Athafnarmaðurinn Víkingur Heiðar Arnórsson opnar nýjan skemmtistað, Lúx Nightclub, í kvöld að Austurstræti 7 í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Víkingi á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

„Allt mitt líf hefur það eitt sameiginlegt að ég hef sogast að mannlegum samskiptum, tónlistarviðburðum og gleði samkomum. Það sem hefur helst fangað huga minn við skemmtanir og tónlistarviðburði er að fólk yfir höfuð geislar af svo mikilli hamingju þar sem tónlist getur frelsað huga og smitað út frá sér tilfinninga rússíbana og breytt gangi dagsins,“ skrifar Víkingur.

Hann segir jafnt fram frá því að frá því hann var lítill hefur það verið hans stærsti draumur að eignast sinn eigin skemmtistað.

„Ég fékk smjörþefinn af því fyrir 5 árum síðan þegar ég tók við stærsta skemmtistaðnum á höfuðborgarsvæðinu, en það var ekki alveg það sama að reka stað fyrir einhvern annan þar sem allar hugmyndir eru takmarkaðar eða stoppaðar og ekkert mátti gera. Þegar ástandið í miðjum heimsfaraldri fór aðeins að birta til, datt inn á borð tækifæri sem ég hafði beðið eftir allt mitt líf,“ segir hann og heldur áfram að allt sem hann hefur gert hingað til hefur verið í raun æfing fyrir þann nýja kafla sem er að taka við hjá honum.

Þá mun hann og meðeigendur hans opna dyrnar á Lúx Nightclub fyrir almenningi á miðnætti í kvöld.