Annað kvöld mun tónlistarkonan Anna Sóley koma fram í Mengi. Heimsfaraldurinn hefur sett svip sinn á söngnám hennar í Hollandi. Hún stefnir á að gefa út plötu á næsta ári.

Tónlistarkonan Anna Sóley Ásmundardóttir heldur tónleika annað kvöld í Mengi. Anna Sóley lýsir tónlist sinni á þann hátt að hún dansi á mörkum djass, popps og alþýðutónlistar. Hún segist hafa fengið ríkt tónlistarlegt uppeldi þar sem hún fékk að kynnast mjög fjölbreyttum stílum frá því hún var lítil.

„Ég hóf hljóðfæranám þegar ég var fimm ára gömul og lærði á fiðlu til 18 ára aldurs en færði mig þá yfir í söng. Eftir menntaskóla stundaði ég nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands en á því tímabili fór ég í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan. Eftir það hélt ég áfram í söngnámi erlendis og útskrifaðist í vor með BA-gráðu í djass- og poppsöng frá ArtEZ Conservatory í Arnhem,“ útskýrir Anna Sóley.

Fær innblástur víða

Í textagerðinni sækir Anna Sóley innblástur meðal annars í sögur og drauma.

„Textarnir mínir eiga það til að vera draumkenndir og helst það vel í hendur við tónlistina. Ég sæki innblástur oft í sögur, hvort heldur sem er bókmenntir eða hvers konar frásögur.

Myndlist, leiklist, heimspeki og fallegar frásagnir í tónum eru allt eitthvað sem hefur kveikt löngun til að búa til nýjar sögur í samtali við eldri frásagnir. Það er oft eitthvað sem er mér hugleikið á ákveðnu tímabili í lífinu sem endurspeglast í list og fær nýjan hljómgrunn eftir að það hefur fengið að meltast í undirmeðvitundinni.“

Henni þyki líka gott að fara út í göngutúr eða út að hlaupa og leyfa huganum að flæða og þá koma oft hugmyndir sem hún nýtir síðar.

„Þegar ég sem laglínur og set við hljóma finnst mér gott að vera ein og spinna þangað til að ákveðnar línur mótast og það kemur skýrari rammi. Þá þróa ég þær hugmyndir áfram, helst þær hugmyndir sem halda áfram að koma upp í hugann. Þær sem ég gleymi fá að gleymast. Stundum koma textabrot og laglína saman en það gerist ekki alltaf. Textinn er oft innblásinn frá andrúmsloftinu í hljómunum. Stundum kemur textinn þó fyrst og fjallar þá um eitthvað sem er mér hugleikið á þeim tíma, hvort sem það eru heimspekilegar vangaveltur, forvitni eða sýn á ákveðna atburði,“ útskýrir hún.

Ástandið flækti námið

Anna Sóley viðurkennir að ástandið í heimsfaraldrinum hafi sett svip sinn á söngnámið úti í Hollandi.

„Þeir áfangar sem hægt var að kenna á netinu voru færðir yfir á netið á síðasta ári. Sumir áfangar, eins og alls konar samspilsáfangar, féllu niður. Það er ýmislegt sem vantar upp á í tónlistarnámi þegar ekki er hægt að mæta í skólann. Þetta skólaár voru fræðigreinar og þeir áfangar sem fela ekki beinlínis í sér flutning á tónlist kenndir á netinu bróðurpart ársins. Samspils- og einkatímar fengu undanþágu til þess að vera kenndir í skólanum sjálfum. Það hafa ekki allir verið það heppnir, margir tónlistarnemendur hafa ekki fengið tækifæri til að sinna náminu sínu sem skyldi. Þrátt fyrir að hafa fengið að vera í skólanum er mikil breyting á náminu og ýmislegt sem væri eðlilegt að taka þátt í féll niður,“ segir Anna Sóley.

Hún segir það líka hafa verið skrítið að vera svona lengi í burtu frá fjölskyldu sinni og geta ekki heimsótt Ísland, en ástandið hafi líka leitt af sér jákvæðari hluti.

„Það voru frekar miklar takmarkanir og flest allt lokað nema matvöruverslanir frá nóvember eða desember þangað til í vor. Þrátt fyrir að það sé ýmislegt sem maður hefur þurft að laga sig að og ýmislegt sem hefði mátt betur fara þá hefur Covid leitt huga minn almennt mikið að heilsu og lifnaðarháttum. Heilsan er dýrmæt og mikilvæg. Maður gerir ekki mikið ef maður hefur ekki heilsu. Þetta hefur ekkert beinlínis með Covid að gera heldur að það hefur verið minna í gangi svo það eru ýmis munstur sem maður fer að taka betur eftir, eins og að fá nægilega mikinn svefn og margt fleira.“

Á leiðinni í hljóðver

Hafði ástandið einhver áhrif á lagasmíðar þínar?

„Í sannleika sagt veit ég það ekki, ég held ekki en framtíðin mun segja til um það. Ég tók eftir því að það voru þó nokkrir í kringum mig sem höfðu þörf á því að tjá sig um ástandið í gegnum lagasmíðar og það er mikilvægt að fjalla um það sem er í gangi í samfélaginu. Ég þarf oft lengri tíma til að melta hlutina. Mig vantar fjarlægðina til að sjá hlutina betur. Þegar allt er í gangi þá er ég ennþá að upplifa hlutina,“ segir hún.

Það er einvalalið sem kemur fram með Ástu Sóleyju á morgun.

„Ásamt mér spilar Lilja María Ásmundsdóttir á Huldu sem er hljóðskúlptúr sem hún hannaði og smíðaði sjálf, Mikael Máni Ásmundsson á gítar, Magnús Trygvason Eliassen á trommur, Tumi Árnason á tenórsaxófón og Snorri Skúlason á kontrabassa.“

Þau stefna svo í hljóðverið í byrjun ágúst.

„Við munum taka upp þau lög sem verða flutt á tónleikunum. Upptökur munu fara fram í Sundlauginni og ég stefni á að gefa plötuna út á fyrri hluta næsta árs.“

Það er grímuskylda og eins metra regla á tónleikunum. Jafnframt þarf fólk að skrá sig í sæti út frá kennitölu. Hægt er að skrá sig á netinu á vefsíðu Mengis.

Tónleikarnir fara fram annað kvöld og hefjast klukkan 21.00.