Dragdrottningin Lola von Heart stjórnar dragsýningu sem fram fer í kvöld. Oddný Svava er manneskjan að baki Lolu. Hún hefur fengið einvalalið til að stíga á svið með sér í kvöld.

Grafíski hönnuðurinn Oddný Svava Steinarsdóttir hefur slegið í gegn síðustu árin sem dragdrottningin Lola Von Heart. Hún stjórnar dragsýningu sem fram fer á bókakaffihúsi Máls og menningar á Laugavegi í kvöld.

Oddný fór á sína fyrstu dragsýningu á Gauknum 2017.

„Þá sá ég Drag-Súg í fyrsta skipti. Þetta var eins og að stíga inn í hinsegin himnaríki. Ég sá Dragdrottningar og -kónga, allir voru velkomnir. Þetta var svo sannarlega kvöld sem ég mun alltaf muna eftir,“ segir Oddný.

Hún bauð í kjölfarið fram krafta sína við að aðstoða baksviðs á dragsýningu á Pride sama ár.

„Það var þá sem augun mín opnuðust. Eftir það ákvað ég að slá til og prufa, sjá hvað myndi gerast. Það var klikkað stress fyrir mig að gera þetta og undirbúa, en þegar ég steig á sviðið í fyrsta skipti fann ég fyrir svo mikilli ánægju. Ég vildi halda áfram, gera meira og fara lengra,“ segir hún.

Skemmtileg tenging

Hvaðan kemur nafnið Lola Von Heart?

„Þegar ég ákvað loksins að kýla á þetta allt þá kom nafnið. Mér fannst fyrst erfitt að finna eitthvað sem passaði, því ég vissi ekki hvernig þetta virkaði allt saman. En allt í einu mundi ég eftir mynd sem ég hafði séð sem barn á RÚV sem heitir Kinky Boots og þar er drag­drottning sem heitir Lola, mér fannst þetta skemmtileg tenging við sjálfa mig. Ég hef síðan í framhaldi tekið lagið Land of Lola, sem er úr söngleiknum, sungið af Billy Porter sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Oddný segir að hún upplifi að best sé að koma til dyranna eins og maður er klæddur þegar kemur að því að skapa sinn karakter í draginu.

„Það er gott að hugsa um hvaða skilaboð það eru sem þú vilt koma til skila og hvernig þú vilt gera það. Það eru margir þættir sem spila inn í drag: gera búninga, hár, förðun, tónlistarsamsetning og sviðsframkoma. Sumir syngja og aðrir dansa. Margir gera bæði. „You name it, we do it.“ Þetta er mikil vinna, en við gerum það því þetta er svo gaman. En þú þarft ekki að vera ótrúlega góður í öllu til þess að vera í dragi, við tökum hverju öðru eins og við erum.“

Hvert er mikilvægi dragsins fyrir þér sem tjáningarform?

„Ég hef oft notað Lolu til þess að tala um hluti sem ég sjálf er að kljást við. Þunglyndi, vinslit, pólitík. Alls konar. Ég leik mér að viðfangsefninu í frásögninni. En svo finnst mér líka mjög gaman að gera grín eða dansa við klikkað Lady Gaga-mix, þetta er alls konar og ég bind mig ekki við að gera bara einn hlut.“

Oddný segir Lolu hafa orðið til nokkuð hratt en nafnið fékk hún úr kvikmyndinni Kinky Boots.
Mynd/Lovísa Sigurjónsdóttir

Fjölbreyttur hópur

Lokaverkefni Oddnýjar frá Lista­háskólanum var unnið út frá íslensku dragsenunni.

„Þegar samkomubannið byrjaði var ég að vinna lokaverkefnið mitt. Ég gerði veglega bók um dragsenu Íslands og þar eru frásagnir kvenna í dragi. Bókin er mér mjög dýrmæt og ég vonast til að geta gefið hana út bráðum.“

Hún segir einstaklega fallega og þétta dragsenu hafa myndast hér á landi síðustu árin.

„Við erum líkt og ein stór fjölskylda, við tökum hvert öðru eins og við erum. Það hafa allir frelsi til að vera eins og þeir eru.

Hverju eiga gestir von á í kvöld?

„Það munu allir hafa alveg ótrúlega gaman. Það eru allir soltnir í sviðið og mjög spenntir að koma fram. Ég sjálf hlakka mest til að horfa á alla hina,“ segir hún glöð.

Oddný hefur fengið til liðs við sig frábæran hóp af draglistafólki sem kemur fram á sýningunni í kvöld.

„Mér finnst mikilvægt að hafa fjölbreyttan hóp, þessi sýning hefur kónga og drottningar og það sem fellur á milli líka. Við erum alls konar og ég held að áhorfendur muni skemmta sér konunglega.“