Erna Geir­laug Árna­dótt­ir innan­­­húss­arki­tekt hefur starfað við fagið frá árinu 1999 en á síðasta ári gerðist hún sjálfstætt starfandi undir eigin nafni. Hún hefur hannað fjöldann allan af eldhúsum undanfarið og elskar að hanna. Verkefnin hafa verið stór og smá, allt frá eld­húsum, baðher­bergjum, vali á hús­gögn­um og allt yfir í heild­ar­hönn­un inn­an­húss með góðri útkomu.

Hér sést hvernig lýsing inni í skápum veitir fallega birtu þegar tækjaskápurinn er opnaður. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Borðplata úr Black Cosmic graníti gerir mikið fyrir rýmið. Hún er frá Fígaró náttúrusteini. Hreyfing í æðum og litirnir heilluðu strax frúna á heimilinu. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Í þættinum Matur og heimili á sjónvarpsstöðinni Hringbraut hitti Sjöfn Þórðar þáttarstjórnandi Ernu Geirlaugu í einu af eldhúsunum sem hún hefur hannað í samráði við óskir húseigenda með góðri útkomu.

„Notagildi, þarfir hvers og eins og auðvitað fagurfræðin,“segir Erna Geirlaug spurð hvað hún hafi helst í huga þegar kemur að því að hanna draumaeldhús viðskiptavina sinna.

„Eigendur vildu fá stílhreint, einfalt en jafnframt þægilegt eldhús þar sem gott væri að vinna og auðvitað fallegt líka. Þegar ég kom þar inn fyrst blasti við mér eldhús, geymsla og vaskahús, en ákveðið var að hafa bara eldhús og vaskahús og um leið og það var ákveðið þá fór boltinn að rúlla. Ég byrjaði svo að hanna út frá þeirra þörfum og þetta er útkoman, fallegt eldhús, gott skipulag og hámarks nýting á rýminu.“

Innréttingin er stílhrein og nýtur sín vel við granítsteininn. Öll heimilistæki eru frá Siemens. Eitt af því sem er mjög vinsælt í dag er að vera með vínkæli í eldhúsinu og hér var vínkælir á óskalistanum. Vínkælirinn er Temptech Oslo frá Rafha.

Stílhreint og léttleiki í fyrirrúmi

Þegar kom að því að velja efnivið í eldhúsið var ósk eigenda skýr.

„Við lögðum upp með að hafa það stílhreint og léttleika í fyrirrúmi. Innréttingin er hvítlökkuð með gripum og sérsmíðuð hjá Aðalvík ehf., en þeir smíða mikið fyrir mig,“ upplýsir Erna.

„Frúin á heimilinu féll strax svo fyrir steininum Black Cosmic sem er úr graníti. Hreyfing og litirnir heilluðu hana strax og minntu hana á hraungos.“

Leynirýmið í eldhúsinu vekur mikla athygli og er um að ræða frábæra lausn þar sem notagildi og fagurfræðin samtvinnast með glæsilegri útkomu. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Leyndardómar eldhússins

Þegar inn í eldhúsið er komið og innréttingin skoðuð grunar engan að þar leynist vaskahús með öllum þægindum og má með sanni segja að þar hafi Erna Geirlaug hannað leynirými. Þar fær efniviðurinn áfram að njóta sín og er vaskahúsið hrein samfella við eldhúsið.

„Hurðin inn í vaskahúsið er með hreyfiskynjara og um leið og hún er opnuð kviknar ljós þar inni. Hurðirnar á tækjaskápnum eru líka með hreyfiskynjara og þegar þær opnast kvikna ljós í skápunum. Lýsing í tækjaskápunum er mjög falleg og hvernig hún lýsir upp granítið á borðplötunni og bakið á tækjaskápnum sem nýtur sín þá sérstaklega vel,” segir Erna Geirlaug.