Dragdrottningin Starína, sem leikin er af Ólafi Helga Ólafssyni, verður með sögustund í Bókasafni Kópavogs í dag þar sem hún les bókina Fjölskyldan mín fyrir börn. „Ég hef alltaf verið frekar barnvæn dragdrottning. Mig hefur alltaf langað að gera meira fyrir krakka sem Starína og fékk þessa hugmynd að hafa samband við bókasöfnin og bjóða upp á lestur,“ segir Ólafur Helgi.

Bókasafn Kópavogs hafði svo samband til baka og úr varð þessi sögustund. „Ég hef heyrt að þetta sé vinsælt í Bandaríkjunum. Mér skilst að það sé hópur af dragdrottningum sem vinna við það að lesa fyrir börn á bókasöfnum, í dragi. Þau reyna að lesa hinseginvænar bækur, ef svo má að orði komast en mér skilst samt að þau lesi líka bara alls konar bækur.“

Dragdrottningin Starína verður með sögustund fyrir börn í Kópavogi.

Ólafur Helgi segist halda að þetta verði í fyrsta sinn sem dragdrottning les fyrir börn á bókasöfnum á Íslandi en hann vonar þó að þetta verði ekki í síðasta skiptið. „Þetta er eitthvað sem ég er mjög spenntur fyrir,“ segir hann.

„Bókin Fjölskyldan mín er eftir Ástu Rún Valgerðardóttur og Lára Garðarsdóttir myndskreytti. Hún fjallar um mismunandi fjölskyldumynstur. Friðjón á tvær mömmur, hann er í leikskóla og þar kemur í ljós að krakkarnir eiga mismunandi fjölskyldur. Sumir eiga tvær mömmur, sumir eiga mömmu og pabba, sumir eiga mömmu, pabba og stjúpforeldra og sum börn eru ættleidd frá útlöndum en eiga mömmu og pabba frá Íslandi. Þannig að ég er að lesa fyrir börnin um fjölbreytileika. Þetta er auðlesin og þægileg bók sem ég hef heyrt að krakkar elski.“

Starína kemur reglulega fram með draghópnum Dragsúgi. MYND/LOVÍSA SIGURJÓNSDÓTTIR

Ólafur segir að þó þetta sé í fyrsta sinn sem Starína lesi fyrir börnin á bókasöfnum sé þetta ekki í fyrsta sinn sem hann komi fram fyrir börn. „Allir vagnarnir mínir á Pride frá því árið 2010 hafa verið hugsaðir fyrir börn. Ég var með Disney-þema á vagninum mínum árið 2010 og eftir það ákvað ég að framvegis yrðu vagnarnir mínir spennandi fyrir börn.“

Ólafur segist líka hafa gaman af að koma fram fyrir ungt fólk en hann kemur einnig fram á öðrum viðburði á Hinsegin dögum sem er skipulagður af jafningjafræðslunni í Hafnarfirði. Viðburðurinn kallast Ung og hinsegin „Þetta er hinsegin kvöld, haldið af ungu fólki fyrir ungt fólk og ég verð einn af listamönnunum sem koma fram þar.“ Frítt verður inn en allur ágóði af viðburðinum rennur til hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna ’78.