Stevie Nicks er fædd 26. maí árið 1948 í Phoenix. Hún hafði mikinn áhuga á ævintýrum þegar hún var barn og var ekki nema fjögurra ára þegar hún byrjaði að syngja dúetta ásamt afa sínum, sem var tónlistarmaður. Þegar hún var sextán ára fékk hún gítar í afmælisgjöf og samdi í kjölfarið sitt fyrsta lag sem bar heitið „I’ve loved and I’ve lost, and I’m sad but not blue“.

Í svörtum kjól, þröngum um mitti og bringu en með víðum og flæðandi ermum og pilsi.

Upphaf ódauðleika

Árið 1967 var Nicks stödd í gleðskap þar sem ungur maður að nafni Lindsey Buckingham sat og spilaði og söng lagið „California Dreamin‘“. Nicks gekk upp að honum, hóf upp raust sína og tóku þau lagið saman. Þau kynntu sig síðan hvort fyrir öðru en Nicks sagði tvö ár hafa liðið frá þessum fundi og þar til þau hittust á nýjan leik. Það var þá sem Buckingham bauð Nicks að ganga til liðs við hljómsveitina sína, Fritz, og áttu þau meðal annars eftir að hita upp fyrir Jimi Hendrix og Janis Joplin. Nicks sagði síðar að það hefðu alltaf verið straumar á milli hennar og Buckingham, en að hinir meðlimir sveitarinnar hefðu verið hikandi í garð hennar og ekki tekið hana alvarlega.

Í hvítum síðkjól og svörtum, ­aðsniðnum jakka á tónleikum.

Hljómsveitin lagði upp laupana 1971 og Nicks og Buckingham héldu sína leið sem dúó og urðu bráðlega elskendur. Þau gáfu út plötuna Buckingham Nicks árið 1973 en framan á plötuumslaginu var svarthvít mynd af þeim berum að ofan. Tveimur árum síðar gengu þau til liðs við hljómsveitina Fleetwood Mac sem hafði þá notið töluverðra vinsælda í Bretlandi, en með komu Nicks og Buckingham varð hljómsveitin enn vinsælli.

Þykkt og frjálslegt hár Stevie Nicks er ekki síður eftirtektarvert.

Það gekk þó á ýmsu á bak við tjöldin en árið 1976 slitnaði upp úr sambandi Nicks og Buckingham auk þess sem hljómborðsleikari sveitarinnar Christine Perfect og bassaleikarinn John McVie ákváðu að skilja eftir átta ára hjónaband. Þá skildi Mick Fleetwood, trommuleikari hljómsveitarinnar einnig við sína konu um svipað leyti. En þrátt fyrir sambandsslit, samskiptaerfiðleika og mikla áfengis- og fíkniefnaneyslu innan sveitarinnar, héldu þau ótrauð áfram og gáfu út plötuna og meistaraverkið Rumours í byrjun árs 1977. Sveitin hefur gefið út alls 18 hljómplötur yfir feril sinn og árið 1981 gaf Nicks út sína fyrstu sólóplötu af átta talsins.

Það er engin/n eins og Nicks, hvorki í útliti, tjáningu né sviðframkomu.

Eitt af einkennum Nicks er rám og seiðandi rödd sem á engan sinn líka. Þá er hún einnig þekkt fyrir einkennandi fatastíl en hún klæðist gjarnan síðum kjólum, oft þröngum um bringu og mitti, jafnvel í anda lífstykkja (e. corset) en flæðandi að neðan. Eitt af hennar einkennismerkjum eru sjöl af ýmsu tagi, mörg hver með kögri, blúndur, hattar, þykkir hælar og efni á borð við flauel. Andrúmsloft áttunda áratugarins endurspeglast í klæðaburði hennar en einnig má greina gotnesk áhrif eins og sjá má á myndunum hér.

Stevie Nicks á tónleikum í byrjun níunda áratugarins.
Í hvítum kjól, sem minnir helst á brúðarkjól, við píanó ásamt heldur hrollvekjandi dúkku árið 1981.
Svartklædd og seiðmögnuð Nicks á tónleikum í október árið 1977. MYNDIR/GETTY