Kryddaða týpan

1 Dalahringur

1 msk. ólífuolía

2 msk. kryddblanda (jöfn hlutföll af cummin, papriku, kóríander og chilliduft ef vill)

250 g brotnar pekanhnetur

3 msk. mango chutney (eða hunang)

salt og pipar

Makaðu olíunni á Dalahringinn og veltu upp úr kryddblöndunni. Sjáðu til þess að allar hliðar fái nóg af olíu og kryddi. Veltu saman pekanhnetum og mango chutney og dreifðu yfir ostinn og komdu fyrir í miðjunni. Stráðu svo salti og pipar yfir og bakaðu við 180-200 °C í 10-15 mínútur. Berðu ostinn fram með stökku kexi að eigin vali.

Hægt er að fylla tartalettur með sneið af osti og svo samblandi af kryddi, pekanhnetum, mango chutney og timjan.
Getty

Sú sæta

1 Dalahringur

1 msk. þurrkuð trönuber

250 g brotnar valhnetur

1 tsk. ferskt timjan

3 msk. hunang

smá skvetta af góðu balsamediki

salt og pipar

Blandaðu saman valhnetum, hunangi, trönuberjum og timjan og dreifðu yfir ostinn. Stráðu næst salti og pipar yfir ostinn. Ekki er verra að leyfa um ½ matskeið af góðu balsamediki að fljóta yfir ostinn áður en hann er bakaður við 180-200 °C í 10-15 mínútur. Berðu ostinn fram með stökku kexi að eigin vali.

Fyrir þau sem ekki eiga hentugt bökunarílát sem rúmar ostinn er gott að útbúa lítið álpappírsvirki með bökunarpappír í botninum til þess að hemja útbreiðslu ostsins og hunangsins á ofnplötunni. Þá fer ekki gramm af bráðnu gullinu til spillis. Fyrir þau sem vilja huga að smitvörnum má að sjálfsögðu bera góðgætið fram í sérbökuðum tartalettum og þá er um að gera að hafa sneið af osti neðst og áleggið ofan á.