Húsið er einu ári eldra en Sandra sjálf, en í því býr hún ásamt kærastanum sínum Arnóri Sveini og syni þeirra. „Húsið er byggt árið 1987, með fallegt og einfalt form, og var vel við haldið af fyrri eigendum. Við vildum þó breyta heildarsvipnum en stíllinn okkar er nokkuð einfaldur og dökkur. Ég vil hafa dökkar innréttingar og þykir skemmtilegra að láta liti njóta sín í hlutum sem hægt er að skipta út með lítilli fyrirhöfn. Með því að spila saman tímalausri hönnun og praktískum innréttingum lifa húsgögn og innréttingar lengur og nýtast vel í hversdagslegu lífi.“ Þegar Sandra eignaðist sína fyrstu íbúð kviknaði áhuginn á hönnun. „Þá fyrst fór mér að þykja gaman að innrétta, breyta og gera fallegt í kringum mig.“

Eldhúsið er einstaklega glæsilegt eftir breytingar.

Best þegar allir eru saman

Sandra er mikil fjölskyldumanneskja og henni líður best þegar allir eru saman. „Það var einmitt möguleikinn á stóru opnu aðalrými sem heillaði mig mest við þetta hús, aðalaðstaða fjölskyldunnar á einum stað. Ég er sjálf alin upp í húsi með litlum herbergjum þar sem allir voru alltaf saman í alrýminu og erum við mjög náin þess vegna. Því vil ég gera það sama með mína fjölskyldu.“

Eldhúsið fyrir breytingar.

Sandra ólst upp í Breiðholti en dreymdi alltaf um að búa í Kópavogi. „Sem barn þá grátbað ég foreldra mína að flytja í Kópavog þar sem ég var alltaf með annan fótinn í Kópavogi. Það virkaði aldrei en loks er ég flutt í draumahúsið í draumbænum. Það er virkilega gott að búa í hérna,“ segir Sandra.

Allt tekið í gegn

Þegar Sandra og Arnór keyptu húsið vissu þau að það þyrfti að gera ansi margt til að húsið yrði eins og þau vildu hafa það. „Við rifum út innréttingar, brutum niður veggi og fjarlægðum gólfefni. Því næst máluðum við allt húsið, flotuðum gólfið, teppalögðum stigann og settum upp nýjar innréttingar.“ Öll þessi vinna tók ekki nema fjórar vikur, sem er í rauninni ótrúlegt.

Þau brutu niður vegginn sem var á milli stofu og eldhúss.

„Að undanskilinni rafmagns- og pípulagningavinnu gerðum við þetta allt sjálf. Við smíðuðum meira að segja borðstofuborðið okkar með pabba mínum. Þegar við höfðum málað veggina og flotað gólfið kom svo babb í bátinn. Liturinn á veggjunum passaði bara alls ekki við gólfið. Við máluðum því allt húsið aftur, öllum til mikillar ánægju,“ segir Sandra og glottir. „Við fengum gríðarlega góða hjálp frá vinum og fjölskyldu, sérstaklega Magnúsi, pabba mínum. Þetta hefði ekki tekist á svona skömmum tíma án Magga smiðs, eins og flestir kalla hann. Hann stýrði þessu eins og herforingi,“ segir Sandra.

Alrýmið er sá staður þar sem Söndru finnst best að vera. Þar sem allir koma saman.

Heldur upp á hauskúpurnar

Sandra segist ekki vera mikill safnari, en hún heldur þó upp á hauskúpurnar sínar. „Ég byrjaði á að kaupa mér eina og svo tvær og svo er alltaf að bætast við, bæði sem myndir og sem styttur. Hún móðir mín hefur ekki gaman af þessum hauskúpum og hristir alltaf hausinn þegar það bætast nýjar í safnið,“ segir Sandra hlæjandi.

Sandra er mikil áhugakona um hauskúpur.
Barnaherbergið er hlýlegt og notalegt.