Ég hef verið að hanna garða síðan á síðustu öld og er eini landslagsarkitektinn sem hefur gefið sig algjörlega að slíkum verkefnum. Ég hef búið í Bandaríkjunum, Englandi, Spáni og Svíþjóð, ýmist við leik, nám eða störf, og áhrifa þessara dvala gætir gjarnan í verkefnum,“ segir Björn Jóhannsson landslagsarkitekt.

Margir eru farnir að huga að garðinum fyrir vorið og áhugavert er að fylgjast með hvaða stefnur og straumar munu einkenna árið.

„Þetta ár mun einkennast enn meira af hreiðurgerð. Með meiri heimaveru fólks í faraldrinum vill það að garðurinn sé ekki síður búsvæði en heimilið. Það verður því ekki síður mikilvægt að hægt verði að nota garðinn allt árið og allan sólarhringinn. Lítil hús sem gegna hlutverki heimaskrifstofu, sumargistingar eða sólskála verða nauðsyn frekar en ósk og því held ég að sala á góðum lausnum, til dæmis rennihurðum, verði óvenjumikil þetta árið. Þök og skýli tengd góðum skjólveggjum og útbúin geislahiturum munu þykja sjálfsögð þægindi en þá verður auðvelt bæði að grilla og snæða þó dropi aðeins úr lofti,“ segir Björn og er jafnframt nokkuð viss um að umhverfismál muni marka sín spor á útfærslurnar.

„Ég vona að það verði brjálað að gera hjá efnisveitu Sorpu í að útvega notaðar hellur en það er ekki til betra efni til þess að fá gamaldags yfirbragð með hallarstíl en hellur sem nú þegar hafa veðrast í 20-30 ár. Ég á líka von á því að einhver sjái tækifæri í að endurvinna gler fyrir garða en með því að tromla það má búa til ávalar perlur sem henta vel í stíga og í beð.“ Björn telur að við munum einnig sjá aukningu í gegndræpu yfirborði en BM Vallá, einn helsti samstarfsaðili Björns, hefur verið að taka þátt í verkefnum þar sem vatn getur runnið niður á milli hellna og skilað sér þannig aftur niður í jarðveginn.

Hér hefur verið valið að hafa steyptan pott í garði. Kemur vel út.

Meiri íveru fylgir meiri ást

Að sögn Björns höfum við á síðustu árum verið í funkissveiflu þar sem einföld form og mikið notagildi hafa verið ráðandi. „Ég held að það muni áfram verða ofan á en nú mun rómantíkin lauma sér inn. Þannig mun blómstrandi gróður verða meira áberandi auk þess sem formin munu að einhverju leyti mýkjast. Með fleiri gróðurhúsum verður ræktun meira áberandi og hlutfall á heimaræktuðu grænmeti og ávöxtum í mataræðinu mun aukast. Útieldhúsið mun einnig skipa stærri sess enda ekkert leiðinlegt að taka upp grænmeti, skola það og skella beint á pönnuna.

Timburveggir með einfalt útlit og sléttir steyptir veggir hafa verið áberandi þegar kemur að skjólveggjum í görðum. Það er einn og einn sem hefur klætt vegg með annars konar klæðningu eins og bárujárni eða flísum. Ég held að það muni aukast. Það eru æ fleiri að sjá hvað það skiptir miklu máli að útlit hússins fái að teygja sig út á við. Sérstaklega þegar kemur að litum.“ Björn er líka viss um að litavalið eigi eftir að mýkjast í ár. „Það stefnir allt í náttúrulegt litaval. Við höfum síðustu árin séð rekaviðargrátt eða óvarið timbur verða áberandi. Á næstu árum munum við leita meira í náttúruna og því munu brúnir og grænir tónar lauma sér í inn. Í fyrstu verða það gráu litirnir sem taka á sig grænan og brúnan blæ en eftir nokkur ár munum við sjá liti sem spila með litum laufblaða og trjábarkar auk ýmissa jarðartóna.“

Árið 2020 var ár gufubaðsins og ótrúlega margir að koma sér upp litlum sánahúsum úti í garði. „Fullkomin samsetning er svo sána og skiptiaðstaða, útisturta, heitur og kaldur pottur. Innan um þessi fínheit má svo koma fyrir litlum útibar með þaki og bjórkæli eða jafnvel skyrbar. Svo eru útiæfingatæki að verða vinsælli og líklegt að úrvalið þar muni færast í aukana.“

Timburpallar og steyptir veggir og bekkir. Kemur vel út.

Gamalt fær nýtt líf

„Mikið af erlendri pallaklæðningu er að hluta til úr endurunnu timbri og plasti og það væri mjög spennandi að sjá slíka framleiðslu hér á landi.“ Einnig vonar Björn að skógrækt og timburframleiðsla hér á landi aukist þannig að hægt verði að fá palla- og skjólveggjatimbur innanlands. „Það gæti minnkað kolefnissporið verulega en mörg skógræktarverkefni síðustu áratuga ættu að fara að skila nothæfu efni. Svo binda menn miklar vonir við gróður eins og bambus eða hamp sem hægt er að vinna lífmassa úr, þannig að úr verði þétt byggingarefni. Bambus hefur verið nýttur á þann hátt um árabil og hér á landi er fyrirtækið Flexi með nokkrar skemmtilegar lausnir fyrir palla.“

Fallegt garðhús í garðinum sem getur verið hentugt.
Gróðurhús þar sem hægt er að rækta rósir eða annað.
Glæsilegt útieldhús. Gaman að grilla þarna í góðu verði.