Fyrr í vikunni var greint frá því að einn efnilegasti íþróttamaður landsins, Almar Orri Atlason körfuboltamaður úr KR, væri á leið til Bandaríkjanna þar sem hann mun leika með Sunrise Christian Academy menntaskólanum í vetur.

Almar vakti mikla athygli með U18 liði Íslands á Evrópumótinu sem haldið var í Rúmeníu í ágúst og var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins auk þess sem fjöldi erlendra greinenda jós lofsyrðum yfir hann. Einn þeirra var Jonathan Givony, greinandi ESPN fyr­ir nýliðaval NBA-deild­ar­inn­ar vest­an ­hafs, sem sagði frammistöðu hans á mótinu vera eina þá bestu sem hann hefði séð í sumar.

Sunrise Christian Academy er í Kansas-fylki og metinn sá besti í Bandaríkjunum undanfarin tvö ár en skólinn vann NIBC-deildina á síðasta ári. „Ég hlakka gríðarlega til að leika með skólanum í vetur,“ segir Almar. „Sunrise er virkilega gott lið sem endaði efst í NIBC-deildinni á seinasta tímabili sem er deild sem tíu bestu liðin í High school-boltanum stofnuðu. Þetta verður virkilega skemmtilegt verkefni og það verður gaman að berjast við þá bestu í heiminum í mínum aldursflokki á hverjum degi og þróa leik minn enn frekar.“

Almar Orri, fyrir miðju, var valinn í fimm manna úrvalslið á EM í ágúst. MYND/FIBA

Vakti mikla athygli á EM

Góður árangur U18 liðsins í ágúst kom Almari ekki á óvart en liðið hafnaði í fjórða sæti. „Fyrir mótið höfðum við sem lið mikla trú á okkur þar sem við vorum að koma af góðu Norðurlandamóti og leið vel með hópinn. Markmið okkar var að komast allavega upp úr riðlinum og inn í átta liða úrslitin. Liðið breytti þó fljótt markmiði sínu í að stefna á eitt af þremur efstu sætunum sem voru verðlaunasæti. Það náðist því miður ekki þar sem við enduðum í fjórða sæti eftir tap gegn Finnlandi í lokaleiknum.“

Persónulegur árangur hans kom honum ekki heldur á óvart. Hann segist einfaldlega hafa passað að spila sinn leik og gera allt til þess að hjálpa liðinu til að vinna. „En auðvitað var líka markmiðið að standa sig vel persónulega og að ná að vekja smá athygli.“

Mikið hefur verið skrifað og rætt um ummæli Jonathan Givony í íslenskum fjölmiðlum en hvað finnst Almari um þau?

„Það er auðvitað mjög gaman að fá athygli frá manni eins og Jonathan fyrir eitthvað sem maður gerir vel og hefur unnið lengi að. Ég passaði mig þó alltaf á að láta þetta ekki hafa áhrif á leik minn meðan á mótinu stóð og halda áfram að gera það sem var best fyrir liðið.“

Íslenska U18 liðið endaði í fjórða sæti á EM í Rúmeníu í ágúst eftir naumt tap í lokaleiknum gegn Finnlandi. MYND/FIBA

Lærdómsrík dvöl á Ítalíu

Almar var einungis fjögurra ára gamall þegar hann hóf að æfa körfubolta með KR en þá voru bæði systkini hans að æfa körfubolta með félaginu. „Ég hef alltaf leikið með KR á Íslandi en ég lék svo tímabilið 2019–2020 með Stella Azurra í Róm á Ítalíu.“ Hann segir dvölina á Ítalíu hafa verið mjög skemmtilega þrátt fyrir leiðinlegan Covid-endi.

„Stella er frábært lið og þar kynntist maður því í fyrsta skipti að æfa eins og þeir bestu gera. Róm er náttúrulega stórkostleg borg og ótrúleg forréttindi að fá að prófa að búa þar. Körfuboltalega kynntist maður þessum hraða leik, þar sem pressað er allan völlinn allan tímann og mikið lagt upp úr því að vinna boltann snemma og refsa andstæðingnum hratt. Við spiluðum líka á mótum úti um alla Evrópu við mörg af bestu liðum álfunnar, svo sem Real Madrid, Barcelona, Valencia, Bayern München og Zalgris.“

Það kemst fátt að í lífi Almars utan körfuboltans. Yfir sumartímann reynir hann þó að veiða og spila golf með vinum og fjölskyldunni auk þess sem hann kíkir stundum í labbitúr með heimilishundinn.

Rétta hugarfarið skiptir máli

Það var um 12-13 ára aldurinn sem Almar áttaði sig á því að hann vildi setja körfuboltann í fyrsta sæti og reyna að ná eins langt og hann gæti. „Það var ekkert eitt sem olli þessu breytta hugarfari. Það að spila, æfa og leika mér í körfubolta er einfaldlega það skemmtilegasta sem ég geri og maður stefnir einhvern veginn alltaf bara á að taka næsta skref. Og það sem maður gerir til þess að ná þangað er tiltölulega einfalt, bara æfa meira.“

Fyrirmyndir Almars á körfuboltavellinum eru nokkrar og nefnir hann fyrst landsliðsmanninn Martin Hermannsson sem einnig ólst upp hjá KR á sínum tíma. „Ég fylgist mikið með Martin Hermannssyni og lít mikið upp til hans. Þar skiptir mestu máli hugarfarið sem hann hefur sem ég held að sé stór ástæða fyrir því að hann hefur náð svo langt. En auðvitað fylgist maður með stjörnunum í NBA-deildinni og þar þykir mér gaman að fylgjast með leikmönnum eins og Lebron James, Nikola Jokic og Luka Doncic.“

„Skammtímamarkmiðið er að komast í gott hlutverk hjá Sunrise-liðinu og reyna að vinna bandaríska menntaskólatitilinn,“ segir Almar Orri sem mun leika með Sunrise Christian Academy menntaskólanum í vetur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Allt snýst um körfubolta

Það kemst fátt að í lífi Almars annað en körfuboltinn. „Ég geri mjög lítið annað en að spila eða horfa á körfubolta. Yfir sumartímann finnst mér þó gaman að veiða og spila golf með vinum og fjölskyldunni. Körfuboltinn er hins vegar farinn að taka ansi mikinn tíma á sumrin líka og hef ég bara náð að fara tvo eða þrjá golfhringi í sumar og ekkert í veiði.“

Almar flaug til Bandaríkjanna í vikunni og er að koma sér fyrir og undirbúa spennandi ár. En hvaða markmið hefur hann sett sér fyrir veturinn og næstu ár?

„Skammtímamarkmiðið er að komast í gott hlutverk hjá Sunrise-liðinu og reyna að vinna bandaríska menntaskólatitilinn. Eftir næsta tímabil stefni ég á að spila með góðu háskólaliði og takast á við nýjar áskoranir þar sem ég mun æfa og leika gegn enn betri leikmönnum en ég mun spila á móti nú í vetur. Draumurinn er svo að spila í NBA-deildinni og hefur mig alltaf langað til þess. Lokamarkmiðið er að uppfylla þann draum.“

Íslenska U18 liðið hlustar á þjóðsönginn fyrir lokaleikinn gegn Finnlandi á EM í ágúst. MYND/FIBA