Dragdrottningarnar úr raunveruleikaþáttunum og menningarfyrirbærinu RuPaul’s Drag Race eru byrjaðar að verða eftirsóttar af lúxus-tískumerkjum fyrir myndatökur og herferðir. Þær eru að öðlast vinsældir sem skemmtikraftar og fyrirsætur og hönnuðir vilja í auknum mæli ráða fólk sem endurspeglar fjölbreytileika heimsins. Vogue Business fjallaði nýlega um þessa þróun.

Hönnuðurinn Richard Quinn fékk dragdrottningarnar Tayce og Bimini Bon Boulash, sem náðu langt í annarri þáttaröðinni af bresku útgáfu raunveruleikaþáttanna, til að taka þátt í herferð sinni fyrir vor/sumar 2022. Quinn segist vera mikill aðdáandi þáttanna.

„Við fáum innblástur frá dragheiminum og gefum dragheiminum innblástur á móti. Þannig að það er indælt að láta þessa tvo heima mætast,“ segir hann. „Það er virkilega frábært að sjá fegurðarstaðla þróast. Ég verð klárlega spenntari yfir því að einhver úr RuPaul‘s Drag Race klæðist einhverju og gefi því líf frekar en hefðbundinn áhrifavaldur.“

Hluti af poppmenningu

Í nýjustu þáttaröðunum, bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum, hafa keppendur lagt meiri áherslu á tísku en áður og það hefur hvatt lúxusmerki eins og Balenciaga og Jean Paul Gaultier til að styrkja tengsl sín við samfélagið kringum þættina.

RuPaul Charles tekur hér við Emmy-verðlaunum fyrir þættina sína. Þeir hafa haft mikil áhrif á dragheiminn og eru nú farnir að móta tískuheiminn líka.

Balenciaga valdi sjálfan höfund þáttanna, RuPaul Charles, til að setja saman spilunarlista á Apple Music og safn af varningi í takmörkuðu upplagi sem var gefið út 24. júní síðastliðinn. Það er í fyrsta sinn sem tískuhúsið vinnur með dragdrottningu að safni af vörum.

„Í gegnum árin hefur Drag Race-þátturinn orðið vinsælli og hluti af poppmenningunni,“ segir Bimini Bon Boulash, sem lenti í öðru sæti í annarri þáttaröð bresku útgáfu þáttanna. Eftir þáttinn fékk Boulash samning hjá umboðsskrifstofunni Next Models og hefur setið fyrir á forsíðum ES Magazine og Time Out, ásamt því að stjórna viðburði á tískuvikunni í London og starfa með merkjum eins og Depop, YouTube og Calvin Klein. Hán segir að tískuheimurinn virðist vera orðinn opnari fyrir fólki sem er öðruvísi.

Mikil áhrif á tísku

Scott Studenberg, listrænn stjórnandi lúxusvörumerkisins Baja East, hefur lengi dregið innblástur frá Drag Race og í maí réði hann tvo keppendur, Gottmilk og Symone, sem andlit vörumerkisins fyrir herferðina fyrir haust/vetur 2021, sem reyndist vera vinsælasta herferð merkisins til þessa.

„Ég er hönnuður. Ég horfi á þáttinn. Ég þekki milljón aðra hönnuði, stílista og ritstjóra sem bíða spenntir eftir því að sjá hvað verður á sýningarpöllunum í Drag Race. Áhrif þáttarins á tísku eru mjög, mjög sterk. Hann er mjög mikilvægur fyrir menningu okkar,“ segir Studenberg. „Gottmilk og Symone eru ofurfyrirsætur dagsins í dag.“

Bimini Bon Boulash lenti í öðru sæti í annarri þáttaröð af bresku útgáfu þáttanna. Eftir þáttinn fékk Boulash samning hjá umboðsskrifstofunni Next Models. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Richard Quinn er einn þeirra fjölmörgu hönnuða sem eru sammála og hann segir að Bimini og Tayce séu skemmtikraftar, auk þess að vera fallegt fólk, sem hafi sterka nærveru og ótrúlega hæfni til að grípa auga myndavélarinnar.

Fullkomin blanda

Gottmilk, sem lenti í öðru sæti í 13. þáttaröð bandarísku útgáfunnar, segist hafa það markmið að brjóta upp hefðbundin kynhlutverk og alla kassa sem samfélagið reynir að setja fólk í.

„Mér finnst eins og margir hönnuðir og vörumerki séu að reyna að gera nákvæmlega það sama fyrir tískuna í dag. Þannig að dragdrottningar og hönnuðir eru fullkomin blanda,“ segir hann. Auk Baja East hefur hann starfað með tímaritunum Attitude, Glamour UK og Numéro ásamt ýmsum öðrum tískuverkefnum.

Jean Paul Gaultier réð Tayce í herferðina fyrir La Belle Le Parfum í maí og varð þar með fyrsta lúxusvörumerkið til að nota dragdrottningu í stóra ilmvatnsherferð. Frekara samstarf er fyrirhugað í París í september.

Tayce segir að ástæðan fyrir því að fólk sé að bóka dragdrottningar fyrir tískuverkefni sé einföld: „Vinan, við seljum þetta,“ segir hann. „Ég gef fólki það sem það vill. Ef þú setur mig fyrir framan myndavél kann ég að sitja fyrir. Ég kann að tala. Ég kann að ganga, elskan. Þau völdu réttu manneskjuna.“

Tayce keppti í bresku útgáfu þáttanna og var ráðinn í herferð Jean Paul Gaultier fyrir La Belle Le Parfum í maí. Frekara samstarf er fyrirhugað í París í september.

Next Models hjálpar Bimini Bon Boulash að velja úr tækifærum og eru að hugsa fram í tímann. „Mig langar að vinna mig upp. Draumurinn er að ganga á sýningarpöllum fyrir Vivienne Westwood eða Burberry,“ segir hán, en tekur fram að það sé löng leið fyrir höndum. „Fyrir einhvern eins og mig, sem skilgreinir sig sem kynsegin, er það ótrúlegt að vera á forsíðum tímarita og taka þátt í öllum þessum mögnuðu myndatökum. En það gæti samt verið meiri fjölbreytni á sýningarpöllunum.“

Drag opnaði leiðina

Ódýrari tískumerki eru líka að taka þátt. Eftir að hafa valið úr tilboðum vann Tayce með merkinu Nasty Gal að vörum sem komu út í júní. Í línunni eru undirföt, klæðskerasniðin föt og þægileg heimaföt og Tayce fékk alveg frjálsar hendur þegar kom að herferðinni, þar sem Tayce kemur fram sem bæði karl og kona. „Þetta er í rauninni kvenfatnaður, en ég vildi víkka út mörkin aðeins og segja „þetta eru föt, hver sem eru geta verið í hverju sem er“,“ segir hann.

Studenberg segir að fyrirtæki hafi breyst, menningin hafi breyst og drag hafi opnað leiðina. Hann segir að RuPaul hafi skapað mikilvægan vettvang til að leyfa heiminum að sjá þetta listform LGBTQ+ fólks.