Ragnar Kjartansson opnar sýningu á vídeóinnsetningu sinni The Visitors í Listasafninu á Akureyri í dag, laugardag, kl. 15.
„Mér finnst svo gaman að það sé verið að sýna þetta verk í Listasafninu á Akureyri. Ég veit að þetta er búið að vera í undirbúningi lengi og þetta er alveg ótrúlega mikill heiður og ánægja að það sé verið að setja þetta upp þarna,“ segir Ragnar.
The Visitors er eitt þekktasta verk Ragnars og The Guardian valdi verkið besta listaverk 21. aldarinnar eftir að það var fyrst sett upp í Migrossafninu í Zürich 2012. Það hefur ekki verið sýnt á Íslandi síðan það var sett upp í Kling og Bang 2012.
Hvernig er að koma aftur að verkinu rúmum áratug síðar?
„Ég er bara voða ánægður með það og þykir alltaf alveg afskaplega vænt um þetta verk og líka vænt um fólkið í þessu verki. Þetta er svo mikið portrett af tónlistarmönnunum og fólkinu í Rokeby-húsinu.“

The Visitors var tekið upp í hinu sögufræga en hnignandi Rokeby sveitasetri í upphéruðum New York-fylkis Bandaríkjanna sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar síðan 1813.
Fjöldi þekktra tónlistarmanna og listamanna kemur fram í verkinu, margir hverjir nánir samstarfsmenn Ragnars á borð við Kristínu Önnu og Gyðu Valtýsdætur, Davíð Þór Jónsson og Kjartan Sveinsson auk bandarísk-pakistanska listamannsins Shahzad Ismaily.
Ég man að þetta var einhvers konar draumaband þannig séð, að búa til hljómsveit með þessu fólki.
„Ég man að þetta var einhvers konar draumaband þannig séð, að búa til hljómsveit með þessu fólki. Þetta eru stórkostlegir tónlistarmenn af minni kynslóð og svolítið portrett af þessari senu,“ segir Ragnar.
Hann hefur áður sýnt í Listasafninu á Akureyri og gerði til að mynda eftirminnilegt útilistaverk sem sýnt var á safninu 2021 og heitir Undirheimar Akureyrar. Spurður um hvort hann sé hrifinn af Akureyri sem sýningarstað segir Ragnar:
„Þetta safn er orðið svo frábært og hann Hlynur Hallsson safnstjóri er að gera svo góða hluti. Þannig þetta er bara einn af skemmtilegustu listáfangastöðum á landinu.“