Ingólfur Eiríksson hlaut á dögunum Nýræktarstyrk fyrir skáldsögu sína, Stóra bókin um sjálfsvorkunn.

„Ég er óskaplega þakklátur og auðmjúkur. Margir frábærir rithöfundar sem ég lít mjög upp til hafa fengið þennan styrk í gegnum tíðina,“ segir Ingólfur.

Hann er fæddur árið 1994, lauk BA-prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2017, meistaraprófi í nútímabókmenntum frá Háskólanum í Edinborg 2019 og meistaraprófi í ritlist frá Háskóla Íslands 2021. Eftir hann hafa komið út ljóðsagan Klón: Eftirmyndasaga, sem hann gaf út með Elínu Eddu og ljóðabókin Línuleg dagskrá. Hann var reglulegur pistlahöfundur hjá Lestinni á Rás 1 vorið 2021 með innslögin Bréf til Birnu og hefur ásamt Matthíasi Tryggva Haraldssyni þýtt leikritin Sími látins manns eftir Söruh Ruhl og Doktor Fástus í myrku ljósi eftir Gertrude Stein. Þá hefur hann birt ljóð í Tímariti Máls og menningar og víðar.

Þegar blaðamaður spyr Ingólf hvort kalla megi hann ástríðubókmenntamann segir hann: „Ég held að það megi alveg segja það. Ég er ekki mög fjölhæfur maður en finn mér samastað í bókmenntum og tungumálinu.“

Hann fær styrkinn fyrir fyrstu skáldsögu sína. Í umsögn bókmenntaráðgjafa segir meðal annars um verkið: „Uppbyggingin einkennist af sérlega vel heppnuðum skiptingum milli tímasviða og stíllinn er áreynslulaus en býr yfir lúmskum húmor og kaldhæðnum undirtóni.“

Um söguþráðinn segir Ingólfur: „Bókin fjallar um ungan mann sem fer í leikaranám til London. Allt byrjar nokkuð vel hjá honum en brátt fara geðræn vandamál að láta á sér kræla og hann fær ákveðna þráhyggju fyrir gömlu fjölskylduleyndarmáli sem átti sér stað í borginni. Sagan fjallar um það hvernig veruleikinn molnar undan honum.

Ég er að skrifa um alvarleg málefni en reyni að gera það á hátt sem mér finnst einlægur og hlýr. Ég er veikur fyrir bókmenntum þar sem höfundur talar og skrifar af mikilli hlýju, eins og Zadie Smith. Þetta er dramatísk frásögn sem einkennist af hlýju.“

Bókin er væntanleg hjá Máli og menningu í september.