Árbæjarsafn er yndislegur staður og þar líður öllum vel enda er leitun að friðsælli stað,“ segir Guðrún Helga Stefánsdóttir, kynningar- og markaðsstjóri Borgarsögusafns.

Ekki er víst að almennur friður ríki þar í kvöld og dauðir gætu risið.

„Á dimmum vetrarkvöldum er mjög draugalegt um að litast á safninu og heyrst hefur að sumir framliðnir íbúar húsanna fari þá á stjá,“ upplýsir Guðrún en á safninu er hátt á þriðja tug gamalla húsa og í þeim bjuggu margar kynslóðir.

„Flestir íbúanna voru indælis fólk en á því voru þó undantekningar. Árið 1704 bjuggu til að mynda hjónin Steinunn Guðmundsdóttir og Sæmundur Þórarinsson í Árbæ en þau voru á miðjum aldri. Á móti þeim bjó ungur maður að nafni Sigurður Arason ásamt móður sinni. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og sagt er að hún hafi eggjað hann til að koma manni sínum fyrir kattarnef. Fór svo að Sigurður banaði Sæmundi kvöld eitt í september við Skötufoss í Elliðaánum,“ upplýsir Guðrún Helga um ástarglæp sem lifir í minningunni.

Upp komust svik um síðir og voru Steinunn og Sigurður fundin sek og dæmd til dauða en dómnum var fullnægt í Kópavogi.

„Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við, segir í Vallaannál. Hvort það sé svo reimt eða ekki í Árbæjarsafni vil ég ekki fullyrða en því er ekki að leyna að starfsmenn þar hafa orðið varir við eitt og annað sem er erfitt að finna haldbærar skýringar á. Ég held því að best væri fyrir fólk að koma sjálft á safnið í kvöld til að komast að hinu sanna,“ segir Guðrún.

Spákonur í Kornhúsinu

Tvær spákonur verða einnig á kreiki í Árbæjarsafni í kvöld, frá klukkan 19 til 22.

„Spákonur þessar sjá lengra en nef þeirra nær og munu spá í spil fyrir gesti í Kornhúsinu. Viðburðurinn er vinsæll og því gætu gestir þurft að bíða í röð eftir að komast að,“ upplýsir Guðrún, en á neðri hæð Kornhússins gefst gestum kostur á að kanna sýninguna Hjáverkin sem fjallar um fjölbreytt störf kvenna á árunum 1900 til 1970.

„Bábiljur og bögur er yfirskrift viðburðar sem boðið verður upp á í safnhúsinu Lækjargötu. Þar getur fólk unnið við eigið handverk, hlustað á sögur, langspil og kveðskap, og tekið þátt í samsöng; allt eftir því hvað hentar hverjum og einum í sannkallaðri baðstofustemningu,“ segir Guðrún og að sjálfsögðu verður boðið upp á kaffi og með því.

Í safnhúsinu Líkn í Árbæjarsafni er sýningin Veisla í farangrinum sem gestir Safnanætur eru hvattir til að kynna sér.

„Sýningin er innlit í ferðasögur sex nemenda á þriðja ári myndlistardeildar LHÍ en ferðast var um þorp í borg, í gegnum tíma, eld, frost, skin, frásagnir og ryk,“ upplýsir Guðrún.

Í kvöld verður tilboð á kaffi og kleinu í Dillonshúsi. Allir eru velkomnir og ókeypis aðgangur en fyrstir koma, fyrstir fá. Vegna vinsælda er nauðsynlegt að skrá sig í draugagöngurnar en þegar hafa borist margar umsóknir. Skráningu skal senda á leidsogumenn@reykjavik.is. Fyrstu tvær göngurnar verða kl. 19 og 19.30 og henta líka börnum, en fullorðins draugagöngur verða kl. 20, 20.30, 21.30 og 22.