Ragnar Kjartans­son opnar sýningu á vídeóinn­setningu sinni The Visitors í Lista­safninu á Akur­eyri í dag, laugar­dag, kl. 15.

„Mér finnst svo gaman að það sé verið að sýna þetta verk í Lista­safninu á Akur­eyri. Ég veit að þetta er búið að vera í undir­búningi lengi og þetta er alveg ó­trú­lega mikill heiður og á­nægja að það sé verið að setja þetta upp þarna,“ segir Ragnar.

The Visitors er eitt þekktasta verk Ragnars og The Guar­dian valdi verkið besta lista­verk 21. aldarinnar eftir að það var fyrst sett upp í Migros­safninu í Zürich 2012. Það hefur ekki verið sýnt á Ís­landi síðan það var sett upp í Kling og Bang 2012.

Hvernig er að koma aftur að verkinu rúmum ára­tug síðar?

„Ég er bara voða á­nægður með það og þykir alltaf alveg af­skap­lega vænt um þetta verk og líka vænt um fólkið í þessu verki. Þetta er svo mikið portrett af tón­listar­mönnunum og fólkinu í Rokeby-húsinu.“

Úr The Visitors eftir Ragnar Kjartansson.
Mynd/Aðsend

The Visitors var tekið upp í hinu sögu­fræga en hnignandi Rokeby sveita­setri í upp­héruðum New York-fylkis Banda­ríkjanna sem hefur verið í eigu sömu fjöl­skyldunnar síðan 1813.

Fjöldi þekktra tón­listar­manna og lista­manna kemur fram í verkinu, margir hverjir nánir sam­starfs­menn Ragnars á borð við Kristínu Önnu og Gyðu Valtýs­dætur, Davíð Þór Jóns­son og Kjartan Sveins­son auk banda­rísk-pakistanska lista­mannsins Shahzad Is­ma­ily.

Ég man að þetta var ein­hvers konar drauma­band þannig séð, að búa til hljóm­sveit með þessu fólki.

„Ég man að þetta var ein­hvers konar drauma­band þannig séð, að búa til hljóm­sveit með þessu fólki. Þetta eru stór­kost­legir tón­listar­menn af minni kyn­slóð og svo­lítið portrett af þessari senu,“ segir Ragnar.

Hann hefur áður sýnt í Lista­safninu á Akur­eyri og gerði til að mynda eftir­minni­legt úti­lista­verk sem sýnt var á safninu 2021 og heitir Undir­heimar Akur­eyrar. Spurður um hvort hann sé hrifinn af Akur­eyri sem sýningar­stað segir Ragnar:

„Þetta safn er orðið svo frá­bært og hann Hlynur Halls­son safn­stjóri er að gera svo góða hluti. Þannig þetta er bara einn af skemmti­legustu list­á­fanga­stöðum á landinu.“