjabíómynd, rætast. Tónlistarfróði sálfræðingurinn Birgir Örn Steinarsson, Biggi löngum kenndur við Maus, bættist síðan í hópinn og þróunarvinnan er á slíkri siglingu að stefnt er á frumsýningu haustið 2022.

„Ég fékk hugmyndina að gera alvöru íslenska söngvamynd þegar ég var í heimkomusóttkví í vetur,“ segir Kristófer Dignus sem þá gat gert fátt annað en ganga hring eftir hring um Laugardalinn með íslenska tónlist í eyrunum.

„Ég enduruppgötvaði nefnilega íslenska tónlist þegar ég gerði Jarðarförin mín en þar hafði hún mjög mótandi áhrif á andrúmsloft seríunnar. Fólk virtist líka helvíti ánægt með öll þessi fínu lög sem ég valdi í sándtrakkinn,“ segir Kristófer sem bar hugmyndina undir Jón Gunnar Geirdal sem vann náið með honum að gerð Jarðarfaraþáttanna sem einn handritshöfunda og höfundur grunnhugmyndarinnar.

ABBA-áhrifin

„Ég bar þessa hugmynd undir kollega minn og stórvin, Jón Gunnar Geirdal sem fannst hugmyndin geggjuð og hvatti mig til dáða,“ segir Kristófer og Jón Gunnar kjarnar Drauminn eins og frasakóngi sæmir:

„Draumurinn er söngleikjabíómynd þar sem íslenskir dægurlagasmellir verða skrifaðir inn í handritið í anda Moulin Rouge! og Mamma Mia.“

Söngvamyndin Moulin Rouge þar sem leikstjórinn Baz Luhrmann fléttaði sígildum lögum eins og One Day I´ll Fly Away, Lady Marmalade og Your Song saman við tragíska ástarsögu sló eftirminnilega í gegn á sínum tíma og sama má segja um ABBA-söngleikinn Mamma Mia! þar sem keyrt var á sívinsælum lögum sem allir þekkja.

Draumurinn er söngleikjabíómynd þar sem íslenskir dægurlagasmellir verða skrifaðir inn í handritið í anda Moulin Rouge! og Mamma Mia.
Fréttablaðið/Samsett

Kristófer segir það eðlilega hjálpa söngleikjum þegar þeir byggja, eins og Mamma Mia! og Moulin Roge!, á lögum sem þegar eru þekkt og þannig njóti þeir félagar ákveðins forskots þótt sagan sé frumsamin og ný.

Söngvamynd af nýja skólanum

„Þarna svindlum við svolítið vegna þess að við erum með standarda sem allir þekkja og geta raulað með þannig að við erum í raun og veru komnir miklu lengra bara strax af því þetta eru lög sem fólk þekkir og elskar. Mamma Mia! var svona fáránlega vinsæl vegna þess að allir þekkja lögin.“

Þótt Jón Gunnar og Kristófer fari ekki leynt með hvert þremenningarnir horfa til fyrirmynda leggur sá síðarnefndi áherslu á að Draumurinn sé ekki hefðbundin söngleikjamynd og segir hana „af nýja skólanum.“

„Við ætlum að reyna að hafa þetta eins raunverulegt og hægt er fyrir utan að leikararnir syngja í bland við hefðbundin samtöl eins og ekkert sé eðlilegra. Okkur langar í raun að nota textana sem farartæki frásagnarinnar.

Við Biggi erum búnir að safna saman 80 lögum sem gætu komið til greina og svo straumlínulagast þetta eftir því sem við hlustum oftar og pælum meira. Við endum líklega með innan við fimmtán lög í myndinni þegar grisjunin er afstaðin,“ segir Kristófer og bætir við að valkvíðinn sé nokkuð þrúgandi enda af nógu að taka úr íslenskri dægurtónlistarsögu.

Myrkur og andlegt ofbeldi

„Það er allur skalinn í sarpinum. Allt frá Ellý Vilhjálms til Aron Can. Við eigum bara eftir að handvelja lögin sem munu segja þessa sögu.“ Sögu sem er enn í mótun þar sem endanlegt lagaval liggur ekki fyrir og öll réttindamál því óhjákvæmilega ófrágengin. „Beinagrindin er komin og lögin eru í raun og veru kjötið sem við hlöðum utan á þannig að þetta verður bíómynd.“

Kristófer lýsir Draumnum sem hádramatískri samtímasögu. „Þetta er nútíma ástarsaga um unga söngkonu sem skýst kannski allt of hratt upp á stjörnuhimininn og brenglað samband hennar við umboðsmann hennar sem er töluvert eldri en hún auk þess að vera AA sponsorinn hennar.

Þannig að það er allskonar myrkur og andlegt ofbeldi í gangi þarna á milli þeirra en svo fléttast inn í þetta æskuást söngkonunnar, meðlimur í hljómsveitinni, sem dýrkar hana og reynir að bjarga henni úr spíralnum sem hún er komin í.“

Flug hugmyndanna

Kristófer segir að eftir að Draumurinn kviknaði í sóttkvínni hafi hann byrjað að hafa áhyggjur af því að hann myndi ganga honum úr greipum. „Það stressar mig alltaf þegar hugmyndir fara svona á flug að kosmósið fyllist einhvern veginn stundum af sömu hugmyndum.“

Kristófer ákvað því, eftir að hafa viðrað þessar áhyggjur sínar við Jón Gunnar, að segja frá Draumnum núna frekar en að bíða eftir því að einhver annar yrði á undan. „Og ég skil heldur ekki af hverju einhver er ekki búinn að gera þetta þannig að mér fannst við bara þurfa einhvern veginn að klukka þetta,“ segir Kristófer og bætir við að forvinnsluferlið hafi gengið hratt fyrir sig.

„Þegar sóttkvínni lauk notaði ég á einu bretti upp alla greiða sem ég mun nokkurn tímann eiga inni í kvikmyndabransanum og fékk einvala lið með mér til að taka upp „tíser treiler“, eða prufu, til þess að sýna tilvonandi framleiðendum og fjárfestum hvernig ég sæi þetta fyrir mér.“

Hjálpaðu mér upp

Kristófer þakkar tækniframförum að það er orðið frekar auðvelt að taka upp slíkar prufur, eða tónlistarmyndband í þessu tilfelli, og segja má að þessi stikla hafi svo sannarlega virkað.

„Lagið sem varð fyrir valinu var Nýdönsk lagið Hjálpaðu mér upp sem Jón Ólafs útsetti fyrir mig upp á nýtt. Ég plataði Bríeti, Króla, Selmu Björns og Jóhannes Hauk til liðs við mig til að leika og syngja og skemmst frá því að segja að dæmið heppnaðist það vel að ég var búinn að landa framleiðslusamningi við Glassriver nokkrum dögum eftir að „tíserinn“ var klár,“ segir Kristófer og bætir aðspurður við að ekki sé útilokað að söngfólkið í stiklunni endurtaki rullurnar í kvikmyndinni en allt of snemmt sé að slá nokkru föstu um það.

„Þetta er náttúrlega tiltölulega nýkomið inn á borð en við erum gríðarlega spennt og til í þetta,“ segir Arnbjörg Hafliðadóttir, framleiðandi og einn eigenda Glassriver, og staðfestir að sýnishorn Kristófers hafi vissulega hitt beint í mark.

„Ég get nú alveg viðurkennt það að söngleikjamyndir eru kannski ekki alveg það sem höfðar til mín þótt margir hafi gaman að þeim. Þannig að væntingarnar voru kannski ekki mjög miklar en ég settist niður og sá treilerinn og bara fékk tár í augun þannig að hann seldi þetta alveg 100%“

Andstæðupar

„Ég bjóst nú ekki við því en þá kemur í ljós að Biggi er náttúrlega söngleikjanörd. Hann elskar söngleiki og er bara búinn að bíða eftir tækifæri til þess að koma að svona verkefni þar sem tónlist og söngur eru notuð sem frásagnarform,“ segir Kristófer um sálfræðinginn, tónlistarmanninn og handritshöfundinn sem Glassriver hóaði í eftir að hafa gripið Drauminn á lofti.

Biggi og Baldvin Z, hjá Glassriver, eiga að baki farsælt samstarf sem gat af sér kvikmyndirnar Vonarstræti og Lof mér að falla sem þeir skrifuðu saman og Baldvin leikstýrði.

„Það lá bara beinast við að þau hjá Glassriver hefðu samband við Bigga,“ segir Kristófer. „Og þau grínast með það að ég og Biggi erum fullkominn kokteill í þetta verkefni. Vegna þess að hann svolítið í tilfinningunum og á dýptina en ég er meira svona hressi gæinn að reyna að gera skemmtiefni. Þannig að þarna sameinast þessir tveir pólar.“